30.04.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

Rannsókn kjörbréfs

Frsm. kjörbréfan. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti! Kjörbréfanefndin kom saman á fund í dag, eftir ósk forseta Sþ., til þess að taka til meðferðar bréf það, er hæstv. forseti las, svo og að rannsaka þau gögn önnur, er lúta að þessu efni.

Upplýst er, að sá flokkur, sem við síðustu kosningar kom að hv. 4. þm. Reykv., og þá kallaði sig Kommúnistaflokk, er sami flokkurinn og nú heitir Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkurinn, enda kallar hann sig nú því nafni bæði innan þings og utan. Flokkurinn hafði við kosningar í Reykjavík 1937 D-lista. Sá listi hlaut atkvæði þannig, á hvern frambjóðanda. Segir svo um þetta atriði í útdrætti úr gerðabók yfirkjörstjórnar í Reykjavík, dags. 23. júní 1937: „. . . . reyndust atkvæði innan listanna hafa fallið þannig á þingmannsefni, er kosningu náðu sem aðalmenn og varamenn :

Af D-lista :

Einar Olgeirsson, ritstjóri.

Sem varamenn voru kosnir:

Af D-lista :

1. Brynjólfur Bjarnason kennari.

Af öðrum frambjóðendum þeirra lista, sem komu að þingmönnum, reyndust atkvæðatölur þessara manna innan listanna þessar:

Af D-lista:

Jóhannes Jónasson úr Kötlum, skáld, 22655/12 atkv.

Rétta útskrift staðfestir

Lögmaðurinn í Reykjavík. (stimpill)

Björn Þórðarson.“ (sign.)

Þetta var útdráttur úr gerðabók yfirkjör

stjórnarinnar í Reykjavíkur-kaupstað.

Það virðist samkv. þessu ekki skipta máli hér, hvað sá flokkur heitir nú, sem hafði lista þennan í kjöri við síðustu kosningar og fékk menn kosna af honum, heldur er miðað við listann.

Þar sem 1. varamaður D-listans hefur setið hér á Alþingi sem 1. landskjörinn þingmaður, átti um varamannssæti Jóhannesar úr Kötlum að fara eftir 3. mgr. 117. gr. kosningalaganna, en hún hljóðar þannig:

. „Nú hreppir varaþingmaður af lista í Reykjavík uppbótarþingsæti, og skal yfirkjörstjórnin í Reykjavík þá koma saman að nýju og gefa næsta frambjóðanda á þeim lista, ef til er, kjörbréf sem varaþingmanni.“

N. hefur leitað sér upplýsinga um, hvort þetta ákvæði hafi verið framkvæmt, og kom þá í ljós, að ekki hafði verið gefið út sérstakt kjörbréf. En lögmaðurinn í Reykjavík, sem er formaður yfirkjörstjórnar, hefur tjáð n., að yfirkjörstjórn komi saman á fund í dag til þess að ganga frá kjörbréfi til handa Jóhannesi úr Kötlum.

En samkv. því, sem alvitað er og úrskurðir hafa fallið um í landskjörstjórn, og samkv. opinberri skýrslu útgefinni af hagstofunni um alþingiskosningar 1937, hefur Brynjólfur Bjarnason hreppt þingsæti sem landskjörinn þingmaður, en næsti varamaður af sama lista er Jóhannes úr Kötlum. Með tilliti til þessa hefur kjörbréfan. bókað eftirfarandi:

„Nú með því að Brynjólfur Bjarnason hefur hreppt uppbótarþingsæti á Alþingi og situr þar sem 1. landskjörinn þingmaður, virðist Jóhannesi Jónassyni (úr Kötlum) bera varamannssætið samkv. síðustu málsgr. 117. gr. kosningalaganna. Hann hefur að vísu ekki lagt fram formlegt kjörbréf, en þar sem opinber gögn sanna, að hann er úrskurðaður varamaður af D-lista í Reykjavík, leggur nefndin til, að þingseta hans verði tekin gild.“