14.06.1941
Efri deild: 79. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

167. mál, ríkisstjóri Íslands

Magnús Jónsson:

Ég hafði hugsað mér að hreyfa aths. við 10. gr. frv. í sambandi við ummæli hæstv. forsrh. við umr. fjárl., þar sem hann lýsti yfir því í sambandi við samþ. till. þar, að ríkisstjórinn mundi sitja á Bessastöðum. Ég er algerlega á móti því, vegna sögulegra minja, og finnst óþarfi að vera að setja fyrsta innlenda þjóðhöfðingja okkar á þennan stað, sem á ógeðslegastar endurminningarriar úr sögunni. Menn koma fram með það hér, að nú sé það íslenzkt vald, sem eigi að sitja þennan stað, en að ætla sér að gera staði vinsæla með því móti, það er alls ekki siðaðra manna háttur. Hverjum mundi nokkru sinni detta í hug að gera Kópavog að aðsetursstað Alþ.? Þetta er álíka, að fara nú að setja ríkisstjórann á Bessastaði. Þar að auki er þessi staður leiðinlegur og illa settur. Af stöðum í námunda við Reykjavík er þessi staður langþrengstur og lítilmótlegastur. Vegurinn þangað liggur í gegnum hraun með slýtjörnum á báða vegu og er langsamlega nálegasti staðurinn, þó víða væri leitað hér í nágrenni Reykjavíkur. Einnig er hann svo langt frá höfuðstaðnum, að ferðir gætu teppzt bæði á sjó og landi oft á vetrum. Bréf hefur borizt frá Sigurði Jónassyni, eiganda Bessastaða, þar sem hann tilkynnir, að hann muni gefa ríkinu þessa jörð fyrir ríkisstjórabústað. Þetta er hin mesta rausn, því mun enginn neita, en ég vil þó ekki, að það valdi fullnaðarákvörðun um þetta. Ég segi nú svona í gamni, að ef Alþ. ætti að launa þessa gjöf sómasamlega, þá gæti það ekki betur gert en að kjósa gefandann fyrir ríkisstjóra. Þessi maður er prýðilega kjörgengur og væri vel svarað hjá Alþ. með því að kjósa hann. — En svo ég sleppi öllu gamni, og þó þetta sé rausnarleg gjöf, þá vil ég þó ekki, að þessi maður ráði, hvar ríkisstjórinn hefur aðsetur sitt.

Ef þessi gjöf yrði þegin, þá er þessum eiganda Bessastaða þar með gefið vald til þess að ákveða, hvar ríkisstjórinn skuli sitja, en það er Alþ., sem á að ákveða það. Þess vegna vil ég, að eiganda Bessastaða verði þakkað þetta rausnarlega boð, en því miður sé ekki hægt að þiggja jörðina í þessu skyni. Ég vil spyrja hæstv. forsrh., hver ákveður staðinn endanlega, hvort það verði forsrh. eða ráðherrafundur. Ég vil setja þau ákvæði í frv., að ríkisstjórinn eigi sæti í Reykjavík eða þá svo nærri, að það hindri ekki störf hans.

Það er t. d. venja víða í öðrum löndum, að helztu menn þjóðarinnar heimsæki þjóðhöfðingjann á nýársdag, en vel getur svo farið, að ekki verði fært til Bessastaða á nýársdag, og er það leiðinlegt fyrir ríkisstjórann, að hann skuli ekki geta tekið við gestum á sínum eigin bústað hvaða tíma árs, sem er. Í stjórnarkrísu gæti farið svo, að hans yrði þörf hér í bænum, og þá þyrfti bústaður hans að vera svo nærri, að alltaf væri hægt að ná í hann. Ég er alveg sammála þeim, sem ekki vilja Fríkirkjuveg 11, enda þótt það sé indæll staður. Ég vil ekki, að ríkisstjórinn búi sem óbreyttur borgari. Hann á að búa í útjaðri bæjarins eða rétt utan við hann, en þó nær en á Bessastöðum. — Bæði Fríkirkjuvegur 11 og Bessastaðir eru of litlir sem einkabústaður. Ríkisstjórinn þarf stórhýsi, stóran móttökusal, álíka og hátíðasal háskólans, og borðsal líkt og gylta salinn á Hótel Borg. Slík húsakynni komast ekki fyrir í neinum „villum“ hér, enda þótt þær séu stórar. Þetta eru þó engin rök gegn Bessastöðum einum. Það er sama, hvar er hér, að öll hús yrðu ófullnægjandi fyrir ríkisstjórann.

Mér líkaði vel það, sem hæstv. forsætisráðherra sagði um að hafa viðhöfn, þegar ríkisstjórinn verður kosinn, og mér finnst viðeigandi að hafa það 17. júní, þó mér finnist það óþarfi að binda allt við liðna atburði. — Við getum vel eins og aðrir búið okkur til nýja merkisdaga. — Annars sé ég ekki, að það þurfi að standa í sambandi við nokkurt annað mál. Þó þingi sé ekki lokið, þá má gjarnan taka einn dag eftir að ríkisstjórinn hefur verið kosinn.

Ég get vel fallizt á, að ríkisstjóri slíti þinginu og flytji þá ávarp til þjóðarinnar, en hann þarf að fá tíma til að undirbúa sig. — En ég sé ekki, að kosning ríkisstjóra þurfi endilega að vera bundin við dýrtíðarmálin. Það má vel ljúka við þau 18. júní. Það mál kom seint fyrir Alþ. og er betra, að menn fái að ræða það í næði. — En hvað sem því líður, þá get ég ekki verið með ákvæðum 10. gr., þrátt fyrir hið rausnarlega boð eiganda Bessastaða.