05.06.1941
Efri deild: 72. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

18. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti! Þetta mál, sem er stjfrv., er komið frá Nd. og hefur legið hjá allshn. síðan 25. fyrri mán.

Eins og sjá má af nál., þá er n. ekki sammála um málið. Við tveir nm., hv. 2. þm. S.-M. og ég, leggjum til, að frv. verði fellt, og er í okkar nál. gerð grein fyrir, af hvaða ástæðum. Höfuðástæðan er, að við viljum ekki leyfa ölbruggun, eins og hún er leyfð nú.

Hæstv. ríkisstj. sá sig knúða til að gefa út bráðabirgðal., sem leyfðu bruggun öls með 4% styrkleika handa brezka setuliðinu. Mér er ekki grunlaust um, að ríkisstj. hafi reiknað með allverulegum tekjum af þessu öli fyrir ríkissjóð. Reynslan hefur þó ekki verið sú, að ríkissjóður hafi fitnað mjög af öltollinum, því eftir heimildum, sem ég hef fengið, þá hefur sala ölsins verið minni en ráð var fyrir gert í upphafi. Salan mun hafa byrjað í kringum 16. janúar síðastl., og skýrslan nær til 10. maí. Á þeim tíma seldust 122480 flöskur, líklega hálfflöskur. Tekjur ríkissjóðs af þeirri sölu nema 9286 kr. Þetta jafnar sig í að vera á dag 1055 flöskur og 80 kr. fyrir ríkissjóð. Á ári með sömu sölu mundi ríkissjóður fá í tekjur af ölinu kringum 30 þús. kr., og nú á tímum er ekki litið stórum augum á jafnlágan toll. Nú er það að segja, að þótt ölið sé aðeins ætlað fyrir útlendinga, þá er þó hætta á, að ölið renni úr sínum rétta farvegi og til Íslendinga, en hvað sem því líður, þá er meiri hl. n. þess fullviss, að þegar brezka setuliðið hverfur burtu héðan, þá verður reynt að halda í þessa ölbruggun fyrir landsmenn sjálfa.

Ýmsir af valdamönnum þjóðfélagsins hafa lagt mikið kapp á, að slík áfengisbruggun yrði leyfð. Fram að þessu hefur víst ekki fengizt meiri hl. fyrir þessu á þingi, og því er nú gripið Þetta kærkomna tækifæri til að koma á ölbruggi, með þá von í brjósti, að það verði aldrei lagt niður aftur.

Frá sjónarmiði okkar bindindismanna á alls ekki að leyfa ölbrugg hér á landi. Ástæður fyrir því eru margar, meðal annars sú, sem drepið er á í nál. okkar, að öldrykkja er fyrsta skrefið til þess að venja menn á vínnautn, og við þykjumst hafa átt að búa við ömurlega reynslu af vínnautninni hér á landi, svo að hið opinbera hefur jafnvel verið til neytt að reyna að draga úr henni, t. d. með skömmtunarkerfinu, sem átti eingöngu að vera til þess að draga úr vínnautninni, fyrirbyggja launsölu og útiloka setuliðið frá því að eiga greiðan aðgang að vínútsölum landsins, en það hafði borið sorglegan árangur, eins og kunnugt er. Hið opinbera hefur haft fleiri varnir í frammi. Hefur t. d. verið. nokkuð rætt um, að reisa þurfi drykkjumannahæli, sem kosta mundi mikið fé, og er það afleiðing þess, að mikill hluti þeirra manna, er víns neyta, kann ekki með það að fara. Og svo er nú farið inn á þá braut að leyfa bruggun á sterku öli, sem er drykkur handa fátækum sem ríkum. Það er leiðin til að koma þeim, sem létta pyngju hafa, til að kaupa flösku og flösku af öli. Með því er verið að leiða þjóðina út á þá braut að hafa vín með höndum meira en verið hefur.

Reynsla annarra þjóða er sú, að ölnautn sé fyrsta stig vínnautnar. Meðal annars af þeirri ástæðu teljum við, að ekki ætti að leyfa ölbrugg í okkar landi. Okkar land var einu sinni bannland, og ef til vill er það ekki svo langt framundan, að það verði bannland á ný, þó að ég spái engu um það, en það væri þá illa farið, ef áður væri búið að lögleiða hér bruggun á allsterkum áfengisvökva. Meðal annars af þessum ástæðum teljum við, að fella eigi þetta frv., þó að það sé stjfrv. Ríkissjóður missir mjög lítils í, og það eina, sem gerðist, væri það, að brezka setuliðið mundi flytja inn öl handa sér. Ég hygg, að þeir flytji yfirleitt inn það, sem þeir þurfa, og að þeir lifi ekki á okkar framleiðslu nema að litlu leyti.

Þess má geta, að mér er ekki grunlaust um, að þessi bruggun á sterku öli hafi orðið til að draga úr neyzlu á veikara ölinu, sem öllum er heimilt að drekka, og ef svo er, sé ég ekki, hvað er unnið með þessu. Annað atriði athugavert er það, að öltollurinn er nú 7 aurar á flösku, og á víst að láta hann gilda einnig um sterkara ölið. Nú væri ekki óeðlilegt, þar sem sterka ölið á að vera handa gestum vorum, að tollurinn væri hærri á því í hlutfalli við styrkleikann, en með 7 aura tollinum eru tekjur ríkissjóðs af þessu mjög litlar. Þó að ég tali hér um tekjur ríkissjóðs í þessu sambandi, erum við þó algerlega andvígir því, að ríkið afli sér tekna á fávizku og vesaldómi manna, en það er gert með þessu. Vissir menn verða á þennan hátt byrði þjóðfélagsins, og margar fjölskyldur hafa komizt á vonarvöl vegna vínnautnarinnar. Því erum við „principielt“ á móti því, að ríkið afli sér tekna af vínsölu.

Mér blandast ekki hugur um það, að löng ræðuhöld munu vera til lítils. Ég hef það á tilfinningunni, að þessu frv. sé ætlað líf og nóg þingfylgi sé fyrir því, og ég þykist vita, að hvorki ég né aðrir geti snúið þessum hv. þm. En sagan mun á sinum tíma dæma um þetta verk sem önnur. Ég efast ekki um, að við Íslendingar erum ein af þeim fáu þjóðum í heiminum, sem gætum sýnt þann menningarvott að brugga ekki áfengi og neyta þess ekki. Flest það, sem við bindindismenn sögðum, þegar áfengisl. var breytt, hefur rætzt. Þá sagði hæstv. forsrh., að íþróttahreyfingin mundi lækna þetta, ungir menn, sem efldu þor sitt úti við og uppi um fjöll og firnindi, mundu ekki neyta víns, en hann hefur ekki reynzt forspár, því að unglingar hafa mjög gerzt til þess að neyta víns, og áfengisflóðið hefur aukizt, þó að áfengis- verzluninni sé lokað nú um stund, vegna þess að vínandi fæst ekki frá útlöndum.

Ég skal láta máli mínu lokið. Ég skil afstöðu minni hl. Hún er gagnstæð afstöðu okkar meiri hl. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég svari aftur, nema eitthvað nýtt komi fram, því að ég býst ekki við því, að fram verði borin rök, sem kollvarpi þeim rökum, sem við berum fram í nafni bindindismanna í landinu.