02.05.1941
Efri deild: 49. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

92. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Eins og ég gat um við 2. umr. þessa máls, þá tel ég óþarft að gera þá breyt. á frv., sem hv. 1. þm. N.-M. hefur stungið upp á og flytur brtt. um á þskj. 318. Ég get nú dálítið efazt um lögskýringar hv. þm. um, að þessi 2% eigi eingöngu að vera innheimtulaun. (PZ: Ég sagði, hvort sem hann innheimti eða ekki). En það stendur skýrum orðum í frv., að oddviti eigi að fá 10 kr. fyrir hvern fullan tug hreppsbúa og auk þess minnst 2% af innheimtum útsvörum. Þetta eru þau laun, sem oddvitinn á að fá fyrir þau störf, sem sveitarstjórnarl. ákveða. Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. N.-M. gat hér um við 2. umr. þessa máls, að hreppsn. getur falið öðrum hreppsnefndarmanni störf þessi, svo sem fjallskil, innheimtu o. fl. En þetta eru þau störf, sem oddvita eru ætluð, og skilst mér þá, að semja verði við þá menn, sem kynnu að vinna eitthvað af þessum verkum, um borgunina fyrir þau. Hv. þm. sagði, að sums staðar væru það aðrir, sem innheimtu útsvörin, en oddvitarnir. Ég held, að það sé mjög óvíða. Þar, sem ég þekki til, eru það oddvitarnir, sem innheimta þau.

Þá skal ég að lokum geta þess, að ég hef borið þessa skoðun mína undir meðnm. mína í fjhn., og hafa þeir fallizt á, að hún væri rétt, Og er það skoðun n., að rétt sé að samþ. frv. eins og frá því var gengið við 2. umr. hér í hv. deild.