02.05.1941
Efri deild: 49. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

92. mál, sveitarstjórnarlög

Páll Zóphóníasson:

Ég reyndi hér við síðustu umr. þessa máls að sýna fram á, að það þyrfti að breyta 1. gr. frv. eins og hún er nú, þar sem ætlazt er til, að oddviti fái 2% af innheimtum útsvörum, og taldi ég, að oddviti ætti ekki að fá þessi 2% nema því aðeins, að hann innheimti þau.

Nú er það svo, að það eru oft aðrir en oddvitarnir, sem innheimta útsvörin. Og ég hef orðið var við, að margir líta svo á, að þessi greiðsla eigi að vera til oddvita, hver sem innheimti útsvörin. Ég hef borið þetta undir tvo lögfræðinga, og segja þeir, að eftir því, hvernig gr. sé orðuð, beri að skilja það svo, að oddviti eigi að fá þessi 2% af innheimtum útsvörum, hvort sem hann innheimti eða ekki. Stundum hefur oddvitanum verið greitt aukalega fyrir innheimtuna, sums staðar allt að 5%. Það hefur líka verið sú venja sums staðar að hækka kaup oddvita með því að reikna húsaleigu til fundahalda á heimili oddvita hærra en sanngjarnt hefur verið. Verði þetta frv, að 1.,. hækka föstu launin úr 5 kr. upp í 10 kr. á hvern fullan tug hreppsbúa og auk þess þessi 2%. En eins og ég hef tekið fram við þessar umr. og mín brtt. er um, finnst mér ekki rétt, að hann fái þessi 2%, nema því aðeins, að hann innheimti útsvörin.