11.06.1941
Neðri deild: 76. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Eiríkur Einarsson:

Ég skal ekki halda langa ræða um þetta mál, en vil þó stuttlega gera grein fyrir því, sem mér er efst í huga um einstök atriði þess. Ég mun greiða atkv. skrifl. brtt., sem komin er fram við 10. gr.

Það, sem veldur því, að ég vil segja þessi orð, er hið margumrædda búsetuatriði. Þar kemur

það til greina, sem ekki hefur verið tekið sérstaklega fram af öðrum, að frv. ber þess keim, að um bráðabirgðaráðstöfun er að ræða að mörgu leyti. Þar sem frv. kveður svo á, að ríkisstjóri skuli kosinn til eins árs í senn, er það að mínu áliti gert með sérstöku tilliti til ástandsins, sem er. Ég tel líka, að það ástand réttlæti, að sú aðferð sé höfð, og vil því samþ. frv.. En það er von mín, að þegar fram í sækir, verði æðsti valdamaður Íslands ekki kosinn með þessum hætti né heldur til eins árs, heldur verði hann kosinn af þjóðinni sjálfri.

Mér hefði ekki þótt óeðlilegt, með tilliti til þess, sem ég hef sagt um, að ég lít svo á, að hér sé um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, að það væri ekki fastbundið í byrjun, hvar ríkisstjóri skuli eiga aðsetur, heldur væri þar líka leyst úr til bráðabirgða. Mikill fjöldi meðal almennings vill eflaust láta sig þetta nokkru skipta, og tilfinningar fólksins eru vakandi gagnvart slíku máli.

Hvort það sé vanhelgun að hafa bústaðinn á Bessastöðum, finnst mér hvumleitt að þurfa að rökræða. Bessastaðir eru eins og hver annar staður á Íslandi, það er margt vel um hann, og sólin skín þar eins og annars staðar, og þá getur verið fallegt þar. En út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði um minnimáttarkennd í þessu sambandi, verð ég að játa, að ég er dálítið háður slíkri minnimáttarkennd. Það eru til staðir á Íslandi, sem eru alþjóð manna sérlega kærir, t. d. Þingvellir. Sama er að segja um biskupsstólana. Það hefur verið nefnt, að þar hafi setið misjafnir menn. Það er rétt. Þar sátu erlendir biskupar, sem voru þrándur í götu íslenzks þjóðarréttar, en þar hafa líka setið ágætir íslenzkir menn, bæði fyrir og eftir. Og nú er það m. a. á dagskrá Alþ. að minnast helgi þessara staða á maklegan hátt. Hugir Íslendinga eru ekki tilfinningalausir fyrir því, hver staðurinn er, með tilliti til þess, sem liðið er. Ef á að ákveða æðsta embættismanni íslenzka ríkisins stað annars staðar en í Rvík, hefði sá staður mátt vera Þingvellir. Ég er að vísu ekki beinlínis að halda fram nýjum stað, því að staður utan Rvíkur finnst mér óhentugur, þó að æskilegur gæti verið af þjóðernisástæðum.

Eins og ég sagði áðan, vill fólkið láta sig skipta slík mál sem þetta. Það er alveg eins dómbært um þetta og þm. Ég vil því láta það bíða að ákveða um það. Ef sú stund kemur, að almenningur ákveður forseta sínum verustað, hygg ég, að það mundi verða framkvæmanlegt mál að gera þann vilja gildandi. Staðinn væri hægt að fá. Oft eru látin fara fram lögnám og eignarnám, þegar um minni máttar mál er að ræða.

Hvað kostnaðarhliðina snertir, brestur mig nokkuð þekkingu um það atriði. Hvort dýrara yrði að velja Bessastaði eða Fríkirkjuveg 11, skal ég ekki um segja, en geri ekki ráð fyrir, að mikill munur sé þar á. Aðalkostnaðurinn yrði e. t. v. ekki kaupverðið, heldur yrði hann rekstrarlegs eðlis. Að velja ríkisstjóra stóra og umfangsmikla bújörð, virðist ekki vera neinn kostur, því að ef hann er ekki hneigður fyrir búrekstur, yrði það eins konar kvöð, sem gæti orðið til óþæginda fyrir ríkið, því að nóg er af ríkisbúunum að öðru leyti.