18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég skal vera stuttorður. Hv. frsm. mælti eindregið á móti minni fyrstu brtt. við 3. gr., um að hafa persónufrádráttinn þann sama fyrir alla landsmenn. Hann sagði, að mér væri kunnugt um, að hér væri dýrara að lifa en annars staðar. Mjólk væri dýrari hér, kjöt og húsaleiga. Það er rétt, en þess ber að gæta, að margt er dýrara annars staðar en hér. Hvað kostar t. d. að flytja kol austur að Stórólfshvoli? 120 kr. á tonnið. (MJ: Þurfa þeir eins mikil kol þar?). Já, ef lífsstandardinn á að vera sá sami. En 1. þm. Reykv. ætlast til þess, að þar sé ekki hitað eins og hér í bæ. Svona mætti lengi telja. En ef það er rétt hjá hv. frsm., að það sé ódýrara að lifa annars staðar en hér, af hverju vilja þá verklýðsfélögin leggja Reykjavík til grundvallar, þegar um laun er að ræða, og af hverju vill þá hv. frsm. hafa sömu embættismannalaun og sömu verðlagsuppbót annars staðar og í Reykjavík?

Af því að ég hef orðið var við, að nokkrir þm. vilja fylgja till. minni í breyttu formi, tek ég hana aftur núna. Sama er að segja um brtt. 2. a. Mönnum, sem að öðru leyti vilja samþ. hana, þykir tíminn of langur. En b-liðinn tek ég ekki aftur, nema eftir sérstakri ósk hv. 1. þm. Eyf. (BSt: Ég óska þess). Í því trausti, að síðari liður till. á þskj. 20Ð verði ekki látinn koma til atkvæða nú, get ég gert það. (BSt: Ég legg enga áherzlu á þetta). Þá nær það ekki lengra, og mín till. kemur þá líka til atkv.

Núgildandi skattalög eru frá 193b. Einu sinni á þeim árum öllum hefur skattskrá í Reykjavík verið lögð fram á réttum tíma. Öll hin skiptin hefur hún ekki verið tilbúin. (MJ: Þá á að breyta tímanum). Af hverju kemur n. ekki fram með brtt. um það? Þar sem mér skilst, að fyrir næsta þing komi nýtt frv., sem menn munu sætta sig betur við, álít ég rétt að láta frestinn gilda fyrir bæði árin. Það er rétt að hafa frestina í l. fasta, en ekki bráðabirgðaákvæði fyrir eitt ár.

Ég legg til, að numin verði úr gildi „litlu ljótu lögin“, en hv. frsm. minntist ekki á það. Þögn er líklega sama og samþykki. Ég vil biðja hæstv. forseta að bera þá brtt. mína, þskj. 199,3, upp í tvennu lagi, hvor laganna fyrir sig.