03.05.1941
Efri deild: 51. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

102. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Það hefur að vísu ekki unnizt mikill tími til þess fyrir n. að athuga þetta mál eins og það lítur út, þegar það kemur aftur frá Nd., því það var afgr. þaðan fyrir tiltölulega stuttri stund, en n. hafði þó fund og athugaði þær breyt., sem Nd. gerði á frv. Nd. gerði að vísu nokkrar breyt. á því, en enga þannig, að það verði til að raska þeim grundvelli, sem lagður var með þeim samtölum, sem fram fóru milli fulltrúa stuðningsflokka stj.

Ég skal leitast við að ger a grein fyrir helztu breyt., sem gerðar hafa verið á frv. í Nd. Fyrst er breyt. á 2. gr. Í staðinn fyrir að í frv. stóð : „að félög, sem hafa notið hlunninda“, stendur nú: sem njóta eða hafa notið. — Ég býst við, að þessi breyt. hafi verið gerð til þess að taka af allan vafa. Önnur breyt. hefur einnig verið gerð á þessari gr. Í frv. segir: „Þá eigi hærri fjárhæð en varasjóðnum“. Þarna hefur verið bætt við: í lok skattársins. — Ég býst við, að þetta sé líka aðeins nánari skilgreining til að taka af vafa.

Á 3. gr. hefur verið gerð nokkur breyt. á persónufrádrættinum. Þegar frv. fór héðan, var persónufrádrátturinn þrískiptur, eftir því hvort um var að ræða Reykjavík eða aðra kaupstaði með yfir 300 íbúa eða í 3. lagi aðra landshluta. Nú hefur þessu verið breytt þannig, að persónufrádrátturinn verður jafn á öllu landinu, að öðru leyti en því, að hann er 100 kr. lægri fyrir hvert barn utan Reykjavíkur. Þó ég persónulega hefði verið meira með hinu fyrirkomulaginu, að hafa þetta tví- eða þrískipt, þá geri hvorki ég eða n. neinn ágreining út af því.

Þá er það viðvíkjandi umreikningnum á skattinum vegna verðfalls peninganna. Á þessu hafa verið gerðar tvær breyt. Önnur er sú, að bætt er inn í orðunum um, að það nái aðeins til einstaklinga heimilisfastra hér á landi, en hin breyt. er leiðrétting, sem ég hef þó ekki haft tíma til að prófa með einstökum dæmum, en ég hygg þó, að hún muni standast. Hér í d. var þessu atriði breytt á sínum tíma, og átti það að vera til hægðarauka, en það varð til að koma ofurlítilli skekkju inn í þetta, sem með breyt. Nd. er leitazt við að lagfæra og ég vona, að megi takast, þótt ég, eins og ég áðan sagði, hafi ekki haft tíma til að sannprófa það með dæmi.

Þá er hér breyt. á c-lið 4. gr., sem er í rauninni ekkert annað en það, sem ég tók skýrt fram, þegar málið var hér til umr., um tapsfrádráttinn, að tapið skuli draga frá, áður en félagið leggur í varasjóð, þannig að tapsfrádrátturinn kemur fyrst til greina. Þetta er sett hér inn með 2 breyt., sem gerðar hafa verið.

Þá er efnisbreyt. við d-lið 4. gr. í stað þess, að frv. fór héðan með því ákvæði, að 1/3 af fé nýbyggingarsjóðs mætti vera á lokuðum reikningi, hefur þetta nú verið fært upp í 3/5 eða rúmlega helming. Það stendur þó eftir sem áður, að n., sem þarna á að fjalla um, sé heimilt að hækka þetta, ef félag, vegna uppfyllinga á öðrum ákvæðum, lendir í þröng með að geta látið nýbyggingarsjóð á annan hátt.

Hér er svo breyt. á j-lið, sem verður 64. gr. Hún er um það, að í staðinn fyrir að talað var um skattskyldar tekjur, er nú í frv. talað um tekjur ársins 1940, áður en skattur er á þær lagður. Ætti að vera tekinn af allur vafi, að þarna er ekki átt við skattskyldar tekjur, eins og talað var um í frv.

Ég verð að segja, að mér þykir leitt, að hv. Nd. skyldi ekki sjá sér fært að kippa einnig þessu atriði í samt lag, því að mér finnst það röng aðferð að nema lög úr gildi á þennan hátt. Það á að þurfa þrjár umr. og athugun í viðkomandi n. til að afnema lög, en með þessu lagi er hægt að gera það með brtt., sem smeygt er inn við 3. umr. og e. t. v. samþ. af tómri hendingu. En það er óheppilegt að flækja málinu milli deilda, svo að fyrir mun farast að bera fram brtt. um þetta að sinni.

Einu atriði vildi ég skjóta til hæstv. fjmrh. Þegar frv. er orðið að 1., virðist sjálfsagt að það sé fellt inn í skattalögin og þau gefin þannig út. Um þetta ætti ekki að þurfa lagaákvæði. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort hann telur ekki, að það megi gera með venjulegri stjórnarráðstöfun, án þess að nokkuð standi um það í þessum lögum.

Nefndin leggur til, að frv. sé samþ. óbreytt.