12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

166. mál, Staðarprestakall á Reykjanesi

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Hv. 5. landsk. hefur andæft þessu máli. Ég efast ekki um, að hann er þarna öllum staðháttum kunnugur og kunnugri en ég, sem hef ekki komið á þessar slóðir og hafði landabréfið aðeins fyrir augum, þegar ég varð að skapa mér skoðun um þetta mál.

Hann telur, að Reykhólar séu ekki betur í sveit komnir heldur en Staður. Þeir eru á miðju nesinu, en Staður liggur vestan á nesinu, á hreppsenda, svo að kirkjusókn er miklu hægari, ef þessi breyt. verður gerð. Hvað Gufudal við kemur, þá skiptir það litlu máli, því að hann er vestan megin við Þorskafjörð, og verður prestur venjulega að fara sjóleiðis til kirkjunnar, hvort sem hann situr á Stað eða Reykhólum.

Þá vildi hv. þm, draga úr því, að almennur vilji væri meðal sóknarmanna um þetta mál. Ég hef ekki, eða n., annað við að styðjast en það, sem herra biskupinn upplýsti, að fyrir þessu máli væru óskir og ákveðin meðmæli frá sóknarnefnd og frá prófasti prestakallsins og yfirleitt frá þeim aðilum, sem frá greinir í grg. Ég held, að ekki sé hægt að draga í efa, að fyrir hendi sé almennur vilji Reykhólasveitarmanna, að þessi breyt. sé gerð, svo að það er engin ástæða til að mótmæla frv. á þeim grundvelli. Sem sagt, eftir þeim upplýsingum, sem n. fékk, sá hún ekki ástæðu til annars, eins og segir í nál., en að rétt væri að veita þessa heimild. Ég tel þetta mál ekki stærra en það, að ég tel alveg rétt að leggja það á vald kirkjumálaráðuneytisins, hvor leiðin verði farin, því að Alþ. hefur oft veitt stj. heimild til að gera stærri hluti en þá, sem hér er um að ræða, og er engin ástæða til að ætla, að stj. geri í þessu máli annan en það, sem rétt er og skynsamlegt.