03.04.1941
Efri deild: 30. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

62. mál, Búnaðarbanki Íslands

Bernharð Stefánsson:

Ég finn ástæðu f. h. okkar flm. þessa frv. til að þakka n. fyrir, hvað fljótt og röggsamlega hún hefur afgr. þetta mál.

Um brtt. n. vil ég segja það, að við flm. höfum ekki borið okkur saman um þær, en ég get fyrir mitt leyti vel á þær fallizt. Um 1. brtt., sem er við 2. gr., um það að fella burt ákvæðin um ábyrgð sveitarfélaga, er það að segja, að það kom til orða í mþn., sem samdi frv ., að nema þetta atriði burt, og það hafði fylgi þar. En ástæðan til þess, að það var ekki borin fram till. um þetta þá, var sú, að okkur fannst, að ef það væri gert á annað borð, væri eðlilegast að bera fram sams konar till. viðvíkjandi hinum deildum bankans, því, að þar er líka gert ráð. fyrir lánum, sem sveitar- og bæjarfélög ábyrgjast. Niðurstaðan varð, að till. okkar í þessu máli fjölluðu eingöngu um þann nýja kafla um smábýladeildina. Mér þykir því það eitt á skorta hjá n., fyrst hún gerir till. um þetta, að hún skuli ekki bera einnig fram sams konar till, um hina kafla búnaðarbankal., því að mér er fullkunnugt um það, sem hv. frsm. vék að, að lán út á ábyrgð sveitarfélaga eru mjög lítið notuð nú í seinni tíð, og þar sem þau hafa verið notuð, hafa þau gefizt misjafnlega.

Ég hef ekkert að athuga við brtt. n. um stjórn bankans. Mér finnst það ekki skipta ýkjamiklu máli, þó að formaðurinn sé skipaður til 6 ára í staðinn fyrir 4. Það er sjálfsagt á margan hátt til bóta, eins og hv. frsm. orðaði það. Ekki finnst mér heldur fara illa á því, eins og n. gerir till. um, að laun bankaráðsmanna séu ákveðin. Mér finnst, úr því það er gert, að formaður bankaráðsins ætti varla að hafa lægri laun en meðbankastjórar við Búnaðarbankann höfðu áður, því að honum er í sjálfu sér ætlar sams konar starf og þeim voru ætluð, þó með þeim mun, að þeir voru tveir, en hann er einn, og má því búast við, að hann hafi meira starf en meðbankastjórarnir höfðu áður, á meðan þeir voru, en þetta er kannske sniðið eftir launum núverandi gæzlustjóra, því að ég verð að kannast við, að ég veit ekki, hversu há þau laun eru. Þetta starf formannsins verður sjálfsagt einnig líkt starfi því, sem gæzlustjórinn hefur nú.

Ég er sammála hv. frsm. um það, að þóknunin til hinna bankaráðsmannanna sé óþarflega hátt sett, 1800 kr. auk dýrtíðaruppbótar, því að ég býst ekki við, að starf þeirra verði annað en að sitja á fundum einstöku sinnum. Þess konar störf eru það, sem menn í stjórnmáladeilum benda á og kalla bitlinga, og að líkindum lenda þau hjá launamönnum í Reykjavík, sem frá sjónarmiði margra eru nægilega hátt launaðir fyrir. Finnst mér þó, að betur færi á því, án þess að ég ætli að fara að gefa nokkra reglu um það fyrirfram, að til þessa starfs væru valdir bændur, svo að þeir hefðu áhrif á stjórn bankans.

Þetta er aðeins stutt aths., en ég kvaddi mér aðallega hljóðs til þess að þakka n. fyrir, hvað hún hefur afgr. þetta mál fljótt og hvað hún hefur orðið sammála okkur flm. frv., því að þessar breyt., sem hún flytur, raska ekki stefnu frv. né tilgangi.