11.06.1941
Neðri deild: 76. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Jón Pálmason:

Ég skal ekki fara neitt inn á að ræða almennt um þetta mál, því að það er orðið ákveðið, að ríkisstjóri skuli kosinn, heldur aðeins segja örfá orð um það deilumál, sem hér liggur fyrir, sem sé um bústað þessa væntanlega ríkisstjóra.

Hæstv. forsrh. sagði það hér í sinni fyrstu ræðu áðan, að hann undraðist mjög þær umr., sem hefðu orðið hér í blöðum og annars staðar um það, að ríkisstjóranum væri ákveðinn bústaður á Bessastöðum. En mér virðist hæstv. ráðh. þurfi sannarlega ekkert að undrast þetta, og liggja til þess margar ástæður. Í fyrsta lagi sú, að ekkert er undarlegt, þó að ágreiningur sé um það, hvort æðsti valdsmaður ríkisins eigi að búa hér í höfuðstaðnum eða ekki. Í öðru lagi eru minningar tengdar við þennan stað, Bessastaði, sem ekki er undarlegt að valdi ágreiningi. Og í þriðja lagi er um stórkostlegt kostnaðaratriði að ræða. Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. hefur talað um, að óviðfelldið væri, að menn létu sér detta í hug, að gamlar minningar hefðu vanhelgað vissa ákveðna staði í landinu, svo að það mundi loða við um aldur og ævi, þá er nokkuð rétt í því. En annars er það að segja, að hinu er ekki að leyna, að mjög óviðfelldnar og ömurlegar minningar eru við þennan stað bundnar. Og þess vegna er óviðfelldnara að setja þangað æðsta valdsmann ríkisins heldur en á flesta aðra staði á landinu. Mér fyndist það líkast því ef t. d. væri um að ræða að endurreisa Alþ., að setja nýtt Alþingi á stofn í Kópavogi.

Kostnaðarhlið málsins er atriði, sem mjög kemur til greina, og virðast vera talsverðar deilur um það á milli manna, sem um það hafa látið í ljós skoðun sína hér. Og ég verð að segja, að ég sé ekki líkur til annars en að það hljóti að verða mjög dýrt að kaupa Bessastaði og setja jörðina svo í stand, að hæfa þyki að bjóða ríkisstjóra verustað þar. Því að það er ekki aðeins íbúðarhúsið, heldur einnig útihús og jarðrækt og annað fleira, sem í sambandi við það stendur, sem þyrfti að endurbæta til þess að staðurinn geti talizt hæfa æðsta valdsmanni ríkisins. Og kunnugir menn hafa sagt mér, að ekki mundi vera hægt að komast af með minna til þessara endurbóta heldur en hálfa millj. króna að kaupverði meðtöldu. Hvort það sé heppilegt að setja þarna upp ríkisbú, sem vel getur komið til mála að eigi að gera, — en um það hef ég ekkert heyrt frá hæstv: ráðh. né öðrum, — veit ég ekki. En ef á að ákveða ríkisstjóra jörð til ábúðar og húsa hana í samræmi við það, sjá það allir menn, að þó að hann hafi þá sérstakan bústjóra, þá verður mikill kostnaður í sambandi við það.

Þá er að bera þetta saman við það, sem sagt hefur verið í sambandi við Fríkirkjuveg 11. hað eru náttúrlega mjög ónákvæmar upplýsingar, sem hér hafa komið fram um það, hvað kaup á þeirri húseign og endurbætur á henni mundu hafa mikinn kostnað í för með sér. Hæstv. ráðh. segir, að það hús hafi verið falt fyrir 300 þús. kr. Svo segir hann í næstu setningu, að það kosti 400 þús. kr. En fyrir tveimur árum var það selt fyrir 136 þús. kr. Og það er mikil framfærsla, hvort sem það á nú kosta 300 þús. kr. eða 400 þús. kr. En ég get vel tekið undir það með hv. þm. Borgf., um þá lausn, sem ég teldi í bili vera heppilegasta á þessu máli, og það því fremur sem hæstv. forsrh. tekur fram, að hann væri þeirri lausn fylgjandi, að hann teldi núverandi ráðherrabústað samboðinn ríkisstjóra. En við verðum að athuga það, að við erum nú með þetta mál í millibilsástandi, og meðan það stendur, er ekki ástæða til að leggja í miklar framkvæmdir eða mikinn kostnað fram yfir það, sem þörf er á. Og því miður verðum við að játa, að það er allt á huldu, hvernig fer um sjálfstæðismál okkar, þó að við, að því er virðist, þurfum ekkert að óttast frá Dana hendi.

Þá er þess að geta, sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh., að hann ætlast til þess, þó að ríkisstjóri verði búsettur á Bessastöðum, þá hafi hann skrifstofur sínar í Reykjavík og afgreiði hér embættisverk sín, og hlýtur það að hafa aukinn kostnað í för með sér, borið saman við hitt, ef hægt væri að hafa húsnæði og skrifstofur á sama stað. En viðvíkjandi meðferð Þessa máls hér á hæstv. Alþ. er það að segja, að mér þykir framkoma hæstv. forsrh. í því mjög undarleg. Hann talar hér um það sem alveg sjálfsagðan hlut, að ef frv. verður samþ., og úr því að búið er að samþ. þessa heimild vegna ríkisstjóra, sem ákveðin er í fjárl., þá ætlist hann til þess, að bústaður ríkisstjórans verði á Bessastöðum. En því getur þá ekki hæstv. ráðh. gengið hreint til verks og sett í till., að bústaður ríkisstjórans skuli verða á Bessastöðum? Ég lít svo á, að jafnvel þó að þetta frv. verði samþ. sem l. eins og það liggur fyrir, og þó að nú sé samþ. heimildartill. frá hæstv. ráðh. við fjárl., þá sé alls ekki orðið ákveðið um bústaðinn, nema hæstv. ríkisstjórn hafi um það fengið alveg samkomulag. Og það hefur komið í ljós, að hæstv. atvmrh., sem er formaður fjölmennasta flokksins í landinu, er þessu mótfallinn, og ég vænti þess, að að baki honum standi meiri hl. Sjálfstfl., bæði hér á þingi og utan þings. Ég býst því við, að ef hæstv. forsrh. er eins ákveðinn í þessu og hann talar, þá ætti hann að ganga hreint til verks og setja í 1.: „Bústaður ríkisstjóra skal vera á Bessastöðum,“ og láta svo atkvgr. skera úr um þá till.