26.04.1941
Neðri deild: 45. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

62. mál, Búnaðarbanki Íslands

Sigurður Kristjánsson:

Það má vel vera, að það skorti á, að ákveðið sé, að ríkissjóður greiði vaxtamismun, ef ekki er unnt að fá lán með svo bærilegum kjörum, að 4½% útlánsvextir standist, þrátt fyrir framlag ríkissjóð. En nú er ekki hægt að segja um það fyrirfram, með hvaða kjörum slíkt lán sem þetta fæst, og þess vegna er í raun og veru ekki hægt að láta þessa heimild, um greiðslu úr ríkissjóði á vaxtamismun, fyrr en það er komið í ljós. En það er alltaf opin leið til þess og gengið út frá því, að þegar Alþ. afgreiðir 1., sem beint eða óbeint skapa ríkissjóði útgjöld, þá verði á eftir ekkert því til fyrirstöðu, að slík heimild fáist, ef hennar þarf þá með. Það má vel vera, að þegar svona stendur á, þurfi heimildar með, en annars er venjulega gengið út frá því, að ríkisstj. sé heimilt að greiða allan þann kostnað, sem 1. frá Alþ. skapa. Ég held þess vegna, að það sé alveg óhætt að ákveða vexti án þess að þessi heimild fylgi nú þegar. En það er ekki hægt að neita því, að það er dálítið óeðlilegt og einnig óvenjulegt með þessi lán, sem ætluð eru til býla og ræktunar jarða eða húsabygginga, að þeim fylgi ekki einmitt ákvæði um vexti. Ég álít, að þessi tegund býla eigi ekki að sæta neitt lakari vaxtakjörum heldur en annað hliðstætt, sem ríkið hefur styrkt og komið á fót til þess að skapa afkomumöguleika fyrir almenning.

Út af hinu atriðinu í brtt. minni hér á þskj. 253, þá hefur frsm. komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta sé eðlilegt, og eins og hann sagði, að Það væri öruggt, að sameinaðar n. beggja d. mundu sjá um það, að sömu hlutföll yrðu hjá stjórnendum svona stofnunar, eða að minnsta kosti milli þeirra manna, sem n. kysu, eins og í sjálfu Alþ.

Ég er alls ekki viss um það, að það sé það einasta, sem þarf að gæta að, því að það er náttúrlega réttmætt frá landsmálalegu sjónarmiði, að hlutföllin verði svipuð eins og þau eru í þinginu. En þá gæti það nú vel verið, að til væru þeir menn, sem frá sjónarmiði Alþ. væru svo sjálfsagðir til þess að hafa íhlutun í stjórn svona fyrirtækis, að þar mættu nú pólitískir litir víkja. Einnig gæti verið, að til væru menn, sem væru svo ákveðnir málbúningsmenn, utan við alla pólitík, að ekki væri hægt að draga þá í pólitískan dilk, en væru þó vel til þess fallnir að hafa hlutdeild í ábyrgðarstarfi hjá slíkum lánsstofnunum.

Ég sé enga ástæðu til þess að trúa einni n. þingsins betur fyrir slíku málefni en Alþ. í heild. Ég sé ekki líkur til þess, að slík n. fyndi farsælli ráð heldur en þingið sjálft. Hitt sýnist mér, að vel gæti verið, að n. í þinginu gerðust í svona máli eins konar hagsmunaklíkur, þó að það sé kannske ekki fallega spáð, og færu að setja við þessar stofnanir alls konar fólk, sem þessi fámenna hagsmunaklíka teldi sér bera að sjá fyrir brauði. Og ég kæri mig ekkert um að stofna til þess, að þetta verði framkvæmt af svo að segja hverri n. í þinginu, og hver n. færi að taka að sér sérstaka menn, sem hún þyrfti

að útvega brauð, kannske að minnsta kosti með því að líta mjög mildum augum á það, hvernig þessir menn væru til þess fallnir að rækja sitt starf.

Það má kannske segja, að það sé ekki sverjandi fyrir það, að Alþ. í heild kunni ekki einnig að geta gert sig sekt um þessa hluti, en það mundi þó verða að framkvæma sínar gerðir fyrir allra þm. augum og eyrum, og ég vil halda, að það sé meiri trygging fyrir því, að með þetta væri sæmilega farið, heldur en ef það væri í höndum fámennrar n.

Ég get því ekki vikið frá því að halda fram þessari till. og legg meira að segja mikla áherzlu á það, að hún verði samþ., því að ég er sannfærður um það, að allt annað er leið til þess að koma á óheilbrigðu skipulagi í þessu máli, að draga þau frá augum og eyrum almennings og inn í þröngan hring, þar sem hægt er að pukra miklu meira með þau.

Það má telja, að þetta séu getsakir einar, en lífið og reynslan hafa sannað þetta, og þess vegna er ekki nema nauðsynlegt að setja undir slíkan leka sem þennan.