06.03.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

1. mál, fjárlög

Einar Olgeirsson:

Það ber það ekki með sér fjárlagafrumvarpið, sem hér er lagt fram, að það hafi verið samið eftir að einhver mesta umbreyting hefur orðið á efnahag og pólitískri afstöðu þjóðarinnar út á við, sem Íslandssagan greinir frá. Það vottar þar hvergi fyrir viðleitni til þess að bæta hag verkamanna, bænda, fiskimanna eða annarra vinnandi stétta frá því, sem var, — en hátekjuskatturinn á auðmennina er brott felldur, einmitt þegar auðmennirnir eru margfalt ríkari en nokkru sinni fyrr. Það sér ekki heldur á, að það eigi að lækka tollana, sem eru að sliga almenning í dýrtíðinni, — og því síður að efla skuli gagnlega íslenzka atvinnu fólksins. — Og þótt leitað væri með logandi ljósi, þá sést ekki í þessu fjárlagafrumvarpi vottur um það, að við lifum nú í herteknu landi, þar sem þjóðinni væri nauðsyn á að hervæða sig á sinn máta, efla stórkostlega menntun fólksins, opna skólana fyrir alþýðu, styðja og efla bókmenntir vorar og önnur þjóðleg verðmæti, — nei, í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir, að sami afturhalds- og ofsóknarandinn drottni einnig áfram á því sviði, — andinn eða andleysið, sem kennt er við menntamálaráð.

Það, sem fyrst og fremst verður því að gera í umræðum um þetta fjárlagafrumvarp, er að kryfja til mergjar sjálfa fjármálapólitík ríkisstj. og ekki sízt þá hlið hennar, sem hæstv. fjmrh. í framsöguræðu sinni algerlega sneiddi hjá og hæstv. viðskmrh. líka varaðist að koma inn á.

Þegar þjóðstjórnin kom til valda, hét hún þjóðinni að beita sér fyrir því að koma á réttlæti í þjóðfélaginu og hindra, að einstakar stéttir eða einstaklingar færu að ota sínum tota og hagnast á þjóðarheildinni. Kjörorðið var, að eitt skyldi yfir alla ganga. Engin stjórn, sem setið hefur að völdum á Íslandi, hefur haft aðra eins möguleika til að standa við loforð sín eins og þessi stjórn. En hvernig hefur hún efnt þau?

Á árinu 1940 flytjum við Íslendingar út vörur fyrir 60 milljónir króna meir en við fluttum inn. Þjóðarbúið ætti þannig að hafa hagnazt um 60 milljónir króna, ef allt væri með felldu, vegna vöruútflutnings eins saman á því ári. En þar við bætist svo, að til þjóðarbúsins eru auk þess greiddar a. m. k. 12 milljónir króna í sterlingspundum fram yfir það, sem við þurftum að greiða út úr landinu. Er þetta fé, sem brezka setuliðið greiddi fyrir vinnu, leigur og þess háttar. Hagur þjóðarbúsins hefur því raunverulega batnað um 72 milljónir króna gagnvart útlöndum, eins og hagskýrslurnar líka sanna.

En hvað hefur nú orðið um þessar búsbætur? Það var tvennt, sem hlaut að verða fyrsta skylda hverrar heiðarlegrar stjórnar í meðferðinni á þessu fé.

Það fyrsta var að koma því í raunveruleg verðmæti, Og það næsta var að sjá um, að það yrði þjóðarheildinni allri til gagns.

Til þess að fullnægja fyrra skilyrðinu þurfti ríkisstjórnin að stuðla að því af öllum mætti, að landsmenn flyttu inn þarflegar vörur fyrir peningana, því peningarnir — sterlingspundin –voru þó ekki annað en ávísun á verðmæti, ávísun, sem varð því ótryggari og minna virði, því lengra sem leið. En ríkisstjórnin virðist hafa þjáðst af oftrú á gildi peninganna. Hún virðist hafa haldið, að seðlainnieign í Englandi væri sígild eign, sem hvorki mölur né ryð mætti granda. Hún heldur áfram mestallt árið að tefja fyrir innflutningnum frá Bretlandi, einmitt meðan tækifærið var til að ná vörum þaðan. Og afleiðingin af þessari haftapólitík ríkisstj. er svo sú, að í ár slok 1940 sitja Íslendingar uppi með 60 millj. króna innieign í sterlingspundum í Englandi, en með landið svo að segja vörulaust og birgðalaust, enda innflutningurinn 1940 minni að magni en undanfarin ár. Og meðan ríkisstjórnin safnaði þannig sterlingspundum í Englandi, en hindraði Íslendinga eftir mætti að ná vörum þaðan, héldu vörurnar áfram að stíga og pundið að falla í gildi.

Það þarf ekki að lýsa því með neinum sterkum orðum, hvílíkt hámark heimsku í stjórnarfari og fjandskapur við þjóðina slík verzlunarpólitík sem þetta er. Meira að segja blöð stjórnarinnar viðurkenna, að þjóðinni hafi verið bakað tjón, sem nemi tugum milljóna króna með þessu háttalagi, m. ö. o.: að eins miklu eins og öllum tekjum ríkisins á einu eða tveimur árum hafi verið kastað í sjóinn með þessu háttalagi ríkisstjórnarinnar.

Og ég vil spyrja :

Til hvers er fyrir þingmenn þjóðarinnar að koma hér saman til að semja fjárlög fyrir þjóðina, ef nokkrir æðstu embættismenn hennar eiga að hafa rétt til að henda því, sem samsvarar öllum tollum og sköttum, sem þjóðin borgar, í sjóinn án þess að verða að standa þjóðinni reikningsskap á?

Þingmenn Sósíalistafl. í neðri deild hafa lagt fram þáltill. um, að skipuð verði nefnd til að rannsaka hverjir beri ábyrgð á þessu tjóni. Afgreiðsla þeirrar tillögu mun verða mælikvarði á heiðarleik og ábyrgðartilfinningu þingsins gagnvart þjóðinni í þessum málum.

Nú kunna menn að segja: það er nógu gott að koma eftir á og finna að þessu. Því er til að svara, að við sósíalistar höfum auk þess sem við á síðasta þingi börðumst fyrir afnámi haftanna í blaði okkar, Þjóðviljanum, hvað eftir annað í allt sumar og haust krafizt þess, að þing yrði kallað saman til að taka ákvarðanir um þetta mál og önnur stórmál. Hefði það tvímælalaust verið gert hvar sem heiðarleg lýðræðisstjórn hefði farið með völd.

En þing var ekki kallað saman. Stjórnin hélt áfram að gera það, sem henni þóknaðist, upp á eigin ábyrgð.

Og hér verður nú að kryfja til mergjar, hvaða öfl voru að verki til að hindra það, að nokkur breyting yrði á afstöðu stjórnarinnar, og til að hindra það, að þjóðin og þingið fengju þar nokkru um áorkað.

Frammi fyrir þjóðinni er nauðsynlegt að fletta vægðarlaust hjúpnum af því baktjaldamakki, sem olli þjóðinni hinu gífurlega tjóni, sem hún hefur beðið.

Það er ekkert launungarmál, að það var Framsfl., sem hélt í innflutningshöftin. Blöð Sjálfstfl. hafa öðru hverju verið að ráðast á þau. En af hverju gerði Sjálfstfl. ekkert til að fá innflutningshöftin afnumin?

Til þess að svara þeirri spurningu þarf að athuga annað höfuðmálið, sem ég drap á í upphafi máls míns: hvernig þeim 72 millj. króna, sem þjóðarbúinu áskotnuðust á síðasta ári, yrði ráðstafað í þágu þjóðarheildarinnar.

Nú vitum við, að vegna hins alranga verzlunarmáta. hefur þjóðin ekki fengið verðmæti er nemur þessum 72 milljónum, heldur aðeins pappírspeninga lagða inn á banka úti í Englandi. Meðan því háttalagi var fylgt, hefði það verið eðlileg afleiðing af þessari vitleysu að yfirfæra ekki þau sterlingspund í íslenzkar krónur, sem engin verðmætisaukning átti sér stað fyrir hér innanlands.

En það gerir ríkisstjórnin og landsbankaráðið hennar ekki. Þau eru ekki einu sinni rökföst í vitleysunni.

Þvert á móti. Þau yfirfæra 60 milljónir króna í íslenzkar krónur, þó að engin verðmætisaukning fari fram hér innanlands. Og til þess að bíta höfuðið af skömminni, þá borga þau þessar 60 millj. króna sem gróða til skattfrjálsra stórútgerðarmanna og braskara.

Og hér erum við komin að öðru höfuðhneykslinu í fjármálastjórn Íslands á síðasta ári. Skattfrelsi stórútgerðarinnar er látið haldast og yfir 40 — ef til vill allt að 60 — millj. króna gróði útborgaður til hennar í íslenzkum krónum: Það þýddi í rauninni, að hinum skattfrjálsu stríðsgróðamönnum var gefin ávísun á að kaupa upp þau verðmæti, sem landsmenn áttu fyrir: hús, jarðir, fiskiskip, vörur og annað, enda hafa þeir óspart gert það.

Pólitík ríkisstj. hefur með öðrum orðum verið þessi :

Í stað þess að gera þjóðarheildina ríkari, með því að leyfa innflutning á verðmætum og láta þau renna til þjóðarinnar allrar, þá hefur ríkisstj. í fyrsta lagi svipt þjóðina því að fá þessa verðmætisaukningu, með því að hindra innflutning, og svo í öðru lagi gert þjóðina enn fátækari en hún var áður, með því að fá nokkrum skattfrjálsum stríðsgróðamönnum tugi milljóna af íslenzkum krónum í hendur til að kaupa upp eignirnar, sem hún átti fyrir.

Pólitík ríkisstj. hefur því falizt í því að rýja þjóðarheildina vægðarlaust til ágóða fyrir nokkra útvalda gæðinga hennar hér í Reykjavík.

Nú er því ekki að leyna, að það er Sjálfstfl. undir stjórn Kveldúlfs, sem harðast hefur barizt fyrir því, að stríðsgróðamennirnir héldu skattfrelsinu. Blöð Framsfl. þykjast hafa verið á móti því. En af hverju hefur Framsfl. ekkert gert til þess að fá skattfrelsið afnumið?

Sósíalistafl. hefur í sumar og haust hvað eftir annað krafizt þess, að Alþingi væri kallað saman til að afnema þetta hneykslanlega skattfrelsi stórútgerðarmannanna. En ríkisstj. hefur skellt skollaeyrunum við.

Af hverju hefur Sjálfstfl. ekkert gert gegn innflutningshöftunum og Framsókn ekkert gert gegn skattfrelsinu?

Af hverju hefur Sjálfstfl. horft á það aðgerðarlaus, að þjóðarbúið yrði fyrir tugmilljóna tjóni fyrir ranga verzlunarpólitík? — og af hverju hefur Framsókn horft á það aðgerðarlaus, að nokkrir stríðsgróðamenn í Reykjavík sölsuðu undir sig tugi milljóna af eignum þjóðarinnar í krafti skattfrelsisins?

Að þessu spyrja kjósendur Sjálfstfl. og Framsóknar um land allt.

Og það er aðeins til eitt svar við því, og það er þetta :

Ólafur Thors, hæstv. atvmrh., sem fulltrúi stórútgerðarmanna í Reykjavík, hefur viljað allt til vinna að halda skattfrelsinu. Eysteinn Jónsson, hæstv. viðskmrh., sem fulltrúi Framsóknarembættismannanna í Reykjavík, hefur viljað allt til vinna að halda innflutningshöftunum. Þess vegna hafa togaraeigendurnir í Sjálfstfl. og embættismennirnir í Framsókn samið um það, að hvor skyldi halda sínu, togaraeigendur skattfrelsinu og embættismenn höftunum.

Þannig var gerður sá dýrasti samningur, sem saga Íslands getur um. Tvær klíkur valdhafanna hér í Reykjavík semja um að skaða þjóðina um tugi milljóna króna, til að geta safnað auði og aukið völd sjálfra sín. Ríkisstjórnin og bankaráðið þjóna þessum klíkum. Og til þess að hindra, að þjóðin fengi nokkuð aðgert, meðan hún var þannig fjötruð, svikin og seld í hendur stríðsgróðamönnunum til arðráns, — og það af embættismönnum þjóðarinnar sjálfrar — þá var það hindrað, að Alþingi kæmi saman aftur á árinu 1940. Svikamyllunni hefði getað stafað hætta af því.

Vér sósíalistar ákærum þetta framferði frammi fyrir þjóðinni.

Vér ákærum ráðherra og foringja Sjálfstfl. fyrir að hafa svikið eitt höfuðstefnumál flokksins til að skapa togaraeigendum milljónagróða.

Vér ákærum ráðherra og foringja Framsfl. fyrir að hafa svikið eitt aðalhagsmunamál bænda, til þess að geta þóknazt stríðsgróðamönnunum í Reykjavík og unnið áfram í samvinnu við þá.

Vér þurfum hins vegar ekki að áfellast ráðherra Alþfl. fyrir svikin, sem hann hefur framið í þessum málum. Það bjóst enginn við öðru en svikum þaðan, þjónustan við auðmenn landsins virðist vera orðin æðsta boðorðið í þeim herbúðum, næst undirgefninni undir innrásarherinn.

Það er til lítils að ræða og samþykkja fjárlög, ef sú stjórn á að fara áfram með völd, sem tekur sér einræðisvald, þvert ofan í þjóðarvilja og þjóðarhag, til að ráðstafa mestu stórmálum landsins að eigin geðþótta, en í þágu nokkurra auðmanna í Reykjavík, til að gera þá margfalt ríkari, voldugri og hættulegri þjóðarheildinni en þeir hafa nokkurn tíma verið áður.

Skattfrelsið og viðhald innflutningshaftanna eru slík stórhneyksli, að í hverju lýðræðislandi hefði sú stjórn tafarlaust verið felld, sem gert hefði sig seka um slíkt, — en hér, þar sem einræði milljónamæringanna þrímennir á fjármálaspillingu stjórnmálamannanna, hefur þetta verið látið viðgangast í heilt ár.

Og þó eru ekki öll fjármálahneyksli þjóðstjórnarinnar þar með talin.

Dýrtíðin hefur verið aukin jafnt og þétt. Og það er eins og þjóðstjórninni finnist, að stríðið og stríðsgróðamennirnir væru ekki nógu stórvirkir í aukningu dýrtíðarinnar, svo að hún hljóp sjálf undir bagga til að hækka lífsnauðsynjar almennings með tollalögunum nýju, en þó einkum og sér í lagi með því að láta tollana leggjast á hin hækkandi farmgjöld. En síðasta þing hafði einmitt gefið ríkisstjórninni heimild til að hækka ekki tollana á vörunum að því er hækkun farmgjalda næmi, ef þau hækkuðu vegna stríðsins. En þó tollarnir færu 3 millj. fram úr áætlun, notaði ríkisstj. ekki þessa heimild, heldur notaði tækifærið til að rýja almenning með aukahækkun þessari. Og þegar við þingmenn Sósíalistafl. á síðasta þingi spurðum, hví fjmrh. notaði ekki heimildina, sem þingið gaf honum til hækkunar tollanna, þá neitaði þingið að láta hann svara fyrirspurninni. Þetta var barátta þjóðstjórnarinnar gegn dýrtíðinni.

Nú skyldu menn halda, að stjórn, sem setið hefur að völdum í mesta veltiári, sem yfir Ísland hefur komið, hefði þó að minnsta kosti ráðizt í miklar atvinnuframkvæmdir og látið allar íslenzkar hendur vinna landi og lýð til gagns. Nóg eru verkefnin. Og jafnvel þó erlent efni kynni að skorta í sumt af því, sem menn vildu láta gera, þá voru þó ógerðir vegir, hafnarbætur, svo ekki sé talað um óræktaða jörðina, sem hrópar á mannshöndina, o. fl. — allt krafðist þetta vinnukraftar þúsunda verkamanna.

En ekki heldur á þessu sviði hefur stjórnin sýnt lit á að vinna gagnlegt starf. Í stað þess að ráðast í stórfelldar atvinnuframkvæmdir, hefur hún skipulagt atvinnuleysi og rekið svo verkamenn með atvinnuleysissvipunni til að vinna hjá innrásarhernum störf, sem hverjum Íslendingi er raun að sjá unnin hér og flestöll eru landi og lýð til tjóns eða a. m. k. einskis nýt. Hins vegar er ekki nema eðlilegt, að atvinnulausir verkamenn taki slíkri vinnu fegins hendi, því frá þeirra sjónarmiði séð reynist herstjórn innrásarhersins þeim skár en stjórn þeirra eigin lands.

Borgunin, sem þjóðin fær fyrir að láta vinnuafl sona sinna vinna í þjónustu innrásarhersins, eru sterlingspund, sem leggjast inn í Englandi, þar til eftir stríð. Íslendingar lána Bretum með öðrum orðum: allt vinnuaflið í Bretavinnunni upp á borgun eftir stríð, — eins og þeir líka hafa lánað þeim 60 milljónirnar, sem inn komu fyrir ísfiskinn.

En valdhöfunum virðist ekki koma til hugar, hvert þjóðartjón þeir vinna með þessum aðförum sínum. Þeir virðast líta á vinnuaflið sem eitthvert vandræðafyrirbrigði, sem þeir séu guðsfegnir að losna við í Bretann. Að vinnuaflið sé dýrmætasta aflið, sem þjóðin á, og að hver sú stund sé þjóðinni glötuð, sem vinnuaflið er látið ónotað eða illa notað, — það virðist þessum Bakkabræðrum íslenzkra stjórnmála, þjóðstj.flokkunum þrem, ekki koma til hugar.

Þetta kom m. a. greinilega í ljós í orðum hæstv. viðskmrh. áðan, er hann talaði um sjóðamyndun til notkunar eftir stríðið, — en gerir sér ekki ljóst, að hinum raunverulegu sjóðum þjóðarinnar, vinnuafli þúsunda af landsbúum, er verið að sóa til einskis nú sem stendur.

Svo er auðvitað annað mál í sambandi við Bretavinnuna. Það er sú hliðin, sem að þjóðarmetnaðinum snýr, að láta verkamenn vinna hjá innrásarher, þegar hægt væri að láta hvern einasta þeirra fá næga, gagnlega íslenzka vinnu; — en það mun víst enginn ætlast til þess, sem kynnzt hefur framferði þjóðstjórnarinnar á síðasta ári, að hún þekki þjóðarmetnað eða umhyggju um þjóðarhag og þjóðfrelsi.

Þessi stjórn vissi um, að hertaka landsins var yfirvofandi, og hún leyndi þing og þjóð því. Þessi stjórn fékk beinlínis bréf frá brezku ríkisstjórninni um málið mánuði fyrir hertökuna, og hún leyndi Alþingi því og varð þannig sek um að vera í vitorði um innrásina. Þessi stjórn hefur síðan hilmt yfir með þeim mönnum, er gerzt hafa landráðamenn, með því að reyna að fá brezka setuliðið til að kúga íslenzkan verkalýð, — en hins vegar hefur hún ofsótt þá Íslendinga, sem reynt hafa að hindra það, að brezki herinn yrði notaður til tjóns íslenzkum hagsmunum. Þessi stjórn hefur lagzt svo lágt að taka beinlínis við fyrirskipunum frá Bretum um, hvernig haga skuli okkar innanlandsmálum. Hafa blöð hennar t. d. viðurkennt, að eftir kröfu Breta væru frílistarnir afnumdir og brezka auðvaldinu gefin raunveruleg einokun á íslenzkri verzlun.

Þessi stjórn hefur gefið út hver lögin eftir önnur til að þóknast innrásarhernum, til að löghelga þannig ofbeldi hans, svo sem lögin um ölbruggið. En hámarki sínu nær þó undirlægjuháttur ríkisstj. við þann her, sem traðkað hefur sjálfstæði landsins undir fótum og eyðilagt hlutleysi þess, þegar hún dirfist að höfða mál á móti Íslendingum fyrir landráð við Ísland, ef þeir hafa gert eitthvað, sem brezkri herstjórn þótti miður, þótt það frá íslenzku sjónarmiði gæti sízt talizt ámælisvert. Hefði verið einhver snefill eftir af sómatilfinningu í slíkri ríkisstjórn, hefði hún hlotið að fyrirverða sig, þegar hershöfðingi hins erlenda innrásarhers birtir það í blöðunum hér, að ríkisstjórnin hafi lofað sér því að kæra þessa Íslendinga fyrir landráð, af því m. a. að þeir, Íslendingarnir, höfðu að hans áliti brotið hlutleysi landsins! — En blöð stjórnarinnar birtu öll þetta dæmalausa plagg athugasemdalaust.

Skýringin á öllum gerðum stjórnarinnar, jafnt í fjármálum sem sjálfstæðismálunum, felst í þessu eina: Hún er stjórn nokkurra milljónamæringa, sem ekkert takmark hafa nema auðinn, peningana, — og hún svífst einskis og fórnar öllu, jafnt hagsmunum þjóðarinnar sem heiðri og frelsi hennar, til þess að hjálpa herrum sínum til að ná þessu marki.

Sósíalistafl. mun á þessu þingi sem hingað til halda áfram baráttu sinni gegn þessari stefnu Reykjavíkurauðvaldsins, baráttu sinni fyrir því, að hin vinnandi þjóð þessa lands fái sjálf að ráða auðlindum þess og atvinnutækjum, fái sjálf að njóta ávaxtanna af erfiði sínu.

Sósíalistafl. hefur á undanförnum þingum lagt fram margar tillögur, er miðuðu að því að bæta hag verkamanna, bænda, fiskimanna og annarra vinnandi stétta. Flokkurinn hefur verið spurður, hvar hann ætlaði að taka peninga til þessara kjarabóta. Og flokkur vor hefur alltaf getað bent á tekjulindirnar, sem dygðu.

Nú á þessu þingi mun Sósíalistafl, leggja fram tillögur, sem fara fram á umbætur á hag allrar alþýðu til sjávar og sveita í stærri stíl en nokkru sinni hefur verið lagt til fyrr hér á Alþingi. Og hver mun nú þora að segja það, að „það séu engir peningar til“? Svo ósvífnir munu engir af flokkum milljónamæringanna í Reykjavík þora að vera gagnvart staðreyndunum og gagnvart „háttvirtum kjósendum“ svona rétt fyrir kosningar.

Sósíalistafl. mun á þingi sem utan þings berjast fyrir stórfelldum atvinnuframkvæmdum hins opinbera, — fyrir því, að nú þegar sé hafizt handa um að byggja atvinnulíf Íslendinga á heilbrigðum grundvelli, endurnýja framleiðslutækin og skapa ný, stórvirk atvinnufyrirtæki (sements- og áburðarverksmiðjur, skipasmíðastöðvar o. fl.). Sósíalistafl. mun berjast fyrir því, að ræktun landsins sé aukin stórkostlega, að fátækir bændur og nýbýlafólkið sé ríflega stutt til að sigra í baráttu sinni við erfiðleika ana. Sósíalistafl. mun bæði í sambandi við fjárlögin og með sérstökum frumvörpum beita sér fyrir endurbótum á tryggingum alþýðu, húsnæðismálunum, menningarmálunum og öllu því öðru, sem sífellt hefur verið skotið á frest af afturhaldinu á undanförnum árum undir yfirskini þess að „peningar væru ekki til“.

En oss er það ljóst sósíalistum, að meðan nýríku milljónamæringarnir í Reykjavík ráða þingi og stjórn, þá er engra slíkra umbóta að vænta, heldur aðeins smábita, sem látnir eru detta af borðum hinna ríku fyrir kosningar, til að reyna að sefa hinar vinnandi stéttir fram yfir kosningadaginn.

Þess vegna er fyrsta skilyrðið til þess, að nokkuð, sem um munar, fáist áorkað til hagsbóta fyrir alþýðuna, það, að þjóðstjórnin verði að víkja sakir réttlátrar reiði þess fólks úr öllum flokkum, sem hún hefur féflett og blekkt. Þegar þær þúsundir manna í Sjálfstfl., sem nú þegar leynt og ljóst eru teknir að rísa upp gegn oki Thorsaranna, — þegar þær þúsundir af fylgjendum Framsóknar í dreifbýlinu, sem nú þegar eru fullar gremju út í bitlingastórlaxa flokksins í Reykjavík, — þegar þær þúsundir verkamanna, sem þegar eru komnar með annan fótinn út fyrir Alþfl., þegar allar þessar þúsundir hinna óánægðu í þjóðstjórnarflokkunum taka höndum saman við Sósíalistafl. til að hrista af sér ok milljónamæringanna í Reykjavík, — þá er kominn tími dómsins yfir þjóðstjórninni. Þann dóm eru þjóðstjórnarflokkarnir þegar farnir að óttast, jafnvel óttast, að hann kynni að vera felldur í komandi kosningum. Þeir eru farnir að rífast innbyrðis Bakkabræðurnir í íslenzkri pólitík og kenna hver öðrum um hneyksli. Og sá þeirra, sem hræddastur er við dóm alþýðunnar, Alþýðuflokkurinn, er þegar farinn að ákalla fasismann (auk brezka hersins) sér til hjálpar, heimta bann á Sósíalistaflokknum.

En munið það, Íslendingar, að sameiginlega hafa foringjar þessara flokka drýgt hneykslin, sameiginlega hafa þeir rúið fólkið til að fylla hít milljónamæringanna skattfrjálsu, og sameiginlega eiga þeir að falla á gerðum sínum.

Ráðið til að fella þjóðstjórn milljónamæringanna og bitlingastórlaxanna í Reykjavík er að mynda samfylkingu fólksins sjálfs, skapa þau sterku órjúfanlegu samtök, sem megna að gera Ísland frjálst af oki auðmannanna, erlendra sem innlendra. Og það er leiðin, sem Sósíalistafl. berst fyrir, að farin verði. Og sú barátta verður háð til sigurs, hvaða ráðum, sem stríðsgróðamennirnir kunna að beita, eins þótt þeir í skjóli erlends innrásarhers kunni að varpa oss í fangelsi fyrir næstu kosningar. Það megnar enginn máttur að brjóta þá baráttu okkar á bak aftur, því hún er lífsbarátta þjóðarinnar sjálfrar.