29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Um afstöðu okkar Alþfl.-manna til þessa máls skal ég vísa til ræðu, sem hæstv. félmrh. flutti við 1. umr. í Ed., og get ég látið það nægja af minni hálfu og míns flokks um aðalatriði frv.

Það er rétt, að þetta mál hefur verið býsna lengi í burðarliðnum, eins og hv. þm. V.-Húnv. sagði, að vísu með öðrum orðum. Það er líka rétt, að það ber þess merki, að menn með ólíkar skoðanir hafa unnið að því. Þess er ekki að dyljast, að hefði Alþfl. ráðið meiru, hefði frv. orðið öðruvísi en það er nú. Þó hefur flokkurinn talið, að svo sem nú er ástatt hér á landi, hafi svo langt verið gengið til móts við hann, að við megi hlíta. Hv. þm. A.-Húnv, sagði það mikinn kost á frv., að skattur hefði verið mikið lækkaður á mönnum með lágar tekjur og miðlungstekjur. Þetta er rétt. Er um verulega skattalækkun að ræða fyrir þessa menn, og er það í samræmi við mína skoðun og míns flokks, að slík lækkun sé gerð. Þessi lækkun er þó ekki meiri en svo, að skattstiginn samkvæmt frv. er nokkru hærri, þegar kemur upp fyrir 7000–8000 kr., en í skattal, frá 1935. Það var nauðsynlegt á árunum 1936–1939 að auka við þennan grunnskatt vegna erfiðleika, sem þá voru, og vegna þess, að skattur kom þá ekki frá útgerðinni, en lækkunin nú er bein afleiðing þeirra breytinga, er orðið hafa á hag þessa atvinnurekstrar á síðasta ári.

Önnur ummæli í ræðu hv. þm. A.-Húnv, voru þau, að menn hefðu lengi haft þá röngu skoðun, að óhætt væri að hlaða sköttum á stórútgerðina, enda hefði hún verið að sligast undan þessum álögum á síðari árum. Og mér skildist hann vilja halda því fram, að erfið afkoma útgerðarinnar árin 1938–1940 væri að verulegu leyti að kenna þessari harðdrægni í skattamálum. Ég hef áður heyrt þessu haldið fram, og því vil ég gera nokkra grein fyrir því, hve þetta er fjarri sanni, að minnsta kosti að því er snertir árin 1934–1938.

10 togarafyrirtæki hér í borginni hafa á þessum fimm árum greitt tekju- og eignarskatt og útsvar sem hér segir: Í tekju- og eignarskatt greiddu þau kr. 2235.10 og í útsvar kr. 320200.00. Ég leyfi mér að spyrja, hvort nokkur maður geti haldið því fram í alvöru, að það sé skattakúgunin á þessum árum, sem valdið hafi þeim erfiðleikum, er óneitanlega voru miklir árin 1938–1940. Skattar hafa í rauninni engir verið, og útsvör hafa numið liðlega 320 þús. kr., eða um 65 þús. kr. á ári, það er 6504 kr. á hvert félagið á ári. Mér þykir rétt að benda á þessar staðreyndir vegna síendurtekinna staðhæfinga um skattakúgunarvaldið.

Útgerðin var illa komin árið 1938, ekki vegna skattanna, þó að rétt sé að geta þess, að á útgerðinni hvíldu einnig önnur gjöld, svo sem útflutningsgjald af síldarafurðum og innflutningsgjald af kolum og salti, sem síðan hefur verið létt af smám saman. Orsakir örðugleikanna voru aflabrestur, markaðsbrestur og verðlækkun. Um þetta leyti fór saman lítill afli og óminnilega lágt verð, og var það aðalástæðan til hinnar þröngu afkomu útgerðarinar á því tímabili.

Þá sagði hv. þm., að Alþ. bæri að standa við gefin loforð, og skal ekki úr því dregið, er hann segir, að með ákveðinni breyt. á l., sem hann mælir þó með, eins og ég geri, án þess að vera þó heldur ánægður með hana, sé verið að rifta loforðum við ákveðna menn í þjóðfélaginu. Ég er ekki sammála honum um þetta, enda mundi ég ekki fylgja þessu frv., ef svo væri. Þegar l. um skattfrelsi útgerðarfyrirtækjanna voru sett, var afkoma þeirra svo ólík því, sem nú er, að ekki var sambærilegt. Tilgangur 1. var að gera útgerðinni kleift að komast á réttan kjöl. Orkar það ekki tvímælis, að þessi var tilgangurinn. Og þetta hefur nú verið efnt. En engan mann óraði þó fyrir því, að annar eins stórgróði bærist útgerðinni í hendur og orðið hefur á síðast liðnu ári. Ég skil ekki rök hv. þm. fyrir því, að eðlismunur sé á því, hvort breytt er einum eða öðrum lið af þremur í skattfrelsisl. frá 1940. Ívilnanirnar, sem ákveðnar voru í þessum l., voru þessar: 1) heitið var tapsfrádrætti, þannig að árin 1938–42 skyldi heimilt að draga frá skattskyldum tekjum allt tap, sem orðið hafði á rekstri félaganna eftir 1. jan. 1931 til þess tíma, er tapið væri að fullu greitt. [Hér virðist vanta í handr. skrifarans.] Það er ekki aðeins, að sveitar- og bæjarfélögum hafi verið heimilað að leggja ekki útsvar á útgerðarfélögin, heldur var þeim beinlínis bannað að leggja á þau meira útsvar heldur en 1938, sem var þá 40 þús. til 50 þús. kr. á öll slík fyrirtæki hér í bænum.

Þá er ákvæðið um 90% af nettótekjum þessara félaga, að sá hluti teknanna komi til frádráttar og verði ekki skattskyldur: Þessu loforði telur hv. þm. hafa verið rift að 4/5 hlutum. En þessi ákvæði eru öll felld úr gildi og önnur ný sett í staðinn. Þau eru felld úr gildi vegna þess, að sú undirstaða, sem þau voru byggð á, er ekki lengur fyrir hendi, og 1. þau því ástæðulaus. Hitt væri hin freklegustu rangindi gagnvart öðrum skattgreiðendum í landinu, að láta fyrirtæki þessi, sem mest hafa grætt nú upp á síðkastið, sleppa léttar við skattgreiðslu heldur en aðra.

Hv. þm. sagði enn fremur, að hann hefði hins vegar talið eðlilegt, að þrátt fyrir það þótt skattfrelsisl. hefðu haldizt, þá hefði verið lagður stríðsgróðaskattur á þessi fyrirtæki. Hvaða mismunur er nú á því, hvort skatturinn er kallaður stríðsgróðaskattur eða einhverju öðru nafni, sé sama upphæð tekin af fyrirtækinu í skatt með stríðsgróðaskattinum, eins og nú er gert ráð fyrir að tekið verði með tekju- og eignarskattinum? Þar er í raun og veru enginn efnislegur mismunur á.

Það má gera ráð fyrir, að svo fari nú sem oft fyrr, að svipull verði sjávargróðinn, og ekki er séð, hve lengi þessi gróði stendur. Af þeirri ástæðu legg ég ríka áherzlu á það, að 1. þessi séu látin ná til tekna ársins 1940, því að þá hefur skapazt meiri gróði á einu ári á þessu landi heldur en þekkzt hefur í sögunni nokkru sinni fyrr. Og kúfurinn hefur ekki enn verið tekinn til hins opinbera af þeim gróða, sem ekki hefur á neinn hátt orðið til fyrir dugnað, árvekni, atorku eða sparsemi eða neitt slíkt af hálfu þeirra manna, sem unnið hafa að þessum atvinnuvegi, heldur hefur þessi gróði hreint og beint komið vegna styrjaldarinnar. Einmitt vegna þess, hve óvíst er með framtíðina, er það skylda Alþ. að sjá um, að það opinbera fái sinn skerf af tekjum þessum frá árinu 1940, því að ekki er víst, hvað framtíðin ber í skauti sínu í þessum efnum.

Ég hef vikið hér nokkuð almennt að efni frv., af því að ummæli hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) gáfu tilefni til þess, og vænti ég, að hæstv. forseti geti fallizt á, að ekkert sé við það að athuga, þar sem ekkert var rætt um málið við 1. umr.

Þá skal ég víkja að ummælum hv. þm. V.-Húnv. Hann lét þess getið, að hann og Framsfl. hafi hreyft því við umr., að sú breyt. yrði gerð á skattal., að hætt yrði að draga frá skatt síðastl. árs við ákvörðun skattskyldra tekna, en skattstiginn lækkaður. Hann taldi, að þetta væri bæði eðlilegri aðferð við skattálagningu og sanngjarnari heldur en eftir núgildandi l., því að með þessu væri tryggt, að fyrirtæki, sem hefðu misjafnar tekjur frá ári til árs, yrðu ekki harðar úti heldur en önnur fyrirtæki með jafnar tekjur árlega yfir lengri tíma, og miðað við, að bæði fyrirtækin hafi jafnar tekjur að meðaltali á ári yfir mörg ár til samans. Ég skal viðurkenna, að eins og skattal. eru nú, þá getur það komið fyrir, að fyrir tæki verði mismunandi hart úti í skattálögum eftir því, hvort þau hafa. mismunandi tekjur frá ári til árs eða jafnar. En það er ekki rétt að segja það skilyrðislaust, að félag með ójafnar tekjur verði harðar úti en hitt með jöfnu tekjurnar, því að það er nokkuð undir því komið, hvernig góðu og vondu árin skiptast á. Ef tvö góðæri koma í röð, þannig að síðara árið komi til greina til frádráttar tekjuskattur og útsvar frá árinu á undan, þá er ekki víst, að það fyrirtæki verði harðar úti það árið heldur en fyrirtæki, sem hefur jafnháar tekjur árlega yfir lengri tíma. Ég játa samt, að ýmislegt mælir með því, að þessi breyt. verði upp tekin. Og meginhugsun hennar er ég samþykkur, því, að gera ráðstafanir til þess að tryggja, að fyrirtæki verði ekki harðar úti vegna þess að það rekur stopulan atvinnurekstur með misjöfnum tekjum frá ári til árs. En ég tel ekki, að það hafi verið rétt að breyta þessu á þessu ári, eins og á stendur, vegna þess að nú stendur svo á, að til skatts koma tekjur ársins 1940, sem eru geysiháar. En á árinu 1940 hefur svo að segja ekkert af þeim fyrirtækjum, sem hæstar tekjur hefur haft á því ári, greitt neitt útsvar. Fyrir þessi fyrirtæki öll mundi þessi breyt. verka sem hrein og bein skattalækkun á þessu ári. Og ég hef enga ástæðu getað séð til þess, að svo verði hagað skattálagningu, allra sízt nú, eins og árferðið er. Og ef þessi regla verður tekin upp, að draga ekki frá skatt og útsvar síðasta árs, áður en skattskyldar tekjur eru ákveðnar, þá mun verða að gera einhverjar ráðstafanir um innheimtu skattsins. Það mun vera álitið, að ákvæðin um frádráttinn sé verulegt aðhald um greiðslu á skatti og útsvari. Ef á að breyta þessu atriði í 1., verður að setja einhvers konar tryggingu í staðinn fyrir þetta aðhald, sem tryggi innheimtu þessara gjalda.

Ég er einnig sammála hv. þm. V.-Húnv., er hann talaði um varasjóðstillagið, og væri ástæða til að gera meiri greinarmun á fyrirtækjum í sambandi við það heldur en nú er gert, ef það væri tryggt, að hlutafélög væru eitthvað meira en nafnið tómt. En ég hygg, að mikill meiri hl. af þeim hlutafélögum, sem myndazt hafa síðasta áratug, séu ekki hlutafélög nema að nafninu til. En með l. er hlutafélögum veitt alveg sérstök aðstaða að því er skattálagningu snertir, og ástæðan fyrir því er sú, að í hlutafélögum er fé bundið til að nota það í ákveðnu augnamiði. En ef það er notað til eigin þarfa manna, fellur það undir skattskyldar tekjur.

Vil ég svo víkja að brtt., sem fyrir liggja og mér þykir ástæða til að minnast á. Um brtt. n. hef ég engu við það að bæta, sem hv. frsm. tók fram, öðru en því, að fylgi mitt við brtt. 2.c. á þskj. 291, um umorðun á c-lið (57. gr.), er að sjálfsögðu bundið við það, að ekki nái samþ. brtt., sem ég flyt á þskj. 292. Ég vænti þess, að hæstv. forseti beri upp brtt. á þskj. 292 fyrst, því að ef hún nær ekki fram að ganga, mun ég greiða atkv. með brtt. á þskj. 291.

Um brtt. mína get ég verið stuttorður. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir því, að tapsfrá dráttur fyrir árin 1931 til 1939 sé takmarkaður við það, sem hér segir:

Útgerðarfyrirtækjum íslenzkra botnvörpuskipa, línubáta og vélbáta er heimilt að draga frá við ákvörðun skattskyldra tekna árið 1940 töp, sem orðið hafa á rekstri útgerðarinnar á tímabilinu frá 1. jan. 1931 til 31. des. 1939, samkv. eftirfarandi reglum: Tap, sem orðið hefur árin 1938 og 1939, má draga frá að fullu, en auk þess er útgerðarfélögunum heimilt að draga frá töp, sem orðið hafa á árunum 1931–1937, að báðum meðtöldum, þar til eigi hvíla hærri skuldir en svarar til 150000 kr. á hverjum togara og tilsvarandi fyrir önnur skip, samkv. nánari reglum, sem setja skal með reglugerð, og til matsverðs til eignarskatts samkv. 19. gr. laganna hvað snertir aðrar eignir fyrirtækjanna.

Þetta er í samræmi við það, sem ég hélt áður fram fyrr í ræðu minni, að væri megintilgangur skattívilnanal. frá 1938, sem sé að útgerðarfyrirtækin kæmust á réttan kjöl. Það var skylt að afstýra því, að útgerðin kæmist í voða, og það hefur verið gert. En umfram það, sem gert var í því efni, og umfram það, sem efni minnar brtt. ákveður, tel ég ekki rétt að ganga, né heldur að hafi verið tilætlunin 1938, þegar áminnzt 1. voru sett. Mér er óskiljanlegt, að það hafi verið ætlun þeirra löggjafa eða að það sé rétt eða eðlilegt, að þeir menn, sem útgerð hafa rekið og hafa átt eignir miklar eða litlar 1. jan. 1931, eigi einir allra manna í þjóðfélaginu að fá þann rétt, að þeim sé skilað aftur öllum þessum eignum, hverjum eyri, áður en þeir eiga að greiða skatta og skyldur til ríkissjóðs. En það er ætlazt til eftir frv., að það sé gert með þeim takmörkunum viðkomandi ákvæðunum um varasjóð, að fyrningar séu ekki metnar meira en svo, að skipin séu metin í 150 þús. kr., ef tapsfrádráttur þeirra verður til þess að hækka þau svo mikið í verði. Ég fæ ekki betur séð en að hér sé stórlega mismunað þessum þegnum Þjóðfélagsins samanborið við alla aðra þegna þess. Það er vitað, að það er fjöldi manna í öllum stéttum, sem hafa orðið fyrir svona miklum töpum og eignaskerðingum á tímabilinu frá 1931 til 1939, að báðum árum meðtöldum, án þess að nokkrum hafi dottið í hug, held ég, að þessi töp verði þeim öll bætt, áður en þeir greiða skatt af tekjum ársins 1940. En útgerðarfyrirtækin, ein allra fyrirtækja í landinu, eiga að fá þennan rétt, að fá aftur í sínar hendur eignir, þær, sem þau áttu 1. jan. 1931, áður en þau greiða nokkurn í skatt af tekjum ársins 1940, þó að gróði þeirra það ár hafi oltið á milljónum. Ég gæti skilið þetta, ef nauðsyn hefði verið á að gera þennan mismun á þegnum þjóðfélagsins. En svo er ekki. Gróði þessara fyrirtækja er svo mikill, að fjárhagur þeirra er öruggur og tryggur, þó að ekki sé gripið til slíkra ráðstafana sem hér er gert ráð fyrir. Og í brtt. minni er gert ráð fyrir, hversu langt skuli ganga, til þess að það eigi að telja þessi fyrirtæki trygg fjárhagslega. Þó að hér séu tilteknar 150 þús. kr., má vitanlega miða við einhverja aðra upphæð, ef réttara þætti. En mér virðist rétt að miða þessa upphæð við smálestatölu og aldur skipa. En þetta atriði er nokkuð erfitt í framkvæmd og yrði að setja um það vissar reglur.

Hér er um að ræða gróða, sem ekki er hægt að segja að hafi verið aflað með dugnaði, sparnaði, framsýni eða atorku, heldur er hann einungis happagróði, sem alveg án sérstaks tilverknaðar manna fram yfir venjulega fyrirhöfn hefur borizt upp í þeirra hendur, er hann hafa hlotið, í milljónatali. Er hann því að mínu áliti miklu frekar eign þjóðfélagsins í heild heldur en þeirra manna, sem af tilviljun hafa eignazt hann, þegar þessi gróðaalda reis, að svo miklu leyti sem hann er fram yfir venjulegan gróða.

Þá á ég aðra brtt. á þskj. 309 ásamt hæstv. viðskmrh., um, að gr., sem kveður á um persónufrádrátt, sé færð í það horf, sem hún upphaflega var í, þegar frv. var flutt í hv. Ed. og borið fram af fjhn. þeirrar hv. d. En þó að ég sé meðflm. þessarar brtt., þá skortir að minni hyggju mikið á, að hún nái því takmarki, sem ég taldi æskilegt og eðlilegt að ná með þessari lagasetningu. Ég tel eðlilegt, að persónufrádráttur sé jafn fyrir alla meðlimi fjölskyldunnar, án tillits til þess, hvort um gifta menn, hjón eða börn er að ræða, því að börn á vissum aldri eru jafnþung á framfæri og konan. (Annars er konan ekki ómagi á sumum heimilum).

Ég hefði helzt kosið að hafa flokkana fjóra með mismunandi persónufrádrætti í stað þriggja, En ég býst ekki við, að slík brtt. næði fram að ganga, og því hef ég tekið upp þá till., sem var í frv. upphaflega og var þangað komin inn, að ég ætla, eftir uppástungu hæstv. fjmrh. Mismunurinn á persónufrádrætti í fl. er meira til þess að sýna viðurkenningu Alþ. á því, að eðlilegt sé að gera mun í þessu efni heldur en hitt, að upphæðirnar, sem um er að ræða, skipti miklu máli, og þessi viðurkenning veldur því, að ég er flm. þessarar brtt. En það er ómögulegt að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að framfærslukostnaður er svo mismunandi á ýmsum stöðum á landinu, eftir því hvort menn búa í sveit eða kaupstað, og ef búið er í kaupstað, hvort menn búa í höfuðborginni sjálfri, að það væri beinlínis ósanngirni að láta það ekki koma fram í skattal., að löggjafanum væri ljóst, að þessi mismunur er fyrir hendi. Þessi mismunur er miklu meiri heldur en þessi brtt. gæfi tilefni til að ætla. En ef ákvæðin um þetta væru samþ. eins og þau eru í frv. nú, væri það sama sem að loka augunum fyrir því, sem hver maður getur séð með opnum augum. Því að það er dýrara að lifa t. d. í Vestmannaeyjum heldur en í Axarfirði. Það veit hver maður. Og í kaupstöðum og sveitum er munurinn á þessu svo greinilegur og meiri en brtt. gefur til kynna.

Ég sé, að meiri hl. fjhn. flytur brtt. á þskj. 313, þar sem gert er ráð fyrir, að jafn persónufrádráttur sé alls staðar á landinu og eins og hann er tiltekinn í Reykjavík eftir frv. eins og það er nú. Ég býst við glöggri grg. frá hv. form. n. fyrir þessari mjög svo fráleitu till.

Um brtt. á þskj. 294, frá tveim hv. fjhnm., vil ég segja það, að ég er andvígur fyrra tölul. brtt., ekki þó svo mjög fyrir það, að ég ekki játi, að fljótt á litið virðist sanngirni mæla með þessu, heldur af hinu, að mér er torvelt að sjá, hvernig unnt er að framkvæma það að skipta varasjóði í fleiri deildir heldur en komnar eru þarna í frv. Í öðru lagi virðist mér, að ef brtt. þessi yrði samþ., mundi hún þýða það, að þetta, sem nemur þeirri upphæð, sem varasjóðurinn hefur verið 1939, mundi þá losna til frjálsrar ráðstöfunar af arði ársins 1940, þannig að það dragi úr þeim áhrifum, sem annars er ætlazt til, að gr. hafi til þess að hindra það, að fé streymi út í alls konar ráðstafanir og skapi verðbólgu og margháttaðar óheppilegar afleiðingar.

Að því er síðari tölul. brtt. á þskj. 294 snertir, fæ ég ekki betur séð, eftir því sem hv. þm. mælti fyrir henni, en að hann sé óþarfur, því að ég skil ákvæðin svo, að fyrirtæki, sem hafa blandaðan atvinnurekstur, eins og t. d. — síldarverksmiðjur, þau komi undir ákvæði frv. eins og þau nú eru, því að þar er talað um fyrirtæki í sambandi við útgerð. En þessi ákvæði ná vitanlega ekki til þess, að maður, sem rekur iðnrekstur í landinu og kaupir hráefni af útgerðarmönnum, eigi að koma með sinn iðnrekstur undir ákvæðin um nýbyggingarsjóð. Sá maður kaupir hráefni til sinnar iðnar alveg eins og t. d. bakari kaupir mjöl o. fl. Ég glöggvaði mig ekki vel á því, sem hv. þm. sagði, er hann mælti fyrir þessum lið brtt. En mér fannst hann eingöngu eiga við þau fyrirtæki, sem hafa blandaðan rekstur, eru útgerðar- og iðnfyrirtæki, þá ættu ákvæði brtt. um varasjóðinn að ná til þeirra, en ekki hinna, sem eingöngu vinna úr sjávarafurðum. Ég er andvígur því, að fyrirtæki, sem enga útgerð reka, en aðeins vinna úr sjávarafurðum, komi undir ákvæði frv. um varasjóðinn.

Ég mun greiða atkv. með brtt. á þskj. 304. Ég tel óþarft að blanda skattfríðindum gagnvart iðnfyrirtækjum inn í þetta mál, hvað sem segja mætti annars um að fella ákvæðið um þau niður.

Ég held ég hafi þá drepið á brtt. allar og vænti þess, að hæstv. forseti taki til greina, tilmæli mín um röðina, sem þær verði bornar í undir atkvæði.