18.04.1941
Efri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það er út af þessum brtt., sem liggja hér fyrir, aðrar en fjhn., sem ég vildi segja nokkur orð. Fyrst vil ég minnast örfáum orðum á þá brtt., sem var talað um síðast, á þskj. 220. Í sjálfu sér er það ekkert stórmál, hvernig á að haga þessum frádrætti fyrir einstaklinga, og mér finnst, að með henni sé ósamræmið aukið frá því, sem verið hefur í skattamálum á undanförnum árum. Menn geta deilt um það, hvar dýrast sé að lifa, en ég held, að flestir séu sammála um, að í höfuðstaðnum eigi að vera mest frádráttarupphæðin, af því að þar sé dýrast að lifa.

Tillögumenn ætlast til, að sveitir og kaupstaðir séu jöfn. En ef þarna ætti eitthvað að gera í réttlætisáttina, þá væri það það, að sumir þessir kaupstaðir yrðu gerðir jafnir Reykjavík. Það er áreiðanlega ekki miklu ódýrara að lifa t. d. á Siglufirði eða Ísafirði eða jafnvel í Vestmannaeyjum eða Hafnarfirði, sem allir vita, að er rétt hjá Reykjavík. Þessir bæir ættu að vera jafnir Reykjavík með persónufrádrátt. Það vita allir, að það er miklu ódýrara að lifa í sveitum landsins en í kaupstöðum. Við erum ekkert einstakir með þetta. Hjá okkar nágrannaþjóðum er persónufrádrátturinn minni í sveitum og smærri bæjum en í stærri borgum. Ég vil því meina, að þessi till. sé frekar til að skapa ósamræmi en til að eyða því. Hitt er annað mál, hvort þessi upphæð er nægilega há. Ég lít svo á, með tilliti til þeirrar dýrtíðar, sem nú er, að hún mætti vera nokkru hærri, bæði hér í Reykjavík og annars staðar.

Ég mun leiða hjá mér að greiða atkv. um skrifl. brtt. Mér virðist líka, að hv. flm. leggi ekki mikið kapp á hana, þar sem a. m. k. annar þeirra virðist vera á móti henni.

Þá liggur fyrir till., þar sem ætlazt er til, að 1. nr. 57 frá 1935 og 1. nr. 44 frá 1938 og breyt. á þeim 1. frá 1940 verði felld úr gildi. Um þetta var rætt í fjhn., og ég hygg, að n. hafi yfirleitt litið svo á, að réttast væri að bera fram breyt. við þau l., sem þarna eru nefnd, án tillits til þess, hvort þessar till. væru réttmætar. Það er tvímælalaust um 1. um iðnfyrirtæki, að það ber að bera fram breyt. við þau 1., en ekki við skattal. Um 1. nr. 106 frá 1940 verð ég að segja það, að ég tel óþarft að bera fram till. þar að lútandi, því að það er til heimildarákvæði, sem stj. getur notað. Að vísu er það rétt, að þessi heimild er sett sem tekjustofn fyrir bæjarfélag Hafnarfjarðar, því að bærinn missti svo mikið af tekjustofnum sínum, þegar ekki mátti leggja á útgerðina, en ég hygg, að þetta sé ekki nauðsynlegt, því að stj. getur haft þetta í hendi sér. Ég verð því að vera á móti þessari till.

Aðrar brtt. held ég, að liggi ekki fyrir, sem koma til atkv., og get ég því látið máli mínu lokið, því að ég vildi aðeins gera grein fyrir atkv. mínu.