18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bernharð Stefánsson:

Það skal verða stutt, sem ég segi. Það er að vísu sagt í grg. frv., að einstakir nm. í fjhn. hafi óbundnar hendur um að bera fram brtt. og vera með brtt., sem fram kunni að koma. Það hefur komið fram hjá báðum meðnm. mínum nokkur sérstaða. Það mæti því gera ráð fyrir, að ég fyndi ástæðu til að gera grein fyrir sérstöðu minni, en ég ætla ekki að fara út í það, því að eins og líka stendur í grg. frv., er það árangur langvarandi samningsumleitana milli þingflokkanna. Í frv. er svo það, sem helzt gat orðið samkomulag um milli flokkanna.

Ég get lýst yfir því f. h. Framsfl., að við þann samningsgrundvöll, sem hér er lagður, mun hann standa, ef hinir flokkarnir standa við sitt. en eins og kom fram við 1. umr. hjá hæstv. viðskmrh., er langur vegur frá því, að frv. sé eins og Framsfl. einn hefði helzt viljað.

Nú er því ekki að leyna, að ýmsar af brtt. þeim, sem hér liggja fyrir, fjalla um þau efni og eru þannig að forminu, að þær koma óneitanlega í bága við það samkomulag, sem ég hef skýrt frá. Ég sé mér ekki annað fært en vera á móti þeim till., því samþ. þeirra mundi raska samkomulagsgrundvellinum. Annars er það um brtt. að segja, að þeim var flestum eða öllum útbýtt á þessum fundi. Dm. hafa því haft lítinn tíma til að átta sig á efni þeirra, og n. þaðan af minni, því að hún hefur ekki tekið þær til meðferðar, nema að því leyti sem hv. 1. þm. N.-M. hreyfði fyrirfram við n. till. þeim, sem hann flytur á þskj. 199. Hv. 2. landsk. hreyfði líka í n. þeirri till., sem hann ber fram. Frsm. n. hefur lagt það til við hv. þm. Hafnf., að hann taki aftur til 3. umr. brtt. á þskj. 195, ef ske kynni, að samkomulag næðist um einhverja breyt. á þeim ákvæðum frv., sem að sama efni lúta. Ég vil taka undir þessa ósk, og það því fremur sem þetta atriði, hvað mikið af nýbyggingarsjóði mætti vera á geymslureikningi í sterlingspundum, var eitt samningsatriðið á milli flokkanna.

Það er ekki einasta brtt. hv. þm. Hafnf., sem mér finnst eins og ástatt er, að ætti að bíða til 3. umr. Mér finnst líka, að hv. 1. þm. N.-M. ætti að taka sumar brtt. sínar aftur til 3. umr., t. d. sérstaklega 2. till., tölul. 2, á þskj. 199. Ég býst ekki við, að þær till. séu þess eðlis, að þær reki sig á samkomulagið milli flokkanna. Þær fjalla um aukaatriði. En samt hygg ég, að æskilegt væri, að þessar till, fengju nánari athugun í n. en tími var til í gærkvöldi, því að n. var mjög önnum hlaðin.

Yfirleitt finnst mér það eðlilegast um brtt. um stórvægileg mál, sem eru bornar fram á sama fundi og atkvgr. ætti að fara fram, að þær bíði til næstu umr. Hitt er gott, að þær komi fram á fundinum og að flm. geri grein fyrir þeim, svo að dm. verði ljósara efni þeirra.

Það á ekki við að ræða þetta mál frá almennu sjónarmiði við 2. umr. En ég má til að skjóta því fram, að ég kann illa þeim tón, sem hv. þm. Vestm. talaði í við 1. umr. þessa máls, — það var helzt hægt að skilja hann svo, að með þessu frv. væri verið að leggja kvaðir á útgerðina í landinu fram yfir aðrar atvinnugreinir landsmanna. Í frv. felast einmitt hlunnindi útgerðinni til handa. Það má deila um skattstigann. Hann kann að vera of hár, en það kemur þá niður á öllum skattborgurum landsins. En ef við miðum við, að skattstiginn í 1. gr. sé hæfilegur, kemur mér undarlega fyrir sjónir, að risið er upp f. h. útgerðarinnar og rifizt út af henni sérstaklega. Ég kann illa þeim brigzlum, sem fram komu við 1. umr. frá hv. þm. Vestm. til míns flokks um það, hvernig hann hefði búið að útgerðinni á undanförnum árum. Ég veit ekki betur en að Framsfl. hafi yfirleitt verið boðinn og búinn til að samþ. fríðindi útgerðinni til handa og þau hreint ekki lítil. Ef verið hefði um miklar flokkadeilur að ræða og stj. hefði stuðzt við harðvítugan meiri hl., en hv. þm., sem þessi orð talaði, verið stjórnarandstæðingur, gat framkoma hans verið skiljanleg. En að heyra þetta frá samstarfsmanni er undarlegt. Hann sagði, hv. þm. Vestm., að sum blöð hefðu ekki getað unnað útgerðinni, að hún varð fyrir óvæntu happi. Mér þætti gaman að vita, hvort hann á við framsóknarblöðin. Þau hafa eindregið fagnað því, að útgerðin gat komizt úr þeim miklu fjárhagsörðugleikum, sem hún var komin í.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta. Ég vona, að hæstv. forseti beri mér það, að ég sé ekki vanur að brjóta þingsköp, en ég gat ekki látið hjá líða að benda á þetta atriði, þó að nú sé 2. umr. málsins.