22.04.1941
Neðri deild: 42. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

62. mál, Búnaðarbanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Viðvíkjandi því, hvernig kosningin fer fram á bankaráði Búnaðarbankans samkvæmt þessu frv. og því, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði, vildi ég leyfa mér að gera þá athugasemd, að landbn. hér á Alþ. eru kosnar hvor af sinni d., en landsbankan. er kosin af sameinuðu Alþ. Og það gerir strax nokkuð mikinn mun í þessu efni. Þar fyrir utan ber þess að gæta, að landsbankan. er tiltölulega mjög stór n. og hefur a. m. k. lögákvæði um það, hvenær hún eigi að koma saman, og það eru ákvæði í l. um það, hvernig hún á að starfa, og hún hefur rétt, svo framarlega sem hún vill nota hann, til þess að geta haft kontrol yfir bankanum. Landbn. eru starfandi n. þingsins, og þær eru ekki eins lýðræðislega kosnar eins og landsbankan. Þess vegna er þar að ýmsu leyti ólíku saman að jafna. Samt vita menn, að það hefur komið mjög mikil gagnrýni á landsbankan. Og ég man ekki betur en einmitt hv. þm. V.-Ísf. hafi átt þátt í till. um mjög ýtarlega breyt. á þeirri n., vegna þess að hún væri ekki heppileg eins og hún væri. Og álit, sem komið hefur fram frá Alþfl. í þessu efni, hefur gengið út á aukið vald þingsins yfir bankanum. Þess vegna er Alþ., með því að láta landbn., sem kosnar eru hvor af sinni deild, kjósa þessa bankaráðsmenn, að skjóta sér enn þá meir undan ábyrgðinni í þessu efni. Ég tel það miklu eðlilegra, ef um er að ræða, að stofnað sé slíkt bankaráð, að það sé gert af Alþ. sjálfu. Það er regla, sem hefur verið höfð við flest stórfyrirtæki ríkisins, þar sem yfirleitt er nauðsynlegt að hafa slíkar n., svo sem hjá síldarverksmiðjum ríkisins og annars staðar, þar sem slíkar n. eru. Ég veit ekki til, að uppástunga hafi komið fram um það, að sjútvn. kjósi stjórn síldarverksmiðja ríkisins eða þess háttar. Ég held, að mönnum mundi finnast það ákaflega óeðlilegt.

Það var dregið úr höndum Alþ. valdið til þess að veita skáldum og listamönnum styrk og flutt til menntamálaráðs. Þetta gengur allt út á það sama, að rýra vald Alþ., koma þessu og mörgu öðru úr höndum þess, skapa milliliði og koma öðrum áhrifum að heldur en þeim aths., sem kæmu í ljós, þegar svona ákvarðanir væru teknar á opnum fundum.

Hvað Útvegsbankann snertir, þá er það annað mál, vegna þess að þar er um hlutafélag að ræða, og sá ráðh., sem fer með bankamálin, fer með það vald fyrir hönd ríkisins.

Ég mun koma með brtt. við frv. við 3. umr.