29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. Seyðf. er að því leyti mér fremri í að halda staðfastlega við sinn málstað, að hann býr til þau orð og þær röksemdir, sem hann heldur, að hann sé að mæla gegn, en tekur ekki tillit til þess, sem raunverulega var sagt. Ég tel mér þó skylt að hafa röksemdafærslu andstæðings míns rétt eftir. Það er m. a. þetta, sem ég á við, þegar ég segi, að hv. þm. Seyðf. sé allra manna þráastur um að halda við sinn málstað. Hann gengur svo langt í þessu, að það er varla frambærilegt á sjálfu Alþingi. Hann segir, að ég hafi sagt, að það, hvað dýrt sé að lifa, byggist eingöngu á því, hvaða kröfur menn geri til lífsins. Ég hef aldrei sagt þetta. Ég hef sagt, að það byggist að nokkru leyti á því. (HG: Ég fór rétt með). Já, ég veit, að hv. þm. vill ekki viðurkenna þetta. Ég sagði, að það gæti verið misjafnlega dýrt að fullnægja þörfum sínum á hinum ýmsu bæjum í sömu sveit og það byggðist að miklu leyti á því, hvaða kröfur menn gerðu til lífsins.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði sagt, að menn lifðu svo miklu bílífi hér í bæ. Ég hef aldrei viðhaft þau orð. Ég sagði, að í bæjunum veittu menn sér meiri þægindi. Af hverju? Af því að þeir hafa betri aðstöðu til þess. Þeir hafa meiri laun. Það er ósköp eðlilegt, að þeir geri það, sem geta. En það á bara ekki að verðlauna þá með minni sköttum. Hv. þm. heldur því fram, að ýmsar nauðsynjar séu ódýrari uppi í sveit en í kaupstöðum. Bæjarbúar þurfi að kaupa 75% innlendar vörur, en 2.5% erlendar. Það er rétt. Þá segir hann, að mjólk sé tvöfalt dýrari hér en okkur sé reiknuð hún til skatts uppi í sveit, og annað sé eftir því, kartöflur o. fl. Það er ekki rétt. Innlendu vörurnar eru ekki allar meira en tvöfalt dýrari í bæjunum. Nú vil ég segja hv. þm., að ég borga tvöfalt verð fyrir kol á við hann. Öll þungavara er miklu dýrari í sveit en í bæjum. Af þungavöru borgum við 5–10 aura viðbótartoll á hvert kg. Ég get ekki séð annað en þetta geti jafnazt nokkuð á móti verðlagi innlendra afurða í bæjum. Hitt er ógerningur, að láta það jafnast nákvæmlega.

Mismunurinn á því, hvað menn komast af með, og það, að menn í sveit komast af með minna en menn í kaupstað, stafar að miklu leyti af því, að fólk í sveit verður að neita sér um fleira. Hv. þm. tók sjálfur gott dæmi, þó að hann ætlaði það sínum málstað í vil. Hann sagði, að ef hann hefði vinnukonu, fengi hann ekki að draga kaup hennar frá í skattframtali sinu, en það fengi bóndinn. Hefur hv. þm. virkilega ekki gert sér grein fyrir hinum mikla aðstöðumun í þessu efni? Dettur honum í hug, að það séu margar sveitakonur, sem hafa vinnukonu til þess að hugsa um fjölskylduna? Nei, húsmæður í sveitum verða að gera hvort tveggja, vinna að öllu innanhúss og hjálpa til við framleiðsluna. Vinnukonur í kaupstöðum eru teknar til hjálpar við þau störf, sem húsmæður í sveitum verða einar að inna af hendi auk þess að hjálpa við framleiðslustörfin. Mig skal ekki furða, þegar hv. þm. tekur svona dæmi, þó að hann verði ruglaður í ríminu.

Eins og ég hef tekið fram, sé ég ekki, að það eigi að verðlauna fólk fyrir að safnast þangað, sem hægast er að lifa. Ég sé ekki ástæðu til að verðlauna þá, sem vilja helzt vera þar, sem lífsskilyrðin eru bezt, og mynda með því misræmi í þjóðfélaginu.