29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Það má með miklum rétti segja, að næsta litla þýðingu hafi að lengja þessar umr. til muna, þar sem komið hefur í ljós, að flestir alþm. eru fjarverandi. Ég get þó ekki látið hjá líða að víkja nokkrum orðum að þeim atriðum, sem hv. þm. Seyðf. talaði um. Þá er fyrst það, að hann heldur því fram, eins og svo oft áður, að það sé ekki að neinu leyti fyrir ráðstafanir. ríkisvaldsins, að útgerðin í heild sinni var komin í þau vandræði 1931–1939, sem raun bar vitni um. Hann hélt því fram, að þessi vandræði útgerðarinnar stöfuðu fyrst og fremst af markaðstöpum og lítilli veiði. Þessi sjónarmið má náttúrlega lengi þrátta um, en ég held samt, ef það er rannsakað, hvernig þessir hlutir standa, að það sé ómögulegt að neita því, að erfiðleikarnir stafi af því, hvernig búið hefur verið að útgerðinni af hálfu ríkisvaldsins. Það má með nokkrum rétti segja um þetta hið sama og um bændur, sem verða heylausir í harðindum, að það stafi af því, að harðindi eru í landinu. En auðvitað er orsökin ekki síður sú, að þeir hafa farið ógætilega að í ásetningi að haustinu. Nú er þess að gæta, að það hafa ekki nein óvanaleg veiðileysisár verið á þessu tímabili, svo að það hafi skarað fram úr því, sem áður hefur þekkzt. En vandræðin undanfarin ár hafa fyrst og fremst komið af falskri gengisskráningu og í öðru lagi vegna tolla og skatta.

Hv. þm. Seyðf. hélt því fram, að tekju- og eignarskattur hefði verið sama og enginn, og er það bein sönnun þess, hve illa hefur verið komið fyrir þessum fyrirtækjum vegna þess, hvernig að þeim hefur verið búið af hálfu ríkisvaldsins. Þar til má nefna gjöld, sem hlaðið hefur verið á fyrirtækin á þessu tímabili, og gæti ég um það flutt langt mál. En ég þarf ekki að þessu sinni að fara lengra út í þá sálma en aðeins að sýna fram á, hverju munar um mín sjónarmið og þessa hv. þm.

Þá er í öðru lagi það, sem hv. þm. vildi véfengja og mótmæla því, sem ég hélt fram í fyrri ræðu minni, en það var það, að brugðið hefði verið gefnum loforðum til útgerðarinnar með því að flytja þetta frv. Það er með því frv. brugðið loforðum, sem fólust í þeim l., sem gilt hafa fram á þennan dag, og ætlazt er til að verði afnumin, um skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja.

Ég fæ ekki séð annað en að það liggi greinilega fyrir, að hér hafi verið brugðið gefnum loforðum með því að láta ákvæði þessara l. verka aftur fyrir sig. Við skulum segja, að allt dilkakjötið hafi verið ákveðið skattfrjálst með l. 1940, og það happ hefði svo komið fyrir, að dilkakjötið hefði hækkað gífurlega. Ég hygg, að flestir bændur hefðu talið það svik við sig, ef þessi hækkun á dilkakjötinu hefði verið tekin af þeim með skatti á þann hátt að láta afnám slíkra l. verka aftur fyrir sig. Mér er sem ég sjái allan launamannahópinn hér á hv. Alþ., ef það kæmi fyrir, vegna breyttra kringumstæðna, að lækkuð yrðu laun allra launþega og 1. látin verka þannig aftur fyrir sig, að lækkunin gilti fyrir liðið ár . Í þessu sambandi er einnig þess að geta, að hér á síðasta Alþ., sem ekki er nema ár síðan var haldið, flutti hv. 3. þm: Reykv. frv. um afnám þessara l., um skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja, og fór frv. fram á það sama sem gert er með þessu frv. En það kom í ljós, eftir því sem ég bezt veit, að ekki einn einasti maður úr þingfl. stj. var því meðmæltur að afnema 1. að því er snerti þau tvö meginatriði, sem í frv. fólust. Mjög margir menn hér á hv. Alþ., sérstaklega framsóknarmenn og, að ég hygg, Alþfl.-menn, eru því meðmæltir að afnema útsvarsfrelsið, sem kalla mætti svo, og heimila að leggja útsvar á þessi fyrirtæki. En um það skal ég ekki fara mikið fleiri orðum, en aðeins víkja að því, sem hv. þm. Seyðf. talaði um, að þetta væri sjálfsagt eins og nú er, vegna þess að takmörkunum innan l. væri þegar náð. Að því leyti er það rétt, að takmörkum þessara l. er náð, sem snýr að þeim hluta l., er fjallar um tapsfrádrátt. En einmitt hv. þm. Seyðf. vill ekki halda það loforð, sem gefið var með skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja, að því er tapsfrádráttinn snertir, ef hann ætlast til, að brtt. hans nái samþykki þingsins.

Þó að þessum takmörkum l. sé náð, þá álít ég, að nú sé heppilegur tími til að stofna til varasjóða handa útgerðarfyrirtækjunum, svo að þeim væri engin hætta búin, þó að yfir skyllu ný vandræði, og þyrfti þá ekki að ganga aftur inn á þá braut að láta þau njóta sérstakra fríðinda umfram alla aðra. Við lifum á svo miklum óreiðutímum, að við getum lítið um það sagt. hvað næstu mánuðir, hvað þá ár, fela í skauti sínu. En eins og ég tók fram áðan, getum við átt von á því, að stríðsgróðinn verði farinn áður en stríðið er búið, hvað þá heldur þegar kreppan er búin, sem hlýtur að skella yfir að stríðinu loknu. Nú er þess í öðru lagi að geta að það veit enginn um það, hvað mikils virði þessi ensku pund, sem gróði útgerðarinnar byggist á, kunna að verða eftir stríðið. Snertandi það, að þessi hlunnindi, sem útgerðarfél. er veitt með tapsfrádrættinum, séu meiri en búast mætti við þá vil ég enn minna hv. þm. Seyðf. á það atriði, að ekki hefur verið staðið við þau loforð, sem gefin voru með l. um skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja. Annars kemur það fram í þessu sambandi, ekki sízt að því er útgerðina snertir, að sjónarmiðin eru ákaflega ólík, og mönnum hættir til að líta á þetta frá persónulegu sjónarmiði. Ég lít á þetta frá víðtækara sjónarmiði. Ég lít á það sem þjóðfélagsmál á þeim grundvelli, að það sé brýn nauðsyn á því, að okkar þjóðfélag geti haldið áfram framleiðslunni og ekki sízt útgerðinni, hún þarf að vera rekin þannig, að hún sé fjárhagslega tryggð. Hvað verður um alla okkar verkamenn, ef útgerðin er ekki rekin á tryggan hátt, hvað um launamennina, sem þurfa 20–30 millj. kr. í laun á ári, hvað verður um þau framlög, sem nú verður að leggja fram af ríkinu til verklegra framkvæmda, ef útgerðin er ekki rekin á tryggan hátt? Þess vegna er það ekki persónulegur hlutur, að það sé sem bezt að útgerðinni búið.

Viðvíkjandi þeim 2 till., sem við flytjum, hv. 3. landsk. og ég, og þeim andmælum, sem komu frá hv. þm. Seyðf., skal ég segja það um fyrri till., að ég fæ ekki séð, að það þurfi að valda neinum ruglingi, þó að ákvæði a- og c-liðs nái ekki til þeirrar upphæðar, sem útgerðarfélög áttu í varasjóði í árslok 1939. Ég held, að það sé af því, að hv. þm. hafi ekki athugað þetta nægilega, að hann heldur, að þetta ákvæði muni valda einhverjum ruglingi, ef það verður samþ. Viðvíkjandi seinni till., þá finnst mér, að það sé heldur ekki rétt, að hún sé óþörf, vegna þess að gr., eins og hún er orðuð í frv., gefur ekki til kynna, hvort þau fyrirtæki, sem hafa með höndum vinnslu sjávarafurða, koma undir þetta ákvæði.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að svara í sambandi við þau atriði, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, því að form. fjhn. mælti svo skörulega fyrir till. um persónufrádrátt, að ég hef þar engu við að bæta.