03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fram. (Skúli Guðmundsson) :

Ég ætla ekki að eyða löngum tíma til að svara hv. 5. þm. Reykv. út af píslarsögu hans. Mér skildist á honum, að hann telji þetta frv. freklega móðgun við útgerðarmennina. En ég held, að ekki sé hægt að segja, að sérlega illa sé með þá farið eða atvinnuveg þeirra í frv. Það vita allir, hvað sem hv. þm. segir, að vandræði þeirra stöfuðu ekki af opinberum álögum, heldur fyrst og fremst af aflatregðu og markaðstapi. Á Alþingi 1938 voru sett sérstök lög um skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja, þar sem opinber gjöld þeirra voru mjög takmörkuð og leyft að draga frá skatttekjum tap fyrri ára, en auk þess 90% af því fé, sem lagt væri í varasjóð. Skyldi það vera skattfrjálst. Ári síðar var svo breytt gengi krónunnar, eingöngu með hag útgerðarmanna fyrir augum. Þessar ráðstafanir voru nauðsynlegar þá. En nú hefur orðið sú breyting á, sem öllum er kunn, að útgerðarfyrirtækin hafa grætt stórfé, meira en dæmi eru til. Mér skildist hv. 5. þm. Reykv. telja, að útgerðarmenn hefðu þrátt fyrir það átt að hafa 90% af tekjum sínum skattfrjálst. Það sama kom fram hjá einum hv. flokksbræðra hans við 2. umr. málsins. En ég held, að ekki sé hægt að halda því fram, að útgerðarmönnum sé íþyngt um of með þessu frv., ef að lögum verður. Og ekki er það móðgun, þótt hið opinbera láti sig einhverju skipta varðveizlu og notkun þess fjár, sem skattfrelsi er veitt fyrir, enda eru þau ákvæði til þess eins að tryggja, að hlunnindin komi atvinnurekstrinum að fullum notum, hvort sem er til nýbygginga eða annarra nauðsynja útvegsins.

Út af því, sem hv. þm. (SK) sagði um innistæður á biðreikningum og nýbyggingarsjóð, vil ég benda á, að ekki voru sett lög um það fyrr en í jan. 1941, að útgerðarmenn yrðu að geyma nokkuð af andvirði aflans á biðreikningum, en hér er verið að ræða um meðferð gróðans frá árinu 1940, meðan menn fengu yfirfærðan hingað heim allan sinn erlenda gjaldeyri. Það lá samkv. því beinast við að leyfa ekki, að neitt af fé nýbyggingarsjóðs mætti vera á biðreikningum. Hins vegar vildi fjhn. leyfa það um verulegan hluta nýbyggingarsjóðs, eins og menn vita. Nú hefur hv. 5. þm. Reykv. ásamt fleirum lagt til, að allt fé nýbyggingarsjóðs megi vera á biðreikningum. Engin ástæða virðist til þess. Hins vegar get ég fyrir mitt leyti fallizt á brtt. hv. þm. Borgf. um, að 3/5 nýbyggingarsjóðs megi vera á biðreikningum, og sé hvorki réttlætiskröfu né fyrirsjáanlega þörf á að ganga lengra í þá átt.

Ég held, að ekki sé hægt að segja, að útgerðinni sé íþyngt með þessum skattal. Tekjur hennar eru nú meiri en nokkru sinni áður, og hafa aldrei orðið slíkar tekjur af nokkrum atvinnurekstri hér á landi fram að þessu.

Ríkissjóði er hins vegar þörf á miklum tekjum, bæði til að lækka skuldir og til að standa straum af ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum. Því er ekki rétt að láta þetta tækifæri hjá líða, án þess að nota það til þess að ná nokkru meiri tekjum í ríkissjóð. en hægt hefur verið áður. En allar fullyrðingar hv. 5. þm. Reykv. um það, að útgerðin sé hart leikin, eru algerlega út í bláinn.