03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Ég gerði ekki ráð fyrir því, að fram mundi fara langar umr. við þetta tækifæri, og hefði ég ekki orðið til að lengja umr., ef ekki hefði komið fram í ræðu hv. þm. V.-Húnv. tilefnislaus, og ég vil segja ósvífin, rangfærsla á orðum hv. 5. þm. Reykv., sem hann vildi einnig sýnilega yfirfæra á mig. Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að hv. 5. þm. Reykv. og einn flokksbróðir hans hefðu haldið því fram við 2. umr., að l. um skattfrelsi útgerðarfélaganna frá 1938 ættu að gilda óbreytt áfram. Þetta er rangt. Ég veit ekki til, að nokkur þm. hafi haldið því fram; að þessi 1. ættu að gilda áfram. Annað mál er það, hvort sanngjarnt sé, að afnám þessara umræddu 1. sé látið verka aftur fyrir sig.

Viðvíkjandi umr., sem fram hafa farið um fé það, er útgerðarmenn eiga á biðreikningi, verð ég að segja það, að mér þykir nokkurt ósamræmi í því, að þeir mennirnir, sem vilja draga sem mest úr því, að útgerðarfél. megi eiga nýbyggingarsjóði á biðreikningi, komu hér nýlega fram með frv. um það, að stofnaður yrði gjaldeyrisvarasjóður í enskum pundum og ætti að geymast í Englandi til tryggingar fyrir gjaldeyrisverzlun landsins í framtíðinni.