18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Það var út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. Mér þótti vænt um, að hann gerði tilraun til þess að andmæla því, sem ég hélt fram í ræðu minni og till. minni, með rökum, í staðinn fyrir að nota miður gáfuleg slagorð eins og stundum hefur tíðkazt, þegar svarað hefur verið till. sósíalista hér á þessari hv. samkundu. Ég vitnaði í það, sem einn hv. ræðumaður sagði hér við 1. umr. þessa máls, að l. um skattfrelsi útgerðarinnar hefðu því aðeins getað komið að gagni, að eitthvert „óvænt happ“ vildi til. Hv. 1. þm. Reykv. vildi mótmæla því, að það hefði verið gert ráð fyrir þessu „óvænta happi“, þegar skattfrelsisl. voru samin. En nú vil ég minna hv. 1. þm. Reykv. á það, að þessi ummæli hv. þm. Vestm., sem ég vitnaði í, eru alls ekki fundin upp hjá okkur sósíalistum, heldur voru þessi ummæli höfð hér á hæstv. Alþ., þegar skattfrelsisl. voru til umr., og man ég ekki betur en þau sé að finna í ræðu frsm. í málinu. M. ö. o. lögin voru sett í trausti þess, að það vildi til eitthvað, eins og það var kallað „óvænt happ“, því að það var gert ráð fyrir þessu „happi“. Og það „happ“ var styrjöld, og það var búizt við því, að ekkert góðæri væri fram undan fyrir útgerðina, nema í sambandi við styrjöld. Svo framarlega að vígbúnaði þjóðanna hefði verið hætt, hefði verið framundan kreppa. Framundan var annaðhvort kreppa eða styrjöld. Og, það, sem búizt var við, var styrjöld. Og fleira á þeim tíma var sett í l. einmitt með tilliti til þess, að búizt var við styrjöld, sem ég hirði ekki um að fara inn á hér. En hvort sem búizt hefur verið við því eða ekki, að þetta „happ“ vildi útgerðinni til, þá haggar það ekki því, að hér hafa verið gerð góð kaup af hálfu útgerðarmanna. Þeir hafa fengið varanleg fríðindi í staðinn fyrir hlunnindi, sem þeim voru veitt um takmarkað tímabil.

Þá gerði hv. þm. tilraun til þess að afsaka framkomu Alþfl. og Framsfl. í þessu máli, afsaka þennan fyrirvara þeirra, sem sýnilega er ekkert meint með. Hv. þm. vildi afsaka það, að ekki væri hægt að koma þeim till. fram, sem óskað væri eftir, með því að þessir fl. gætu ekki gert annað en að leggja þessar till. sínar fram, og síðan yrðu þær að sæta þeim örlögum, sem þingviljinn segði til um, en hins vegar væru þessar till. þannig vaxnar, að um engar þeirra væri fyrir hendi sameiginlegur vilji fl. En þetta er ekki svo eftir þeim umr., sem fram hafa farið um þessi mál. Ég tók það fram áður, að um tvö stór atriði hefur í ræðum hv. þm. komið fram sameiginlegur vilji þessara fl., að því er snertir persónufrádráttinn og um að breyta fyrirkomulaginu um skattálagninguna þannig, að skatturinn sé lagður á tekjur, áður en tekjuskattur fyrra árs er dreginn frá þeim. Þessir fl. hafa sameiginlega meiri hl. í þinginu með Sósíalistafl. til þess að koma þessu „áhugamáli“ sínu fram. Félmrh. taldi sig samþ. þessu. En talað var um, að fyrst þyrfti að setja löggjöf til þess að tryggja, að skatturinn yrði greiddur á réttum gjalddaga. En á því verður ekki mark tekið, því að það er auðvelt að setja slíkt ákvæði strax inn í skattal. Svo að þessi röksemd hv. 1. þm. Reykv. dugar ekki.

Síðan kom hv. 1. þm. Reykv. inn á nokkrar af þeim brtt., sem ég flyt við frv. Hann áleit, að þessi hlunnindi, sem veitt eru hlutafélögum, séu þannig, að ekki megi úr þeim draga. Þarna greinir okkur á. Ég álít, að um það megi deila, hvort yfirleitt eigi að veita þessum félögum nokkuð af þessum hlunnindum, hvort eigi að hafa nokkuð skattfrjálst af því, sem þau leggja í varasjóði eða nýbyggingarsjóði. En frá sjónarmiði almennings er ótvírætt, að þennan rétt á að takmarka, ef þess er gætt, hvað þessi hlunnindi þýða í raun og veru. T. d. um það er nefnt ágætt dæmi, sem skattstjóri hefur lagt fram í grg. fyrir till., sem hann flutti í mþn., sem ég vil lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Skattstjóri segir hér um:

„Ef hlutafélag hefur í hreinar tekjur kr. 20 þús. og leggur þær í varasjóð, þá eru hálfar tekjurnar skattskyldar, þ. e. kr. 10 þús. og tekjuskattur af þeim kr. 1713.60. Sé hlutafé félagsins kr. 100 þús., má enn draga frá tekjunum 5% af hlutafé, eða kr. 5 þús., og verða þá skattskyldar tekjur félagsins kr. 5 þús. og tekjuskattur kr. 285.60.

En ef einstaklingur hefur jafnháar hreinar tekjur og hlutafélagið, þ. e. kr. 20 þús., og sé

hann einhleypur, verða skattskyldar tekjur hans kr. 19200, og tekjuskattur kr. 5407.36, eða sem næst nítjánföld sú upphæð, er hlutafélagið greiðir af sömu tekjum. En eins og framanbirtar samanburðartölur sýna, fer þessi mismunur hlutfallslega minnkandi eftir því sem tekjur hækka“.

Hér er um svo gífurleg hlunnindi og fríðindi fyrir þessi félög að ræða, að ég get ekki skilið annað, ef á málið er litið frá almennu sjónarmiði, en að tillit beri að taka til þessa samanburðar skattstjórans og jafna metin.

Hv. frsm. vildi líta svo á, að ef þessi till. mín væri samþ., þá yrðu hlunnindi þessi, sem hér er um að ræða, að hafa skattfrjálsan þann hluta varasjóðs, sem lagður er í nýbyggingarsjóð, svo að segja einskis virði. Ég lít öðruvísi á þetta. Ef um hlutafélag er að ræða, sem hefur hlutafé, sem nemur hundruðum þús., þá er ekki um svo litla upphæð að ræða, sem hefur þannig skattívilnun, og það hefur ekki svo lítil áhrif til þess að lækka skatt á viðkomandi félagi, þar sem með því að skattskyldar tekjur þess lækka, þá kemst félagið einnig í lægri gjaldendaflokk. Ég lít því allt öðruvísi á þetta mál en hv. þm.

Hv. þm. benti einnig á það, að hlutafé félaganna, sem innborgað hefur verið fyrir löngu síðan, væri nú orðið minna virði heldur en þegar það var innborgað. Þetta er alveg rétt. Hv. þm. getur náttúrlega komið með till. um að umreikna hlutafjárupphæðina á svipaðan hátt og skatturinn er umreiknaður. Ég tel, að engin þörf sé á slíkri till. En það er hægt að koma með hana.

Hvað snertir gagnrýni hv. þm. á hinum till., þá er þar bara um mismunandi sjónarmið að ræða. Ég álít, að það eigi að hækka persónufrádráttinn þangað til hann er farinn að nálgast það að vera brýnustu þurftarlaun. Ég álít ekki ná nokkurri átt að skattleggja upphæð, sem ekki nægir til þess að framfleyta lífi viðkomandi gjaldenda og hans skylduliði. Og þetta hefur áhrif að vísu til þess að lækka nokkuð mikið skattinn á lægri gjaldendum og miðlungsgjaldendum, en ég álít líka, að það sé rétt að lækka á þeim skattinn, sérstaklega þegar svo mikið fé er til hjá hátekjumönnunum, að það gerir meira en að fullnægja tekjuþörfum hins opinbera.