12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

166. mál, Staðarprestakall á Reykjanesi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Þetta frv., sem liggur hér fyrir í heimildarformi, miðar að því að færa prestssetrið frá Stað að Reykhólum. Í fyrra voru samþ. — ef ég man rétt — 1. um að fjölga prestum í Reykjavík. Þegar þau voru samþ., var mér tjáð, að n. sæti á rökstólum að athuga yfirleitt prestaskipun og prestakallaskiptingu í landinu. Nú hagar svo til, að upp að þessu prestakalli, sem presturinn á Stað þjónar, liggur prestakall, sem kallað er Staðarhólsprestakall og búið er að vera prestlaust og fá prestsþjónustu að, að ég ætla síðan 1927, og hefur verið þjónað frá Hvammi í Dölum. En önnur kirkjusóknin, sem heyrir undir þetta prestakall, er Garpsdalskirkjusókn, sem liggur að norðanverðu við Gilsfjörð. Presturinn í Hvammi þarf ekki einungis að fara um Svínadal og heiðina og Saurbæinn, heldur inn fyrir allan Gilsfjörð út að Garpsdal, eða fá ferju yfir fjörðinn, –hvort tveggja óraleið, enda er presturinn fleiri daga, þegar hann á annað borð leggur af stað að heiman. Hins vegar liggur betur við að þjóna Garpsdalssókn frá prestssetrinu á Stað, og alveg sérstaklega, ef presturinn er settur að Reykhólum.

Ég vil nú búast við, að það, hvort stj. notar þessa heimild, fari fyrst og fremst eftir því, hver vilji er fyrir vestan, og þar næst eftir því, hvort af því verður, sem liggur á döfinni, að breyta eitthvað prestakallaskipun í landinu og sameina þau. Og þá er sjálfsagt að láta Garpsdalssókn falla undir Staðarprest, en Saurbæinn falla undir Hvamm í Dölum. En ef á að þjóna Gufudal frá Staðarprestakalli, eins og nú er, er betra, að presturinn sitji á Stað en Reykhólum, því að það munar miklu að fara sjóveg frá Stað og hins vegar sjóveg frá Reykhólum fyrir eyjar og nes, eða þá ríðandi inn Barmahlíð og yfir Þorskafjörð eða inn fyrir og yfir hvern hálsinn af öðrum.

Þar sem þetta er ekki annað en heimild, mun ég fylgja frv. En nú fór hæstv. forsrh. út úr d., en ég vildi spyrja hann, hvað liði yfirleitt því starfi, sem verið er að vinna til breyt. á prestakallaskipun í landinu. Þar sem hæstv. forsrh. kemur nú inn, vil ég endurtaka það, að ég greiði atkv. með þessu frv. fyrst og fremst af því, að það er heimild. Ég álít, að Staðarhólsprestakalli, sem hefur verið prestslaust síðan 1927, eigi að skipta og Garpsdalur að leggjast undir Staðarprest, en ekki vera þjónað frá Hvammi í Dölum, eins og nú er. Treysti ég því, að þetta verði framkvæmt um leið og prestssetrið er flutt. Sömuleiðis vil ég spyrja, hvað líður endurskoðun á prestakallaskipun, sem hefur verið í framkvæmd undanfarin ár.