17.06.1941
Efri deild: 83. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

Starfslok deilda

Magnús Jónsson:

Þessi deildarslit fara nú fram á nokkuð óvenjulegum tíma dags. Sumum finnst það kannske nokkuð seint dags, en ég vil segja, að það sé óvenjulega snemma á degi, sem þessi deildarslit fara nú fram. Og störfum þessarar d, hefur lokið hér með hörðum átökum, þar sem heyrzt hafa nokkuð þung orð manna á milli, og getur vel verið, að ýmsum þdm. sé nokkuð þungt í skapi yfir þeim ályktunum, sem hafa verið gerðar nú að síðustu í þessari hv. d. Og ég efast um, að þetta þing verði eins rómað fyrir ágæti eins og það mun vissulega, eins og hæstv. forseti sagði, koma inn í söguna sem merkilegt þing — og þing, sem hefur gert ályktanir, sem marka djúp spor.

En þó að á þessari nóttu hafi átt sér stað í þessari hv. d. býsna hörð átök, þá hefur það, verið svo nú, eins og ávallt, að þessi hæstv. forseti d. hefur stjórnað hér umr. og málsmeðferð þannig, að enginn maður mundi hafa getað séð fyrr en á hans atkvgr., hvar hann var í flokki eða hvaða afstöðu hann hefði til málsins og vissra tillagna. Og það er höfuðkostur forseta, að hann sé réttlátur og mismuni mönnum ekki eftir því, hvaða afstöðu hann hefur til mála, og þetta hefur nú sem fyrr einkennt stjórn okkar ágæta hæstv. forseta. Og ég veit, að allir hv. þm. d. munu viðurkenna þetta.

Þessi deildarslit eru í raun og veru ekki með alveg sama blæ eins og við hefðum e. t. v. búizt við. Það er vanalega sérstakur blær yfir deildarslitum á síðasta þingi fyrir kosningar, því að enginn veit, hverjir það muni verða, sem koma aftur til þingsetu frá þeim leik, sem þá er háður, kosningunum. En atvik, sem ekki gleðja okkur, hafa orðið þess valdandi, að ekki hvíla nú þessi dimmu ský yfir þessum deildarslitum, sem hér fara fram, heldur vonumst við til þess, að forsjónin gefi það, að við komum saman aftur hér . á tilsettum tíma, og mætumst hér allir heilir og hæstv. forseti þar á meðal. Og hygg ég þá, að eitthvað töluvert megi gerast til þess og mjög óvænt, að annar taki forsætið af þessum hæstv. forseta.

Ég vil fyrir mína hönd, og vonast til, að það sé fyrir hönd allra hv. þdm., þakka hæstv. forseta fyrir góða og lipra fundarstjórn á þessu þingi og óska honum allra heilla. Hæstv. forseti hefur alltaf verið að gera sér það upp á þessu þingi, að hann væri orðinn svo gamall, — og í næstum hvert skipti, sem kosningar hafa verið fyrir dyrum, hefur hann sagt það sama —, að hann mundi ekki sjást hér oftar. En nú vonast ég eftir, að við sjáum hann aftur heilan hér á næsta þingi.

Óska ég forseta svo allra heilla og góðrar heimferðar, þegar hann fer heim til síns heimilis.