12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

166. mál, Staðarprestakall á Reykjanesi

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það var út af þessu frv., sem ég vil spyrjast fyrir um einstök atriði.

Ég sé, að í grg. er sagt, að Reykhólar séu betur í sveit settir en Staður. Eftir þeirri staðarþekkingu, sem ég hef þarna, þá eru Reykhólar annars vegar við það núverandi prestssetur, en Gufudalur hins vegar, og sé ég ekki annað en að prestssetrið sé nálægt miðju prestakallinu. Þess vegna finnst mér dálítið skakkt að segja, að presturinn sé betur í sveit settur á Reykhólum heldur en á Stað. Það getur verið, að ýmis þægindi séu því samfara að hafa prestssetrið á Reykhólum, þar er t. d. jarðhiti, en eins og hv. frsm. tók fram, þá er Staður ágæt bújörð og hefur þótt ein af beztu bújörðum fyrir prest um þessar sveitir, og þó að fólksekla sé, er hægt að sinna hlunnindum jarðarinnar, þar sem hún er ekki fólksfrek. Mér finnst því dálítið varhugavert að þjóta í að veita þessa heimild, því að það mun vera meiningin, að hún verði notuð. En tilefni þessa frv. er, eftir því sem grg. segir, að ungmennafélagið þar vestra hélt fund og boðaði til sín hreppsnefnd, sóknarnefnd og skólanefnd, en það sést hvergi, hvort nokkur þessara manna hefur komið eða ekki, en það getur verið, að einhver skilríki liggi fyrir um það, og vil ég þá spyrja hv. frsm., hvað hann veit um það, því að ef fáir eða engir þessara manna hafa komið, þá vitum við lítið um vilja þeirra í málinu.