01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

74. mál, verðlag

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að laun iðnaðarmanna verði ákveðin af verðlagsnefnd, þegar þau koma fram sem álagning á seldar vörur. Þarna er að vísu ekki framið nýtt eða meira ranglæti en með gengisskráningarlögunum, en þegar litið er á þá hreyfingu, sem uppi er, fyrir afnámi þeirra eða taxtaákvæða þeirra, tel ég ekki rétt að samþ. þetta frv. í þeirri mynd, sem það er.

Í sambandi við fyrirhugaða brottfelling 9. gr. er gott að minnast þess, að starf verðlagsnefndar hefir í seinni tíð gengið út á það að tryggja, að lagt sé nægilega mikið á nauðsynjar almennings, og útiloka þá samkeppni, sem annars er um það að fá vörur ódýrar í innkaupi. Þegar fyrir því er séð, að álagningin sé ákveðinn hundraðhluti af innkaupsverði, er það hverju kaupsýslufyrirtæki hagur, að vörurnar séu sem dýrastar í innkaupi, aðeins ef hægt er að hindra, að aðrir geti fengið þær ódýrari. Þegar innkaup eru gerð sameiginlega t. d. fyrir heilar iðngreinar, er auðvelt að ná þessum tilgangi með því að borga milliliðum og erlendum seljendum vörurnar eins dýrt og mögulegt er. Þarna sést, hvert stefnt er, meðan skorturinn kreppir að fjölda neytenda. Ákvæði 9. gr. um nettóágóða voru miðuð við það að koma í veg fyrir þetta fyrirbrigði, og einmitt þess vegna hafa mótmælin frá heildsölum beinzt gegn þeirri gr. Ég álít, að 9. gr. eigi að standa í frv., ef það verður samþ. Þó að viðskmrh. geti hlutazt til um, að efni hennar verði tekið upp í reglugerð, liggur ekkert fyrir um, að það verði gert. Afstaða ríkisstj. er í því efni harla tvíræð, ekki sízt eftir þau ummæli, sem einn af hv. fulltrúum Sjálfstfl., Thor Thors, hefir nú látið falla.