29.04.1941
Efri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

92. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég held, að frv. þurfi engrar breytingar við fyrir þessar sakir. Ef ég man rétt, þá er svo ákveðið í sveitarstjórnarl., að oddvitinn eigi að innheimta útsvörin og hafa yfirleitt það og aðrar framkvæmdir hreppsnefndarinnar með höndum. Að vísu er hreppsnefnd heimilt að fela öðrum hreppsnefndarmönnum tiltekin störf, þar á meðal innheimtu útsvara. En slíkt mun jafnan gert með samkomulagi við oddvita, og verður þá sjálfsagt einnig samkomulag um þóknun fyrir störfin. En oddvita ber, samkv. sveitarstjórnarl., skylda til að inna öll þessi störf af hendi, og því eðlilegast að miða laun hans við það, að hann geri svo. Hitt virðist ekki þörf, að ákveða í lögum þóknun fyrir störf, sem unnin eru samkv. samkomulagi.

Ég hef ekki sveitarstjórnarlögin hér við höndina, og er því kannske ekki rétt að fullyrða, hvað stendur í þeim, en ég hef sjálfur verið lengi hreppsnefndaroddviti og man ekki betur en oddvita beri yfirleitt að annast um, að ákvarðanir hreppsnefndar séu framkvæmdar, og meðal annars að sjá um innheimtu útsvara, og hlýtur það því að vera sérstakur samningur, þegar annar sér um innheimtu þeirra.