27.03.1941
Efri deild: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

62. mál, Búnaðarbanki Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég sé ekki, að þörf sé á því að endurtaka neitt af því, sem hv. 1. flm. þessa frv. hefur tekið fram um, að nauðsyn beri til þess að stofna hér landbúnaðardeild fyrir smábýli í kaupstöðum og kauptúnum. Ég hygg, að hv. þingdeild geti fallizt á þau rök. Það hefur verið mjög tilfinnanlegt fyrir þessi smábýli, sem vissulega eiga víða mikinn rétt á sér, að geta ekki fengið hentug lán. En það, sem hefur valdið því, að dráttur hefur verið á þessu, er það, að þessi banki hefur ekki frekar en aðrir bankar haft mikið fjármagn aflögu. Og þar sem skortur var á fjármagni til útlána, hefur þótt þýðingarlítið að stofna þessa lánadeild fyrir smábýli, þó að l. hafi verið um það sett.

Ég verð að segja, að ég hef rekið mig á það og það mjög á undanförnum árum, að þessi smábýli hefur vantað lán. Þau eiga víða mikinn rétt á sér engu síður en annar atvinnuvegur, og sýna smábýlin það greinilega, þar sem þeim hefur verið komið upp við hentugar ástæður, að lífsafkoman getur verið góð þar engu síður en við sjávarútveginn. Vegna þess að ég býst við, að hv. þingdeild geti fallizt á þessi rök, ætla ég ekki að lengja mál mitt um það atriði frv.

En viðvíkjandi því að breyta um stjórn á bankanum, vil ég segja það, að ég er í sjálfu sér ekki mótfallinn því, að það verði gert. Það er að nokkru leyti eðlilegt að taka það fyrirkomulag upp, sem hér er gert ráð fyrir, eða svipað því. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að það sé vafamál, hvort reynist betur, að hafa bankaráð eða að ráðherra hafi með stjórn bankans að gera með bankastjóra. En því fylgja þó þeir kostir að taka þetta fyrirkomulag upp, sem hér er gert ráð fyrir, að fleiri pólitískir aðilar geta fylgzt með því, hvernig bankanum er stjórnað, og það er óneitanlega kostur. En ég verð að segja, að mér þykir sá tími, sem hér er gert ráð fyrir, að bankaráðsmennirnir verði kosnir til, til fjögurra ára í einu, of stuttur tími. Mér þykir sú stjórn vera of laus, og er hætt við, að það verði ekki til neinna bóta frá því, sem nú er. Ég held mér sé óhætt að segja, að undanfarin ár hefur þessum banka verið stjórnað með mikilli gætni, og einmitt vegna þess hefur hann komizt yfir alla erfiðleika, sem oft hefur kostað eins og gengur og gerist, að það varð að neita um lán, sem að sumu leyti voru nauðsynleg, en sem hefðu verið bankanum og fjárhag hans fyrir framtíðina um megn að veita. En einmitt vegna þess, að bankanum hefur verið stjórnað þannig, hefur verið talað um að stofna lánadeild fyrir smábýli, og það, hvernig bankinn er stæður, gerir það mögulegt. En ég er hræddur um, að ef kosin verður stjórn til fjögurra ára, verði það ekki til bóta frá því, sem nú er. Hvaða landbrh., sem fer með völd, þá hygg ég, að það megi gera ráð fyrir því, þar sem hann ber einn ábyrgð á þessum banka, að hann setji sinn metnað í að stjórna bankanum með sem mestri gætni. Og þess vegna vildi ég, ef horfið verður að því ráði, að bankaráð yrði tekið upp, þá verði það kosið til ekki skemmri tíma en 6–8 ára í einu. Einnig held ég, að það verði rétt að ákveða laun bankaráðsformannsins, sem kemur í stað gæzlustjóra, og jafnframt hinna tveggja manna, því að það er viðkunnanlegra en að það sé ákveðið af ráðherra. Þeim breytingum, að bankaráðið verði kosið til lengri tíma, er ég engan veginn mótfallinn og álft meira að segja, að verði það gert, eins og hér er gert ráð fyrir, gæti það jafnvel að mörgu leyti verið hagkvæmt.