11.06.1941
Neðri deild: 76. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það er aðeins leiðrétting og undirstrikun á því, sem ég er búinn að segja oft áður, enda liggur hér fyrir till. um það, að ef frv. verður samþ. til viðbótar því, sem búið er að samþ. í sambandi við fjárl., þá er þingið búið að ákveða þar með bústað ríkisstjórans, og ríkisstjórnin verður að haga sér eftir því, hvort sem hún er sammála því eða ekki. En mér dettur ekki í hug að taka upp deilur um það, hvort það eigi að hlíta samþykktum hæstv. Alþingis eða ekki, eftir að búið er að taka fram, að þessi samþykkt verði skilin eins og ég hef óskað eftir. Enda viðurkenndi hv. þm. Borgf., að um þetta lægju fyrir yfirlýsingar frá ráðh. Og ég deili ekki um það, hvort ríkisstjórnin eigi að fara eftir því.

Um það, að slæmar minningar séu tengdar við Bessastaði, er vert að benda á það, að enginn minnist á Hólminn, þar sem mest var unnið að því að drepa niður íslenzka endurreisn á sínum tíma, sem er sá staður, sem Reykjavík nú stendur á, — og þeir menn, sem þannig kúguðu Íslendinga, notuðu hús það, sem nú er stjórnarráðshús, fyrir tugthús. Þar hafa oft setið góðar ríkisstjórnir, sem hafa stjórnað landinu með mikilli farsæld og hamingju. Ég hef ekki heyrt minnzt á. að ótilhlýðilegt þætti að nota svona þetta gamla tugthús. Og stofan, þar sem forsrh. situr, er sú sama stofa, sem Trampe greifi notaði.

Það má með því að tala um þetta Bessastaðavald búa til grýlur og koma þeim inn í heilann á mönnum. En menn hugsa ekki um margfalt verri dæmi, sem ég hef nefnt.

Það er vitanlega ekki nokkur fótur fyrir því, að það mundi nema hálfri millj., sem það kostaði að gera svo við Bessastaði, að boðlegt væri ríkisstjóra að vera þar. Viðgerð á húsinu er langt komin, og ég býst við, að hún nemi ekki nema litlu broti af þeirri upphæð.