29.04.1941
Efri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

92. mál, sveitarstjórnarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég kveð mér ekki hljóðs til þess að mæla á móti þessu frv., því að ég er í sjálfu sér með því, en til þess að benda á það, að ég held, að n. þyrfti að taka til athugunar að breyta 1. gr. frv. enn. Eins og hún er orðuð nú, þá virðist það vera skýlaust, að oddvita beri að fá 10 kr. á hvern tug íbúa og 2% í innheimtulaun. En nú er það svo á allmörgum stöðum á landinu, að oddvitinn innheimtir ekki útsvörin, en það er falið sérstökum manni, Á þá oddvitinn að fá þessi 2% líka, en sá, sem innheimtir, ekki neitt? Þetta held ég, að þurfi lagfæringar við, svo það komi skýlaust fram, hvort oddvita ber að fá þessi 2%, hvort sem hann innheimtir útsvörin eða ekki, eða hvort þetta eiga að vera innheimtulaun og ganga til þess manns, sem innheimtir útsvörin.

Ég vildi biðja hv. n. að athuga þetta, þar sem þetta getur orkað tvímælis.