10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

160. mál, ríkisreikningar 1939

Frsm. (Sveinbjörn Högnason) :

Fjhn. hefur borið tölur frv. saman við ríkisreikninginn 1939 og ekki fundið neitt við þær að athuga. Aðeins einni aths. endurskoðenda hefur verið beint til Alþingis, um ríkisútgáfu skólabóka. Í tilefni af því kallaði n. til sín framkvæmdastjórn þessarar útgáfu og formann þeirrar nefndar, sem skipuð er til þess að sjá um útgáfuna, og hefur n. fallizt á, að óhreyft sé látið standa í þetta sinn það fyrirkomulag, sem haft hefur verið á útgáfu og reikningum útg., en n. sýnist hins vegar ástæða til, að næst verði bætt úr ýmsum ágöllum. Sérstaklega hafa bækurnar þótt koma of seint, og hefur það tafið kennslu meinlega. En slíkt eru framkvæmdaratriði, og við vitum, að þessir menn, sem við töluðum við, hafa áhuga fyrir því, að þetta sé lagfært eins og hægt er. Annars virtist mér og fleirum í n., að stjórn þessarar útgáfu ætti að vera í höndum fræðslumálastjórnar landsins, fremur en í höndum nefndar, sem í rauninni ber enga ábyrgð. Nú er svo áliðið þingtíma, að of seint er að koma fram breyting á þessu, og verður það að bíða betri tíma.

Nefndin leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.