17.06.1941
Sameinað þing: 30. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

Þinglausnir

forseti (HG) :

Störfum þessa Alþingis er nú lokið. Það er hið 56. löggjafarþing, en 71. samkoma frá því Alþingi var endurreist: Frá stofnun Alþingis eru liðin 1011 ár, en 679 frá því Ísland játaðist undir yfirráð erlends konungs. Eitt ár er liðið síðan meðferð hins æðsta valds í málefnum ríkisins var aftur flutt inn í landið, og nú segir í fyrsta sinn kjörinn íslenzkur ríkisstjóri Alþingi slitið.

Aldrei hefur Alþingi verið háð við slík skilyrði sem nú. Erlendur her situr í landinu, en utan við valdssvið íslenzkra laga og býr við sjálftekinn rétt. Að vísu eru hersveitir þessar frá þjóð, sem jafnan hefur sýnt ykkur Íslendingum fullan vinskap og lítur svipuðum augum og við á gildi lýðræðis og rétt smárra þjóða til þess að ráða sér sjálfar. Stjórn setuliðsins hefur og lýst yfir því, að hún muni á engan hátt hafa afskipti af íslenzkum málefnum og vilji virða rétt vorn í hvívetna. Skal sá vilji ekki vefengdur. En heitorð þetta er bundið því skilyrði, að eigi fari í bága við hernaðarlega nauðsyn. Og mat slíkrar nauðsynjar er á valdi herstjórnarinnar, en ekki Íslendinga. Við eigum ekki annars úrkosta en að vænta þess, að réttsýni og drengskapur þeirra, er herstjórnina hafa, sé slíkur, að þeir misbeiti eigi þessu valdi, og þá ekki síður hinu, að hver Íslendingur gæti jafnan þeirrar skyldu að gefa ekkert réttmætt tilefni til afskipta af íslenzkum málefnum.

Stórveldastyrjöldin hefur nú geisað í nærfellt 2 ár. Æ fleiri þjóðir dragast inn í þennan hildarleik og verða að láta frelsi og sjálfsforræði eftir dýrar fórnir. Átökin harðna stöðugt. Átakasvæðið færist nær og nær. Í 13 mánuði hefur herlið annars aðila ófriðarins dvalið hér. Hinn aðilinn hefur lýst yfir því, að landið sé innan hernaðarsvæðisins, lagt blátt bann við öllum siglingum að því og frá og hótað að tortíma hverjum þeim, sem freistar að brjóta það bann. Tugir sjómanna hafa verið skotnir vopna- og varnar lausir og án fyrirvara. Flugvellir og afgreiðslustöðvar skipa er að okkur fornspurðum byggt hér í þarfir setuliðsins. Flugvélar hins ófriðaraðilans sjást öðru hverju sveima yfir landinu, svo honum er sýnilega kunnugt um þessar framkvæmdir. Tundurduflum hefur verið lagt nálægt ströndum landsins og fiskimiðum þess þar með lokað. Íslenzkir borgarar hafa verið teknir og fluttir úr landi, þar á meðal einn, sem á setu á þessu Alþingi, og útgáfa íslenzks blaðs verið stöðvuð, allt án þess að málin hafi verið borin undir íslenzka dómstóla. Stjórnarvöld ríkis og bæja hafa gert ráðstafanir til þess að flytja börn og konur úr þeim bæjum, þar sem hættan við loftárásir er talin mest, og sveitir manna eru æfðar við björgunarstörf, til þess að liðsinna særðu fólki og draga úr tjóni af völdum slíkra árása. Enginn veit, hvað hans bíður næsta dag. Allt er í óvissu, öryggi og afkoma.

Aldrei hafa viðfangsefni Alþingis verið vandasamari en nú. Aldrei hafa starfsskilyrði þess verið erfiðari en nú. En eins og hver einstaklingur verður að rækja dagleg störf og skyldur, þrátt fyrir óvissu og öryggisleysi, á sama hátt verður Alþingi að rækja sín störf, gegna sínum skyldum.

Það hefur orðið hlutskipti þessa Alþingis að meta það og úrskurða, hvort unnt væri að láta fram fara almennar alþingiskosningar í samræmi við tilgang stjórnarskrár og kosningalaga við þau skilyrði, sem nú eru fyrir hendi: Alþingi gat ekki vísað þeim vanda frá sér án þess að bregðast skyldu sinni. Í stjórnarskrá Íslands eru engin ákvæði um það, að víkja megi frá hinum almennu fyrirmælum um þetta efni, þótt svo sé ástatt sem nú er. En það er viðurkennd réttarregla, að nauðsyn sé lögum ríkari. Mat Alþingis varð á þá leið, að eigi væri fært að treysta því, að kosningar gætu fram farið með eðlilegum hætti eða í samræmi við tilgang stjórnarskrárinnar og anda lýðræðisins, og úrskurður þess sá, að því skyldi fresta almennum alþingiskosningum fyrst um sinn og framlengja núverandi kjörtímabil, þar til ástæður breytast þannig, að fært þykir að láta kosningar fara fram. Það er einlæg von okkar alþingismanna allra, að þess verði sem skemmst að bíða.

Þegar Alþingi tekur upp störf samkvæmt ályktun þessari, verður það að sjálfsögðu, ef gerðir þess verða vefengdar, að hlíta úrskurði dómstóla landsins um það, hvort hér hafi verið lengra gengið en heimilt var og rétt og nauðsyn krafðist.

Og þess verður að vænta, meðan almennar alþingiskosningar hafa eigi fram farið, að Alþingi gæti þess jafnan vandlega að breyta ekki grundvallaratriðum löggjafar eða framkvæmdavalds í landinu, nema ótvíræða, knýjandi nauðsyn beri til.

Skal þá vikið að öðrum þingstörfum. Síðasta ár og það, sem er af þessu verður að teljast mjög hagstætt að því er snertir fjárhagsafkomu ríkisins og landsmanna yfirleitt. Þrátt fyrir siglingaörðugleika og margvíslegar hættur hefur tekizt að flytja út afurðir þjóðarinnar og að afla henni nægilegra nauðsynja til lífsþarfa og til framleiðslustarfseminnar. Verður þeim, sem hafa lagt líf í hættu við þessi störf og náð slíkum árangri, seint fullþakkað.

Verðlag á þýðingarmestu útflutningsvöru okkar, fiskinum, hefur verið hátt, aflabrögð yfirleitt góð eða sæmileg, og fjárhagslegur árangur af starfsemi landsmanna í heild því mjög góður, jafnvel þótt tillit sé tekið til hækkunar á verði aðfluttra vara.

En hins er ekki að dyljast, að allt er í óvissu um framtíðina, og margt bendir til, að í þessum efnum sé breyting í vændum og erfiðir tímar framundan, einnig á þessu sviði. Verðlag innan lands fer stöðugt hækkandi, og mjög hefur á flestum sviðum dregið úr þeim framkvæmdum, sem í eru varanleg verðmæti. Ekki hefur reynzt kleift að fylla þau skörð, sem orðið hafa á skipastól okkar, þótt nægilegt laust fé sé fyrir hendi. Er það nú eitt höfuðviðfangsefnið, sem framundan er, hversu bezt megi verja þessu lausa fé þjóðinni til frambúðarnytja.

Hinar auknu tekjur atvinnufyrirtækja og einstaklinga hafa gert Alþingi fært að breyta skattalöggjöfinni mjög verulega í þá átt að létta skatta á þeim, sem hafa lágar tekjur eða miðlungstekjur, og tryggja þó ríkissjóði um leið rýmri fjárhag. Jafnframt hefur Alþingi gert ráðstafanir til þess, með ákvæðum hinna nýju skattalaga um nýbyggingarsjóð, að allmikill hluti hinna hærri tekna verði lagður til hliðar til endurnýjunar og aukningar framleiðslutækjanna, og verði þannig undirstaða vaxandi atvinnu og afraksturs, en eigi eyðslueyrir.

Á sama hátt hafa hinar auknu tekjur ríkissjóðs gert Alþingi fært að sinna í ríkari mæli en áður margháttuðum verkefnum, er miða að því, að bæta afkomuskilyrði almennings og auka atvinnu í landinu til frambúðar.

Má í því sambandi nefna löggjöf um landnám ríkisins og jarðakaup vegna kauptúna og sjávarþorpa, ásamt stofnun lánadeildar smábýla, aukningu á starfsfé fiskveiðasjóðs Íslands og veðdeildar Landsbankans. Enn fremur breytingu á lögum um verkamannabústaði, um byggingar- og landnámssjóð og stóraukin framlög til allra þessara framkvæmda, svo og til nýbýla og endurbyggingar sveitabæja.

Framlög ríkisins til alþýðuskóla, svo sem gagnfræðaskóla, héraðsskóla, ungmennaskóla, húsmæðraskóla og annarra, sem ekki eru eign ríkisins, hafa og verið aukin til stórra muna. Þá hefur Alþingi og afgreitt ný lög um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum og breytt nokkuð eldri lögum um sams konar fræðslu í sveitum og loks heimilað ríkisstjórninni að leggja fram þegar á næsta ári hálfa milljón króna til byggingar sjómannaskóla. Er þess að vænta, að ríkisstjórnin sjái sér fært að nota þessa heimild og að þessi stétt fái nú skóla, sem er henni samboðinn. Þá hefur og verið breytt lögum um háskóla Íslands, og ákveðið að láta fram fara endurskoðun á skólamálum landsins í heild.

Sýnir þetta, að Alþingi er ljós nauðsyn þess að hlúa sem bezt að uppeldis- og fræðslustarfsemi í landinu, engu síður en að bæta atvinnuskilyrði og auka framleiðsluna.

Vegna sívaxandi dýrtíðar og aukinnar áhættu við siglingar og sjóferðir allar, hefur Alþingi talið nauðsynlegt að gera víðtækar breytingar bæði á alþýðutryggingalögunum og lögum um stríðsslysatryggingu sjómanna og auka verulega framlag til þeirra mála. Ákveðin hefur verið undirbúningsrannsókn almennra persónatrygginga gegn slysum af völdum ófriðarins og ný löggjöf afgreidd um ófriðartryggingar fasteigna og lausafjár. Þá hefur Alþingi einnig ákveðið með lögum, að greidd skuli full verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna og á lífeyri og eftirlaun fyrir opinbera þjónustu. Enn fremur hefur Alþingi falið ríkisstjórninni að hefja undirbúning að almennri löggjöf um orlof verkafólks og láta fram fara athugun á því, hverjar ráðstafanir þurfi að gera til þess, að slík leyfi komi hlutaðeigendum. að sem beztum notum. Er hér um merkilegt nýmæli að ræða.

Að sjálfsögðu hefur eigi verið unnt að auka svo framlög ríkissjóðs til margháttaðra framkvæmda sem gert hefur verið, án þess að hækka fjárlögin. Alþingi hefur eigi talið fært að lækka framlög til almennra verklegra framkvæmda heldur hljóta þau að aukast vegna hækkandi verðlags. Hið sama er að segja um lögboðin gjöld og kostnað allan við starfsemi ríkisins. Þarf því engan að undra, þótt fjárlög þau, sem Alþingi afgreiddi að þessu sinni, séu hærri en verið hefur.

Eitt síðasta verk Alþingis var að veita ríkisstjórninni heimildir til þess að gera margháttaðar ráðstafanir í því skyni að stöðva eða draga úr hækkun verðlags í landinu og að innheimta sérstök gjöld til þess að standast kostnað af þeim. Er hér um óvenju víðtækar heimildir að ræða, enda mikil nauðsyn að koma í veg fyrir sívaxandi dýrtíð og þær afleiðingar, er henni hljóta að verða samfara. Það er von Alþingis, að ríkisstjórninni lánist að halda svo á þessum málum, að tilgangi laganna verði náð.

Nokkrir kunna að líta svo á, að Alþ. hafi sýnt of mikinn stórhug og jafnvel ofrausn í meðferð fjármálanna og að meiri varúðar hafi verið þörf, einkum þegar tillit er tekið til þeirrar óvissu, sem framundan er. En grundvöllur stórra framkvæmda, hvort heldur er í verklegum eða andlegum efnum, er trúin á landið og þjóðina, sem byggir það, — trúin á vilja og mátt þjóðarinnar til þess að bæta lífskjör sín og menningu, — trúin á það, að þjóðin sé þess megnug að afla mikils úr skauti moldar og á miðum úti og kunni að nota rétt fenginn afla. Og verður því fé, sem nú hefur borizt í hendur þjóðarinnar umfram daglegar þarfir, annan veg betur varið en til þess að treysta grundvöllinn undir framtíðarstarfsemi þjóðarinnar?

Á Alþingi hinn 10. apríl 1940 var ákveðið, að

Ísland tæki að svo stöddu í sínar hendur meðferð allra sinna mála, enda gat Danmörk þá eigi farið með þau mál, sem hún tók að sér að fara með í umboði Íslands með sambandssamningi Íslands og Danmerkur frá 1918.

Enn er þetta ástand, að liðnum 14 mánuðum, óbreytt. Ísland og Danmörk eru á valdi andstæðra styrjaldaraðila. Enn er með öllu óframkvæmanlegt hið stjórnarfarslega samband milli landanna samkv. sambandslagasáttmálanum.

Alþingi hefur því ályktað að lýsa yfir því að það telur Ísland hafa öðlazt rétt til fullra sambandsslita við Danmörku, og enn fremur því, að af Íslands hálfu verði ekki um að ræða endurnýjun á sambandslagasáttmálanum, þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnarskipun ríkisins, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka.

Hinar sömu ástæður, er komu í veg fyrir það, að Danmörk gæti farið með málefni Íslands samkvæmt sáttmálanum, voru þess á sama hátt valdandi, að konungi vorum var ókleift að fara með þau mál, er honum bar að fara með samkvæmt stjórnarskrá ríkisins.

Samkvæmt ályktun Alþingis sama dag hefur því ráðuneyti Íslands síðan farið með vald konungs hér á landi.

Alþingi hefur nú ályktað að kjósa sérstakan ríkisstjóra, er fari með æðsta vald í málefnum Íslands, þar til gengið verður frá endanlegri stjórnarskipun ríkisins. Alþingi hefur einnig sett lög um störf og skyldur ríkisstjóra og í dag kosið herra Svein Björnsson til þess að gegna þessu starfi til jafnlengdar næsta ár. Tók hann við embætti á Alþingi í dag.

Loks hefur Alþingi ályktað að lýsa yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi jafnskjótt og sambandinu við Danmörku verður formlega slitið.

Þessar ályktanir Alþingis þurfa engra skýringa við. Þær tala sínu máli.

En á þessum merkilegu tímamótum er þess gott að minnast, að sambúð íslenzku þjóðarinnar og dönsku þjóðarinnar hefur jafnan verið góð og stöðugt batnandi, síðan sáttmáli þjóðanna var gerður fyrir 23 árum. Samtímis því, sem hin stjórnarfarslegu bönd milli þjóðanna urðu lausari og færri, jókst vinátta og samvinna á mörgum sviðum. Það er von mín og einlæg ósk, að svo megi aftur verða, þegar þeim ógnum linnir, sem nú ganga yfir heiminn. Sterkar taugar margháttaðra samskipta, frændsemi og sameiginlegrar norrænnar arfleifðar hljóta ávallt að tengja þessar þjóðir saman og þær báðar við hinar aðrar þjóðir Norðurlanda.

Eins og danska þjóðin og forráðamenn hennar hafa virt sáttmálann í hvívetna og við hann staðið, meðan fært var, eins höfum við Íslendingar viljað virða sáttmálann á allan hátt og engum skyldum bregðast. En rétt okkar viljum við eiga, fullan og óskoraðan.

Ég leyfi mér að bera fram þakkir Alþingis til sambandsþjóðarinnar og forráðamanna hennar fyrir síðustu áratugi, og þá um hefð fyrir hlý orð forsætisráðherra hennar í okkar garð nú fyrir skemmstu.

Hans hátign Kristján konungur hinn 10. hefur farið með æðsta vald í málefnum Íslands nærfellt þrjá tugi ára. Á þessu tímabili hafa orðið miklar og merkilegar breytingar á lífi þjóðarinnar og háttum. Stórstígar framfarir á flestum sviðum. Þróttur þjóðarinnar og trú hennar á sjálfa sig og land sitt hefur aukizt. Ég veit það af orðum konungs, að honum er þetta til óblandinnar gleði. Hann ann Íslandi og hefur heimsótt land og þjóð oftsinnis. Enginn þjóðhöfðingi hefur reynzt okkur Íslendingum réttsýnni en hann eða samvizkusamari. Í öllu hefur hann farið að réttum lögum. Fyrir þetta hefur konungur hlotið ástsæld þjóðarinnar og virðingu Alþingis.

Háttvirtir alþingismenn! Alþingi fær tíðast misjafna dóma. Okkur þingmönnum getur oft skeikað, eins og öðrum mönnum. Og jafnan sýnist nokkuð sitt hverjum. En í einu hefur Alþingi áreiðanlega ekki skeikað. Alþingi trúir á lífsþrótt og framtíð íslenzku þjóðarinnar, og það hagar störfum sínum eftir því. Það trúir því, að íslenzka þjóðin hafi bæði vilja og mátt til að varðveita sjálfstæði sitt, tungu og þjóðerni. Alþingi trúir því, að þjóðin sé þess megnug að hagnýta gæði okkar fagra og kostamikla lands og ríku fiskimiða og hún sé fær um að skipa svo félagsmálum sínum, að landsmenn geti allir með starfi sínu tryggt sér og sínum sæmileg lífskjör og menningu og þann rétt, sem hverjum frjálsum manni er dýrmætastur og um leið hyrningarsteinn þjóðfrelsis og lýðræðis.

Yfirlýsingar Alþingis eru ekki nægilegar til þess að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar. Og víst er það, að meðan styrjöldin geisar og erlendur her situr í landinu, skortir mjög á fullveldið. Enginn veit, hvað að höndum kann að bera, áður styrjöldinni, lýkur, né hversu fer við endalok hennar. Rétt er að vænta hins bezta, en jafnframt skylt að vera við öllu búinn, jafnvel í hinni þyngstu raun. Í raun skal manninn reyna.

Í dag eru liðin 130 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta. Alþingi hefur leitazt við að stefna að því marki, er hann setti. Og enga ósk á ég betri íslenzku þjóðinni og Alþingi til handa en þá, að henni og því megi lánast að gera að veruleika þá hugsjón, er hann helgaði allt sitt líf og allt sitt dáðríka starf.

Að svo mæltu þakka ég öllum háttv. þingmönnum gott samstarf á þessu Alþingi. Þingmönnum þeim, er heima eiga utan Reykjavíkur, óska ég fararheilla og góðrar heimkomu.

Og öllum okkur, landsbúum, óska ég árs og friðar.