29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti! Þetta frv. er hingað komið frá Ed. og tekið til athugunar í fjhn. N. hefur lagt fram nál. á þskj. 290 og brtt. á þskj. 291.

Eins og nál. ber með sér, þá hefðu einstakir nm. kosið að gera fleiri breyt. á frv., en þar sem frv. er undirbúið af nefnd manna, kosinni úr stjórnarflokkunum, þá var ekki líklegt, að samkomulag næðist um frekari breyt. Þær breyt., sem n. fer fram á, eru ekki stórvægilegar, en ég mun reyna að gera grein fyrir þeim með nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi er brtt. við 2. gr. frv., og má segja, að það séu frekar leiðréttingar. A-liður 1. brtt. er umorðun á síðasta málslið 5. málsgr. í 2. gr. frv. og er um það, að ákvæðin um ráðstöfun á fé varasjóðs nái til félaga, sem njóta eða hafa notið hlunninda vegna framlags í vara- sjóð. Með þessu er tekið skýrt fram, að jafnskjótt sem félag nýtur hlunninda, þá verði það háð fyrirmælum í 2. gr. um ráðstöfun á fé varasjóðs. Þ. e. a. s., að ráðstafanir, sem félagið hefur gert á fjármunum á því ári, sem það fyrst nýtur hlunninda vegna framlags í varasjóð, þurfi að vera í samræmi við ákvæði þessarar greinar, ella verði að greiða skatt, ef fé er ráðstafað öðruvísi en heimilt er samkvæmt gr.

Það er tekið fram í síðara hluta 2. gr., að ef félag, sem hefur stofnað varasjóð, ráðstafar fé eins og greint er í a-c-lið, þá falli það til skattgreiðslu, þó ekki hærra en sem nemur varasjóði. N. leggur til, að miðað verði við þá fjárhæð, sem var í varasjóði í lok skattársins.

Næsta brtt. er við 4. gr. og einstaka liði hennar. Fyrsta breyt. er leiðrétting. N. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki sé hægt að samþ. þann lið eins og hann kom frá Ed., vegna þess að þá er í sumum tilfellum krafizt hærri skatts af mönnum með lægri tekjum heldur en af öðrum, sem hafa hærri tekjur. Í því er ósamræmi. Þessi leiðrétting er í því fólgin, að í stað „einhleypum gjaldendum“ í 5. málsgr. a-liðs (55. gr.) komi: gjaldendum með sama frádrætti eftir 12. gr., — þ. e. gjaldendum með jafnmiklum persónufrádrætti.

Næsta brtt., sem ég nefni, er við c-lið. (b-liður hefur áður verið skýrður, sem er aðeins orðalagsbreyt., sem n. þótti rétt að gera til að taka af allan vafa.) Í upphafi greinarinnar stendur : „Við ákvörðun tekjuskatts 1941 skal félögum, sem um ræðir í 3. gr. a og b, heimilt að draga frá skattskyldum tekjum sínum aðeins 2/5 þeirrar fjárhæðar, er þau leggja í varasjóð af tekjum ársins 1940 o. s. frv. Nú þótti réttara til þess að koma í veg fyrir misskilning um tapsfrádráttinn að bæta við greinina eftirfarandi : „Sé um tapsfrádrátt að ræða samkvæmt heimild 64. gr., skal tapið dregið frá tekjunum áður en varasjóðstillagið er ákveðið.“ Hér er dæmi um framkvæmd á þessu. Ef t. d. útgerðarfélag hefur 600 þús. kr. hreinar tekjur árið 1940. Tap þess, að frádregnum gróða á árunum 1931–1939 er samtals 200 þús. kr. Samkv. rekstrarreikningum og skattaframtali fyrir þau ár, sbr. þó a-lið 64. gr., þá ætti tapið, sem ákveðið er eftir rekstrarreikningi og skattaframtali, að dragast frá hreinum tekjum áður en ákveðið er framlag í varasjóð. Þá eru eftir 400 þús. kr. Ef félagið leggur alla þá upphæð í varasjóð, er helmingur hennar undanþeginn tekjuskatti, en skattur reiknast af 200 þús. kr. Síðan skal tapsfrádrátturinn, 200 þús. kr., teljast til varasjóðs auk þeirra 400. þús. kr., sem lagðar eru í sjóðinn samkv. framansögðu.

Ég get í sambandi við þetta getið þess, að samkvæmt fyrirmælum frv. um tapsfrádrátt, þá er hann takmarkaður við, að eigi verði afskrifað meira á árunum 1931–1939 af verði togara en svo, að þeir verði bókfærðir á 150 þús. kr. í árslok 1939, og önnur skip í hlutfalli við það.

Þá er enn fremur ákveðið svo um tapsfrádráttinn, að þær tekjur, sem hans vegna eru undanskildar skatti og teljast til varasjóðs, megi aðeins nota til að mæta rekstrarhalla, ef aðrar eignir hrökkva ekki til að greiða hann.

Er svo ákveðið, að sé nokkru af þessum tapsfrádrætti varið til annars, þá skuli greiða tekjuskatt af 3/5 þeirrar fjárhæðar, sem þannig er varið, jafnan þeim skatti, sem hefði orðið að greiða af þeirri upphæð, þegar hún var lögð fyrir, ef hún hefði ekki verið undanþegin tekjuskatti.

Næsti liður brtt. er um það að gera nokkru rýmri heimild þeirra fyrirtækja, sem leggja fé í nýbyggingarsjóð, til þess að nota innistæður á biðreikningum sterlingspunda, sbr. síðari málsgr. d-liðs. Vill n. mæla með því, að viðkomandi þeim útgerðarfyrirtækjum, sem engan tapsfrádrátt hafa, sé ákvæðið þannig, að þau megi nota innistæður á biðreikningum í sterlingspundum til að greiða allt að 3/5 hluta af innistæðu nýbyggingarsjóða. En önnur, sem hafa tapsfrádrátt, mega nota aðeins 1/3 hluta, eins og gert er ráð fyrir í frv. N. færir þá ástæðu fyrir því að gera þennan mismun á þeim, sem njóta tapsfrádráttar, og hinum, sem ekki njóta hans, að yfirleitt yrði nýbyggingarsjóðstillagið hærra hjá þeim fyrirtækjum, sem ekki njóta tapsfrádráttar. Það verður hlutfallslega meiri hlutinn af hreinum tekjum þeirra síðastl. ár, sem þau verða að leggja fram í þennan sjóð. T. d. má benda á það, að fyrirtæki, sem hefur 200 þús. kr. í tapsfrádrátt, kemst af með að leggja í nýbyggingarsjóð 80 þús. kr. minna heldur en annað fyrirtæki með sömu hreinar tekjur, sem engan tapsfrádrátt hefur, vegna þess, eins og ég gat um áður, að tapið er dregið frá hreinum tekjum, áður en varasjóðsframlagið og þar með nýbyggingarsjóðsframlagið er ákveðið. En eins og fram kemur í frv., eru möguleikar til þess fyrir þá n., sem hefur eftirlit með nýbyggingum, að veita þessum félögum rýmri heimild til að nota innistæður á biðreikningum til framlaga til nýbyggingarsjóðs, ef félögin sýna, að þau hafi notað svo mikið af fé sínu síðastliðið ár til þess að greiða skuldir, að þau geti ekki lagt fé til nýbyggingarsjóðs á annan hátt en að nota þessar innistæður.

Næst er e-liður. Um hann er það sama að segja eins og c-liðinn, að þar er aðeins um orðabreytingu á upphafi 64. gr. að ræða, en breytir engu um efni hennar.

Þá er loks 3. brtt. við 5. gr. Hv. Ed. gerði þá breytingu á frv., að auk þess, sem ákveðið er, að um leið og þessi 1. eru sett, falli úr gildi l. nr. 49 frá 12. febrúar 1940, um skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja, skuli einnig falla úr gildi l. nr. 57 frá 28. jan. 1935, um hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki, og sömuleiðis 1. frá 1938, sem breytt var 1940, um bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað. Fjhn. leggur að sjálfsögðu til, að 1. um skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja séu úr gildi numin og sömuleiðis 1. um iðjufyrirtæki. Hins vegar vildi meiri hl. fjhn. láta l. um bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað gilda áfram. Ég hefði nú talið eðlilegast, að þessi gr. hefði verið samþ. eins og hún kom hér frá hv. Ed. Þessi l. um tekjuöflun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað voru sett á þeim árum, sem togaraútgerðarfyrirtækin voru undanþegin útsvarsgreiðslu og skattgreiðslu. En þar sem útgerðin, er aðalatvinnuvegur Hafnarfjarðar, var þetta mjög tilfinnanlegt fyrir Hafnarfjarðarkaupstað að hætta að leggja útsvar á útgerðarfyrirtækin, og fékk kaupstaðurinn þessar tekjur í staðinn. Nú hefur hins vegar orðið sú breyt. á, að útgerðarfyrirtækin þar sem annars staðar greiða skatt og útsvar, og má segja, að þessi 1. séu þar með óþörf. Ég hef talið eðlilegast, og eins mun hafa verið með hv. 1. þm. Rang., sem einnig á sæti í fjhn., að þessi 1. yrðu felld úr gildi, þó að við höfum ekki gert ágreining um það ákvæði við meiri hl. fjhn., sem óskaði þess mjög ákveðið, að þessi l. fengju að gilda áfram.

Eins og ég gat um áður, er vikið að því í nál., að einstakir nm. hefðu kosið að gera breyt. á þessu frv., þó að þeir hafi ekki flutt brtt. um það, þar sem ekki var hægt að búast við samkomulagi um verulegar breyt. á frv. frá því, sem nú er. Í nál. hafa einstakir nm. gert grein fyrir, hver afstaða þeirra er í þessum málum, og ég býst við, að einstakir nm. ræði eitthvað um þetta nú við þessa umr. Eins og kemur fram nál., vildum við tveir af nm., ég og hv. 1. þm. Rang., gera þá breytingu á frv., að hætt yrði að draga tekjuskatt og útsvar frá tekjum við ákvörðun skattskyldra tekna, en skattstiginn lækkaður sem því svaraði. Till. um þetta voru lagðar fyrir mþn. í skatta- og tollamálum af fulltrúum Framsfl., og auk þess var þetta nokkuð rætt í þeirri n., sem undirbjó þetta frv. af hálfu þingfl. Eins og vikið er að í nál., hafa hinir stjfl. ekki fengizt til þess að samþ. þessa breyt., a. m. k. ekki enn. Sáum við því ekki, að það mundi hafa þýðingu að leggja fram brtt., sem gengju í þessa átt.

Eins og vikið hefur verið að í nál., þá er það svo með þær reglur, sem nú gilda, að hafa skattstigann háan, en leyfa skattgreiðendum að draga frá tekjum þá skatta og útsvör, sem þeir greiða, að samkv. þeim verða þeir skattgreiðendur, sem hafa ójafnar tekjur frá ári til árs, verr úti í skattgreiðslu heldur en þeir, sem hafa stöðugar og jafnar tekjur. Þetta teljum við óeðlilegt eins og hér er háttað, að skattal. krefjist þyngri fórna af þeim, sem hafa óvissar og ójafnar tekjur. Og þess vegna mun Framsfl. gera tilraun til þess að koma þessari breyt. á siðar, fyrst ekki gat orðið samkomulag um það nú að breyta þessum ákvæðum frv.

Þá skal ég geta þess, að nm. eru ekki sammála um það, hve mikinn mun eigi að gera á útgerðarfélögum og öðrum fyrirtækjum að því er snertir varasjóðshlunnindin. Að undanförnu hefur verið í l., að hlutafélög mættu draga frá tekjum sínum helming þeirrar fjárhæðar, sem þau leggja í varasjóð. Þannig er það enn í frv., sem hér liggur fyrir. Við hefðum sumir nm. viljað breyta þessu á þann veg, að útgerðarfélög hefðu eftir sem áður heimild til þess að draga frá helming þeirrar fjárhæðar, sem þau leggja í varasjóð, en aftur væri þetta takmarkað við 1/3 hjá öðrum félögum, sem hefðu hættuminni rekstur. Um þetta var ekki samkomulag. Hins vegar náðist samkomulag um það, að varasjóðshlunnindi þeirra félaga, sem ekki stunda sjávarútveg fyrst og fremst, skyldi þó takmarka nokkuð á þessu ári, þ. e. a. s. að því er snertir tekjur síðastl. árs, þannig að við ákvörðun tekjuskatts nú af tekjum ársins 1940 skyldu félög önnur en útgerðarfélög aðeins fá að draga frá tekjunum 2/5 þeirrar fjárhæðar, er þau leggja í varasjóð af tekjum ársins 1940.

Eins og fram kemur í nál, var það samróma álit nm., að gera ætti mun á útgerðarfélögum og öðrum í þessu efni. En hins vegar voru nokkuð skiptar skoðanir um það, hvað munurinn ætti að vera mikill og hvað mikinn hluta af vara¬sjóðsframlaginu hvert einstakt félag eða hver einstök atvinnugrein ætti að hafa skattfrjálsan.

Nú hafa verið bornar hér fram af einstökum þm. nokkrar brtt. Tvær af þeim snerta 3. gr., þ. e. a. s. persónufrádráttinn. Í hv. Ed. var þessi 3. gr. ákveðin þannig, að þetta er aðeins flokkað í tvennt, þ. e. a. s. sérstakt ákvæði fyrir Reykja¬vík og svo annað fyrir aðra staði á landinu. Ég er samþ. því, að þetta verði afgr. eins og það kom frá hv. Ed. Hins vegar hefur einn af nm. fjhn., hv. þm. Seyðf., flutt hér brtt. um að skipta þessu í þrennt, þ. e. a. s. að í 1. fl. yrði Reykjavík, 2. fl. kaupstaðir og kauptún, sem hefðu yfir þrjú hundruð íbúa, og loks yrðu í þriðja lagi aðrir staðir á landinu, þar sem persónufrádráttur væri lægri heldur en í kaupstöðum og kauptúnum. Hæstv. viðskmrh. er meðflm. hv. þm. Seyðf, að þessari till. Svo hafa þrír nm. fjhn. lagt fram brtt. á þskj. 313, um það, að persónufrádrátturinn skuli vera hinn sami hvar sem er á landinu, og geri ég ráð fyrir, að þeir geri grein fyrir sínum brtt. En ég er ósam¬þykkur báðum þessum brtt., en mun greiða atkvæði með því, að 3. gr. verði samþ. óbreytt eins og hún er nú í frv.

Loks vil ég geta um brtt., sem hv. þm. A.-Húnv. og hv. 3. landsk. flytja á þskj. 294, við 2. gr. og 4. gr. frv. Ég geri ráð fyrir, að ég geti fallizt á fyrri brtt. þeirra, þó með nokkurri breyt. og leiðréttingu, því að það er prentvilla í brtt. Ég skal taka það fram, að það, sem ég sagði um þessar brtt., er aðeins frá mér einum, því að ég veit ekki skoðun annarra nm. á þeim. Ég geri ráð fyrir, að frsm. þeirra brtt. geri grein fyrir þeim, og sé ég ekki ástæðu til að svo stöddu að ræða meir um þær.

Ein brtt. er enn, sem fram hefur komið á þskj. 304 frá hv. 6. landsk. Er hann því mót¬fallinn, að l. um iðju- og iðnfyrirtæki verði úr gildi numin. En eins og ég gat um áðan, vill fjhn. láta það ákvæði standa, að þau l. verði úr gildi felld.

Ég sé ekki ástæðu til, nema tilefni gefist, að fara fleiri orðum um þetta mál, en vísa til nál. á þskj. 209.