08.04.1941
Efri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

66. mál, eftirlit með sjóðum

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti! Um þetta mál get ég verið stuttorður, því að frv. fylgir allýtarleg greinargerð, og enn fremur hefur hv. flm. skýrt mjög nákvæmlega frá málinu við 1. umr. þess. Það er þess vegna endurtekning að vera að flytja hér langt mál. Allshn. hefur athugað frv., sbr. þskj. 150, og mælir með samþykkt þess.

Í stuttu máli er farið fram á, að þeir sjóðir, sem ekki hafa enn fengið konungsstaðfestingu á skipulagsskrá, fái hana nú þegar.

Athugun hefur farið fram um, hversu margir slíkir sjóðir séu. Sú athugun er þó ekki tæmandi, því hér er um byrjunarstarf að ræða. En víst er um það, að þessir sjóðir eru allmargir, og er hér um stórar upphæðir að ræða. Reynslan hefur sýnt, að l. um þetta 1935 voru ekki sett að ófyrirsynju. Allmargir sjóðir voru gleymdir, og varð að þeim talsverð leit, en samt fundust þeir nú flestir, enda þótt fáeinir séu með öllu glataðir.

Ég hygg, að Alþ. ætti að vera sér meðvitandi um að hafa eftirlit með sjóðum, sem stofnaðir eru árlega, svo þeir séu öruggt geymdir.

Hér er um fé að ræða, sem þjóðin leggur á vöxtu til handa óbornum kynslóðum. Tilgangur sjóðanna er með ýmsu móti, og gætu þeir glatazt landslýð, ef þeir yrðu ekki undir eftirliti. Ég tel því sjálfsagt að gefa út skrá yfir sjóðina, svo landsmönnum séu þeir kunnir. Það er höfuðatriði málsins.

Gera má þó ráð fyrir ýmsum sjóðum, sem ekki mun vera hægt að seilast inn á. T. d. samvinnuhreyfingin, sem hefur sjóði sína undir eigin eftirliti. Enn fremur eiga margir skólar sjóði, sem eru undir umsjá skólastjórnarinnar. Og þannig mætti lengi telja. Ég ætla þó ekki að fara út í neina upptalningu hér. En þeir sjóðir eru margir, sem þarf að gefa gaum, og þess vegna mæli ég með, að inn á þá braut verði gengið, sem sætt er um hér að framan.