18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Hv. 1. þm. Eyf. vék að mér nokkrum orðum fyrir það, sem ég sagði um þetta mál við l. umr. Hann kallaði mín orð „brigzl“ í garð Framsfl. Ég held samt, að ég hafi ekki í minni tölu farið út fyrir þau takmörk, sem leyfileg eru, þegar tekið er tillit til þess, hvernig gangur skattamálanna hefur verið hér á undanförnum árum. Það kemur mér allundarlega fyrir sjónir, að þessi þm. skuli sérstaklega vilja telja Framsfl. undan öllu ámæli í þessum efnum, þar sem sjálfur viðskmrh. játaði einmitt við 1. umr., að árið 1938 hefði ekki verið fært annað en setja á þessi svonefndu skattfrelsislög fyrir útgerðina, þar eð þótt hefði sýnt, að engar líkur væru orðnar til, að félögin gætu nokkru sinni rétt við með gildandi skattalöggjöf. Þetta voru nú orð flokksbróður hv. þm. En hvaða flokkur bar árið 1938 höfuðábyrgðina á skattamálunum í landinu? Svarið getur bara verið á einn veg: Sú skattalöggjöf, sem þá gilti, var til orðin aðallega fyrir tilstilli Framsfl., og það var sú skattalöggjöf, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að hefði verið þannig vaxin, að útgerðin gat ekki risið undir henni. Vona ég, að hv. þm. athugi þetta mál og falli frá því að bera mig sökum um ósanngjörn ofmæli í garð Framsfl.

Hv. þm. sagðist kunna því illa, að hér væri talað eins og þetta frv. hefði í för með sér nýjar kvaðir á útgerðina, þar sem þvert á móti væri um fríðindi að ræða henni til handa.

Enn fremur vil ég benda á, að það virðist vera nýmæli í löggjöfinni, og harla undarlegt nýmæli, að útgerðarfél. er skylt að geyma fé varasjóðanna og nýbyggingarsjóðanna vaxtalaust, eftir ákvæðum þessa frv.

Ég er viss um, að hv. þm. geta fallizt á, að hér er rétt skýrt frá efni frv., að þessu leyti, því að bankarnir eru hættir að ávaxta fé, en hins vegar eru þau verðbréf, sem frv. vísar til, orðin lítt fáanleg eða jafnvel ófáanleg með öllu, nema gefið sé fyrir þau miklu meira en nafnverð. Held ég því, að erfitt verði að hrinda þeirri staðhæfingu minni, að hér sé um nýjar kvaðir að ræða.

Ég sagði ekkert um það, að framsóknarblöðin hefðu skrifað mikið um gróða útgerðarinnar og jafnvel á þá lund eins og um eitthvað skelfilegt óhapp væri að ræða. Ég nefndi ekki framsóknarblöðin í þessu sambandi. Hitt er annað mál, að ég les ekki öll framsóknarblöðin, og geta þess konar ummæli því vel hafa staðið í einhverju þeirra. En hins vegar er það fullvíst og rétt, að slík ummæli hafa staðið í þjóðstjórnarblöðum.

Hv. 1. þm. Eyf. segir, að Framsfl. hafi ekki búið illa að útgerðinni. Þessu get ég vel látið mér nægja að svara með þeim orðum, sem hæstv. viðskmrh. viðhafði á Alþingi 1938, að skattfrelsislögin hefðu verið sett, „þar eð sýnt þótti, að útgerðarfélögin mundu ekki nokkurn tíma geta reist sig við með núgildandi skattalöggjöf.“

En hæstv. ráðh. verður að muna, að það var. Framsfl., sem bar ábyrgð á þeirri skattalöggjöf.