18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég get verið stuttorður, þar eð ég gerði að mestu grein fyrir efni þeirra brtt., sem ég flyt, við 1. umr. málsins. Ég óskaði þá eftir, að hv. n. tæki þessi atriði til athugunar og flytti sjálf um þau brtt. Nú hef ég fengið að vita það frá n. viðvíkjandi 1. liðnum, að hún vildi ekki skipta sér neitt af því, sem ég hélt fram. Þess vegna verð ég að líta svo á, að n. telji réttmætt að hafa mismunandi persónufrádrátt eftir því, hvar menn eru búsettir á landinu. Hins vegar lít ég enn þannig á, að ekki beri að gefa þeim mönnum sérstakar ívílnanir, sem hafa vanið sig á meiri þægindi eða kostnaðarsamara líf en almennt gerist. Þvert á móti. En til þess að ekki sé hægt að segja, að ég vilji íþyngja neinum með of lágum frádrætti, þá hef ég lagt til, að sá frádráttur gildi fyrir allt landið, sem n. hafði lagt til fyrir Rvík.

Frádrátturinn var sameiginlegur fyrir allt landið til ársins 1935, að svo margir Reykvíkingar náðu sæti á Alþingi, að þeir komu þessu ákvæði inn í l. Eins og áður er sagt, legg ég til, að frádrátturinn fyrir Reykjavík verði látinn gilda fyrir allt landið.

Ég talaði um það við 1. umr., að í mörgum tilfellum væri það óþægilegt og beinlínis ranglátt að mega ekki gera frádrátt fyrir aðra ómaga á heimili en skylduómaga, t. d. gamla ættingja eða gömul hjú, sem lengi hafa verið í þjónustu húsráðenda, en eru orðin óvinnufær. Mér er kunnugt um það, að skattan. hafa að vísu leyfi til þess að leggja til við yfirskattan., að ívilnun sé veitt í skatti vegna þessa, en það er mönnum ókunnugt og því lítið notað. Ég hefði því kunnað betur við, að í 1. stæði „ómagar“ í stað „skylduómagar“, og að þessu miðar b-liður 1. brtt. minnar á þskj. 199.

2. brtt., a-liður, er við 19. gr. l. 1935 um mat á búfé. En við því atriði hefur n. ekki hreyft.Mér er það ljóst, að lítið sem ekkert samræmi hefur verið í mati búfjár í samliggjandi sýslum, þar sem markaðsskilyrði eru að öllu leyti hin sömu. Matið hefur hækkað og lækkað frá ári til árs án sýnilegs tilefnis. Og þó að einhverjar sveiflur séu á verðlagi, á þetta að standa fast, því búfé er bústofn og framleiðslutæki bændanna.

Ég veit ekki til, að neinn okkar meti hærra innbú sitt nú í ár en í fyrra, þótt meira kosti að endurnýja það. Sama máli gegnir um skip og báta og öll önnur framleiðslutæki en búfé. Og yfirleitt er ekki hækkað mat á neinu nema þá verðbréfum og hlutabréfum. Fasteignir eru undirorpnar sama fasta matinu til margra ára í senn. Búfé er það eina, sem er háð sífelldum breytingum. En ég held því fram, að festa beri það í mati, og það mat eigi svo að haldast óbreytt um ákveðinn lengri tíma.

Einn hv. dm. sagðist geta fallizt á að lengja matstímann, en vildi ekki hafa hann svona langan eins og hér er gert ráð fyrir. Hann talaði um það, að vel gæti sölugengi búfjár hækkað, og þá kæmi fram ósamræmi. En þetta er ekki rétt athugað. Búfé er fastur stofn, sem bóndinn má ekki án vera og getur því ekki losað sig við. Það skiptir því engu máli í þessu sambandi, þótt eigendaskipti verði að þessum stofni, því að ef selt er með hærra verði en matsverði, þá er mismunurinn reiknaður seljandanum til tekna það ár, sem salan fer fram.

B-liður 2. brtt. minnar fjallar um laun til skattanefndar- og yfirskattanefndarmanna. Ég sé, að n. hefur að nokkru tekið til greina ábendingu mína um þetta atriði við 1. umr. málsins. Mér var tjáð að n. miðaði aðeins við árið 1941, vegna þess að allt væri í óvissu um framtíðina, og enn fremur stæði til að endurskoða skattalöggjöfina á næsta ári eða næstu árum. Ég hef nú ekki mikla trú á, að það verði, því seint gekk um þá endurskoðun, sem hér er nú loks fram komin, og er hún þó ekki ýkjafullkomin. Því var haldið fram, að launin væru að vísu of lág nú, en ekki væri samt rétt að ákveða skattan. hærri laun til frambúðar.

Ég held þvert á móti fast við þá ósk mína, að þetta verði ákveðið til frambúðar 10 kr. á dag, að viðbættri dýrtíðaruppbót og ferðakostnaði til yfirskattan. Þó má segja, að mínum tilgangi sé að miklu leyti náð, þótt till. n. yrði samþ.

Sama er um þá till. mína um heimild ráðherra til að veita fresti, sbr. c-lið 2. brtt. minnar. N. vill einnig miða þetta við 1941 eingöngu. En ég held, að allt muni fara eins næsta ár, er fara á að breyta 1., það muni dragast svo, að tafsamt verði að ljúka skattauppgjöri og skattaálagningu. Þess vegna tel ég eins gott að ljúka því af strax, sem menn eru sammála um að þurfi að gera síðar, og hafa heimild ráðherra ekki tímabundna um eitt ár.

Þá lít ég svo á, að nema beri úr gildi tvenn lög, sem of lengi hafa verið til vansæmdar. Önnur þessara 1. eru beint í sambandi við skattal., hin óbeint. Það eru annarsvegar 1. um skattfrelsi iðnaðar- og iðjufyrirtækja. Þetta voru frá upphafi óhæf lög. Enda hefur það víst orðið þannig í framkvæmdinni, að þegar fyrirtækin voru búin að starfa í 3 ár, þá voru þau leyst upp, og eigendurnir hirtu reyturnar. Þessi lög voru hinn versti óskapnaður frá upphafi, vega sinna. Þar sem þau eru undantekningarlög frá skatta- og útsvarsgreiðslum, þá eiga þau að afnemast nú.

Sama er að segja um „litla ljóta frv.“, um að dreifa útsvörum Hafnarfjarðarbæjar á farþega þá, sem ferðast í farþegabílum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Í því fólst jafnan hið mesta ranglæti. Einhverjir hafa sagt, að réttara væri að flytja. sérstakt frv. um afnám hvorra tveggja þessara 1., og það mætti vitanlega gera það, en ég hygg, að fullt eins eðlilegt sé að flytja einmitt till. um afnám þeirra í sambandi við þetta mál, og þess vegna hef ég gert það.

Þá gat ég víst um það í fyrradag við 1. umr., að réttara hefði verið að breyta skattstiganum en að fara að taka upp þennan tafsama umreikning á skattskyldum tekjum ársins 1940, þannig að sami skattur hefði komið út. Ég held nú raunar, að samkomulag sé um það milli fjmrh. og n. að hafa þetta þannig í framkvæmdinni.

Þó að ég hafi ekki gert fleiri brtt. við frv., þá er að mínum dómi margt, sem ákvarða hefði þurft nánar. Skal ég ekki fara út í það að sinni, en vil aðeins benda á það, að í frv. vantar ákvæði um það, hvernig reikna skuli út meðalvísitölu þá, sem nefnd er í 4. gr., a-lið. Þar er ekki minnzt á það, hvort hún eigi að vera heil tala, né, ef hún á að vera með brotum, hversu marga desímala þá skuli nota við útreikninginn. Ekki er heldur minnzt á það við skattútreikninginn, hvort reikna skuli af heilli krónu eða eins og í gömlu l. láta hlaupa á 50 kr. Um þetta má vitaskuld koma á fastri skipan í framkvæmdinni, og má því e. t. v. sleppa því að flytja um það brtt.

Það er rétt að geta þess að lokum, að það er ákaflega langt frá því, að ég sé ánægður með þetta frv., eins og hv. n. hefur gengið frá því. Enda er þess varla að vænta, þar sem hér er um bræðing að ræða. Það er verið að reyna að bræða saman gerólíka hagsmuni og gerólík sjónarmið. Ég hefði heldur kosið að mæta þessum sjónarmiðum hverju út af fyrir sig, — á sama hátt og ég vil helzt fá hverja tegund feitmetis fyrir sig, en þykir bræðingur alltaf slæmur.