30.04.1941
Efri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

96. mál, prentsmiðjur

Frsm. (Árni Jónsson) :

Eins og nál. ber með sér, hefur n. fallizt á frv., en taldi réttara að sameina í eina heild og samræma alla þá viðauka, 5 að tölu, sem bætzt hafa við þessi 1. frá því, að þau voru sett. Eru það 1. frá 1901, 1907, 1909, 1928 og 1939, — hafa þannig 5 viðaukar bætzt við þessi l. auk þess viðauka, sem gert er ráð fyrir í frv. Við tókum því að okkur að samræma þetta og fella í eina heild.

Eftir þessari brtt. og eins og lagagr. er nú, þá ber Landsbókasafninu og hinni konunglegu bókhlöðu í Kaupmannahöfn að fá 2 eintök af öllu því, sem prentað er. Háskólasafnið skal fá eitt eintak og nokkur önnur bókasöfn sömuleiðis eitt eintak af öllum ritlingum og bókum. Koma hér til greina amtsbókasöfn norðlendingafjórðungs, austfirðingafjórðungs og vestfirðingafjórðungs, bókasafn Ísafjarðarkaupstaðar, amtsbókasafn Færeyja og háskólabókasafnið í Winnipeg. Auk þess skal þjóðskjalasafnið fá eitt eintak af öllum blöðum og tímaritum, sem út koma.

Önnur breyt., sem við höfum borið fram, er sú að hækka sektarákvæði frá því, sem nú er, úr 5–500 kr. upp í 25–2000 kr. fyrir vanskil á prentmáli, og er þessi hækkun í samræmi við þá verðgildisbreytingu, sem orðið hefur á síðustu tímum.

Ég hef nú gert grein fyrir þessum brtt. n., og ég vænti þess, að hv. d. samþ. þær.