18.04.1941
Efri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

103. mál, stríðsgróðaskattur

Bernharð Stefánsson:

Ég vil geta þess, að mér finnst brtt á þskj 192 frá hv 1 þm. Reykv. og hv. þm. Hafnf., koma í bága við þann samkomulagsgrundvöll, sem búið var að gera, því að ég man það glöggt, að þar var rætt um bæði þessi atriði og gengið frá þeim eins og stendur í frv. Hins vegar skal það játað, að þetta samkomulag er ekki svo bindandi fyrir hvern einstakan þm., að ekki geti komið til mála að koma fram með brtt. eða fylgja þeim, en ég taldi rétt að geta þess hér, að bæði þessi atriði voru rædd, og varð um þau það samkomulag, sem frv. ber með sér. Þá vil ég árétta það, sem hv. flm. sagði um b-liðinn, að hann getur ekki staðizt eins og hann er nú í frv., því að það mun beinlínis liggja fyrir, að stríðsgróði hefur fallið til í hreppum, þar sem engin útgerð er til og því ekki hægt að verja gróðanum til hafnarbóta.