16.04.1941
Efri deild: 36. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Það er nú ekki meira en svo, að ég geti fundið mér skylt sem fjmrh. að lýsa minni skoðun á þessu frv. Það er ekki fram borið af mér og ekki heldur af Sjálfstfl.

Frv. er, eins frsm. lýsti því, eins konar tilraun til þess að sjá, hvort unnt sé að fá samkomulag milli þeirra flokka, sem að stj. standa, um lausn þess, þannig að samvinna þeirra þurfi ekki að rofna vegna ágreinings út af þessu máli. Sjálfstfl. hefur enn ekki tekið afstöðu til málsins að sínu leyti. Hins vegar er flokknum ljóst, að þar sem hann er í minnihlutaaðstöðu, er þess ekki að vænta, að hann geti ráðið öllu um afgreiðslu þessa máls, einmitt þess máls, sem aðallega ber á milli um. Hann verður því að meta það, hvað hann telur unnið við lagasetningu þessa, samanborið við það, sem hann telur sig annars mega vænta, ef hann léti hina flokkana eina um afgreiðslu málsins.

Menn muna vafalaust, að á þingi 1935 stóð hörð rimma milli Sjálfstfl. annars vegar og hinna flokkanna í sameiningu hins vegar, og taldi Sjálfstfl., að þá þegar væri allt of langt gengið í því að taka aflafé einstaklinga og fyrirtækja til þarfa ríkissjóðs með þeim skattstiga, sem þá var frammi, og voru þau l. samþ. gegn shlj. andstöðu Sjálfstfl., að engum þm. flokksins undanskildum. Síðan var þó enn gengið nokkru lengra með bráðabirgðal. um hinn svokallaða hátekjuskatt, sem þó að vísu voru sett sem heimild ríkisstj. til handa, að innheimta þennan hátekjuskatt. Nú var á valdi ríkisstj., hvort hún notaði þessa lagaheimild áfram eða eigi, og er því eðlilegt, að Sjálfstfl. beri saman þetta frv. og tekjuskattsl. frá 1935 án hátekjuskattsl. Almennt skoðað virðist mér litlu nær, að Sjálfstfl. komi fram sinni stefnu í skattamálunum. Það má að vísu segja, að í þessu frv. sé nokkur linun á skattinum neðan til, en svo er hins vegar komið nokkurn veginn upp í hámarkið skv. 1. frá 1935, en þar ofan á bætist svo stríðsgróðaskatturinn. Skv. frv. er þannig gert ráð fyrir, að tekjuskatturinn geti numið 75%, þ. e. skv. hinum almenna skattstiga að viðbættum stríðsgróðaskatti, og er það gífurleg hækkun frá því, sem áður var. Nú vil ég ekki þar með segja, að Sjálfstfl. telji óeðlilegt að lögleiða stríðsgróðaskatt, ef hann kemur niður á reglulegum stríðsgróða, en það eru þær tekjur, sem aflast mestmegnis í skjóli þess ástands, sem ófriðurinn skapar, en sá skattur, sem hér um ræðir, er ekki stríðsgróðaskattur nema að nokkru leyti. Það er hugsanlegt, að fyrirtæki, sem hafa jafnvel haft meiri tekjur á undanförnum árum heldur en nú á stríðsárunum, verði eigi að síður að greiða stríðsgróðaskatt, og það verður náttúrlega varla talið réttmætt að skattleggja slíkar tekjur á svo óvenjulegan hátt. Hins vegar er á það að líta, að stríðsgróðaskatturinn byrjar ekki að verulegum mun fyrr en komið er upp í svo háar tekjur, að telja má, að tiltölulega fá fyrirtæki muni undir hann komast, sem ekki hafa þá verulegan ágóða beinlínis í sambandi við stríðið. Fyrir þá sök, að þannig hagar til, hefur Sjálfstfl. líka getað fallizt á það að lögleiða þennan skatt eða einhvern slíkan skatt. Þá er þess að gæta, að þó að skattstiginn fari allhátt, eða upp í 75%, eins og ég hef áður getið, þá er það, hvað snertir mikinn þorra atvinnufyrirtækja, nokkuð villandi að því leyti, sem skatturinn er sumpart lagður á aðeins nokkurn hluta teknanna, og í öðru lagi vegna þess, að skattafrádrættinum, eða heimildinni til þess að draga greidda skatta frá skattskyldum tekjum, er haldið. Hvað stríðsgróðaskattinn snertir sérstaklega, er gert ráð fyrir, að 2/5 hlutar gangi til þeirra bæjar- og sveitarfélaga, þar sem hann er á lagður og innheimtur, en það þýðir í raun og veru, að skatturinn sé þeim mun lægri sem gera má ráð fyrir, að minna fé þurfi að innheimta með útsvörum til þarfa sveitarfélaganna. Þrátt fyrir þetta hygg ég, að það sé yfirleitt skoðun sjálfstæðismanna og Sjálfstfl. hér á Alþingi, að bæði með skattal. frá 1935 og eins með því frv., sem hér liggur fyrir, sé í rauninni of langt gengið í því að afla ríkissjóði tekna með þessum hætti. Ég veit það, að það eru nú á síðustu tímum a. m. k. misjafnar skoðanir á því, hvað góð latína það sé að vera fjmrh. og amast beinlínis við því, að ríkissjóði sé aflað tekna með hvaða hætti sem er. En það er skoðun Sjálfstfl., að það beri að líta á fleira en það eitt, hve mikilla eða lítilla tekna er aflað í ríkissjóð. Það verður líka að taka tillit til þess, hvernig, það kemur niður á atvinnurekstri og athafnalífi í landinu, því sé athafnalífinu ofboðið með sköttum, bitnar það að lokum á ríkissjóði sjálfum. Það er einmitt þessi ágreiningur í skattamálunum, sem einna mest er áberandi í stefnumiðum þeirra flokka, sem fulltrúa eiga hér á þingi, og þá einnig þeirra flokka, sem standa að núverandi ríkisstj.,

Mér finnst hálft um hálft, að segja megi, að við séum að nokkru leyti á milli vita í þessum málum. Mér finnst það vera svo áberandi hjá öðrum flokkum en Sjálfstfl., hvað lítið tillit er tekið til þess, á hvaða hagkerfi þjóðfélagsbyggingin er reist. Við vitum það og fáum oft að heyra frá andstæðingum okkar sjálfstæðismanna, að við séum fylgjandi auðvaldsskipulagi og viljum halda því uppi, og það er af mörgum talið okkur ekki lítið til foráttu. En sannleikurinn er sá að í þessu efni er ekki nema um tvennt að gera: Annaðhvort verður að gera einstaklingum það kleift að safna eigum, svo þeir geti staðið undir athafnalífinu, eða ríkið verður að taka atvinnureksturinn í sínar hendur. Meðan ekki er horfið að því ráði, dugir ekki, að atvinnurekstrinum sé haldið á horrim. Sú skattastefna, sem ríkt hefur hér á undanförnum árum, hefur virzt sú að koma öllu í kaldakol, og sannleikurinn er sá, að við höfum komizt hjá því í svipinn vegna óviðráðanlegra ástæðna, en ekki fyrir þá stefnu, sem hefur verið ríkjandi í okkar opinberu málum að undanförnu. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að meðal nálægra þjóða hefur hvergi verið gengið eins nærri einkarekstrinum. Þar hafa þó sums staðar verið sósíalistastj. í hreinum meiri hl. En þessir menn hafa gert sér það ljóst, að meðan ekki er komið á því hagkerfi, sem þeir aðhyllast, verður að búa svo að hinu ríkjandi skipulagi, að ekki leiði til hruns.

Sjálfstfl. er ljóst, eins og ég hef áður getið, að hann er í minnihlutaaðstöðu hér í þinginu og getur þess vegna ekki að svo, stöddu gert sér vonir um að koma fram sínum stefnumiðum í þessum málum. Sjálfstfl. mun láta sér það lynda, að þessi frv.: verði samþ. hér á Alþingi í aðalatriðum eins og þau hafa verið lögð fram.