05.06.1941
Efri deild: 72. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

18. mál, áfengislög

Fram. minni hl. (Magnús Gíslason) :

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, hefur n. ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, aðallega vegna þess, að ég leit á þetta sem fjárhagsmál ríkisins, en hv. meðnm. mínir vildu líta á það sem bannmál eða bindindis. Lítur út fyrir, að þeir hafi þá skoðun, að þótt ölið verði eingöngu selt setuliðinu fyrst um sinn, þá muni fara svo, að það verði síðar selt landsbúum yfirleitt. En í frv. er ekkert, sem réttlæti þessa skoðun. Ég man ekki til, að hér hafi nokkurn tíma komið fram till. um, að leyft yrði að framleiða öl handa landsbúum. Það er alkunnugt, að hér er hægt að framleiða öl, er ekki stæði að baki því, sem framleitt er hjá þjóðum, sem lengra eru komnar í þessu efni en við. En ekkert hefur komið fram, sem sýni, að halda eigi áfram og framleiða ölið handa öllum landslýð. Þetta er hliðstætt því, að öl væri framleitt til útflutnings. Það væri engin frágangssök, ef menn vildu ekki neyta ölsins í landinu, að það væri framleitt til útflutnings í því skyni að afla ríkinu tekna.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ríkið hefði litlar tekjur haft af þessu hingað til. Það er rétt, en ástæðan er sú, að ekki hefur fengizt innflutningur á efni til ölbruggsins, svo að hægt væri að fullnægja eftirspurn setuliðsins. En þó að tekjurnar hafi ekki enn orðið nema 30 þús. kr., er það fundinn peningur fyrir ríkissjóð.

Hv. frsm. meiri hl. vildi láta skína í, að ekki væri víst nema nokkur hluti ölsins rynni ekki í réttari farveg. En ég held, að hann hafi ekkert fyrir sér í þessu. Ríkisstj. hefur sett ströng ákvæði um þetta, enda er framleiðslan ekki meiri en svo, að hún fullnægir ekki einu sinni þörf Breta sjálfra.

Hér togast í rauninni á tvö sjónarmið. Annað er sjónarmið bannmanna, sem vilja ekki, að nokkurt áfengi sé selt í landinu, en hitt er sjónarmið þeirra, sem vilja fá tekjur af ölsölunni. Það er rétt, að tollur af þessu öli er hinn sami og af óáfenga ölinu, en ríkið getur hækkað tollinn á sterkara ölinu, ef því sýnist, og eru þess dæmi frá öðrum löndum, að tollurinn fari eftir styrkleika ölsins.