28.04.1941
Sameinað þing: 9. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

1. mál, fjárlög

Magnús Jónsson:

Það hefur verið siður undanfarin ár, að frh. 1. umr. fjárl. hafi verið notað til þess að koma með almenna gagnrýni á stjórnarfarið og umr. um það almennt, svo kallaður „eldhúsdagur“. En það var alls ekki minn tilgangur með því að kveðja mér hljóðs, að hefja slíkar umr. Mér þykir það mjög leitt, að það atvikaðist svo, að það þurfti að kalla þm. aftur saman til fundar til þess að hefja þessa umr., því að ég hefði náttúrlega getað geymt þessi orð mín til 2. umr. En hins vegar er ekki hægt að neita því, að eftir þingsköpum ber að hafa almennar umr. um málið við 1. umr ., en ekki aðra. Það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs, er nál. fjvn., sem mér þykir að sumu leyti alleinkennilegt plagg, og vildi ég minnast nokkrum orðum á þá fjármálastefnu, sem sýnist koma fram í þessu nál.

Hv. fjvn. lýsir því í byrjun nál., að starfið hafi verið tvíþætt. Ég skal þó geta þess, að 3 nm. skrifa undir nál. með fyrirvara að því er snertir nokkurn hluta þess. Eins og kunnugt er, hefur hv. fjvn. tekið það upp í seinni tíð að hafa tvíþætt starf, þ. e. a. s.: fyrst það mál,sem henni er falið að fást við, en hins vegar annan þátt, sem ýmsum sýnist henni í rauninni ekki koma við, nema að því leyti, að þeir menn, sem eru í n., hafa náttúrlega sinn þingmannsrétt til þess að fást við almenn þingmál og gefa út um það sín álit. T. d. eins og þegar fjvn. ber fram frv. um ýmsa hluti, sem varða ekki sjálft fjárlfrv. frekar en önnur mál, og er skemmst að minnast hins fræga frv., sem n. bar fram í fyrra og fékk nafnið „höggormurinn“, eins og um það mál fór líka í meðferð þingsins.

Nú hefur n. enn tekið upp tvíþætt starf. Fyrr í þátturinn, en um hann ræðir á 1. bls. nál., er eingöngu um meðferð fjárl. yfir standandi árs, m. ö. o. þau gildandi fjárl. Það hefur verið álitið, að yfirleitt væri það starf fjvn. að fara yfir frv. það, sem fyrir liggur, en láta liggja. milli hluta a. m. k. þau gildandi fjárl., sem n. hefur farið yfir næsta þing á undan og gert þá sínar till. um. Náttúrlega mætti hafa þetta þannig, að þingið bæri fram aukafjárl., ef menn vildu bæta við fjárveitingar á því ári, sem nú stendur yfir, og fyndist þörf á því að veita nú meira fé til ýmissa framkvæmda en ákveðið er í gildandi fjárl. Það virðist svo sem n. hafi litið þannig á, að á árinu 1940 mundu verða mjög ríflegar tekjur, og sérstakt útlit fyrir það nú eftir á, að t. d. tekjuskatturinn mundi verða mikill á því ári, og meiri en búizt var við á sínum tíma, vegna þess að nú er í landinu ákaflega mikið fjármagn. Vinnukrafturinn í landinu er nú mjög upp tekinn af ýmsum framkvæmdum, og þá finnst n., að það beri að ráðast í sérstaklega miklar verklegar framkvæmdir. Mér finnst þetta svo einkennileg stefna, að ég vildi strax við 1. umr. andmæla henni vegna þess, að það hefur alltaf verið mín stefna, og að ég hélt þess flokks, sem ég tilheyri, að þessu bæri að haga þveröfugt við það, sem n. leggur til. Það hefur verið borið fram bæði f ræðu og riti, innan þings og utan af Sjálfstfl., að þegar vel lætur í ári og mikið fé yfirleitt starfandi og menn hafa góð atvinnuskilyrði, þá beri ríkinu að draga sig í hlé og gerast ekki keppinautur atvinnuveganna. Það hefur oft verið tekin til dæmis gamla sagan um Jósef í Egyptalandi og talað um að nota góðærin til þess að safna í kornhlöður og geyma til góðu áranna. Það er sérstaklega sú stefna, er kemur fram í nál. fjvn., sem gerir það að verkum, að ég gat ekki annað en andmælt því, a. m. k. frá mínu sjónarmiði. Það segir í nál., að það beri að nota þessar miklu tekjur, sem ríkissjóður hefur hlotið, annars vegar til að létta skuldabyrði ríkisins og á hinn bóginn til þess að koma í framkvæmd ýmsum nauðsynlegum umbótum á sviði verklegra framkvæmda og ráðast í þær nú þegar á þessu ári. Það er svo skýrt frá því, að n. hafi gert till. um að hækka ýmsar fjárveitingar á þessu ári, sem samtals nema 1,6 millj. kr., og gefið til kynna, að fjvn. ætli sér að bera fram till. um þetta við 2. eða 3. umr. fjárl. Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo, að n. ætli sér að gera till. um, að ráðizt verði í miklar framkvæmdir. Nú er hins vegar í nál. talað um það, að það kunni að verða skortur á vinnuafli. Þess vegna er mér ómögulegt að skilja þetta plagg öðruvísi en þannig, að ríkissjóður eigi í lengstu lög að keppa um vinnukraftinn.

Ég vil einnig segja það um till. n. um fjárlfrv. sjálft, að þar kemur einnig fram sama bjartsýnin. Þar er fyrirhugað, eftir því, sem sagt er í nál., að aukatill. n. nemi 1 millj. 669 þús. 244 kr. Það er auðséð, þó að halda eigi aths. um það, að ríkisstj. sé heimilt að lækka útgjöld fjári., að það eitt út af fyrir sig, að afgr. fjárl. svona há, mundi skapa ríkisstj. stórkostlega erfiðleika um að draga þar úr, ef árferði yrði svipað að því leyti, að erfitt yrði um vinnukraft. Það er hætt við því, að erfitt yrði fyrir ríkisstj. að standa á móti einstökum héruðum, sem fá loforð um verklegar framkvæmdir. Það hefur alltaf verið mín skoðun í fjármálum, og því hefur ekki verið andmælt af mínum fl., að góðærin ætti yfirleitt að. nota til þess að byggja upp, þegar illa árar. Það er alls ekki svo, að það geti ekki verið nauðsynlegt að hefja framkvæmdir, en það verður að líta á það, að atvinnuástandið ræður nú meiru um það, að draga verður úr framkvæmdum. Hins vegar verður að ráðast í þær framkvæmdir, sem miða að því að viðhalda verðmætum slíkt má auðvitað aldrei vanrækja.

Þá kemur sú spurning, hvað eigi að gera þau árin, þegar einhverjar ástæður veita miklu fé inn í ríkissjóð. Það er bent á eina aðferð í nál., sem er sú, að borga skuldir, og það mál er tvíþætt mál. Annars vegar að borga erlendar skuldir og gera ráðstafanir til þess að ná upp innlendum lánum í þeim tilgangi að greiða þær. Hins vegar er svo það, að greiða innlent lán aftur. Það er ekki víst, að þetta sé eins auðvelt eins og það virðist vera. Það hefur verið talað um að gefa út ríkisskuldabréf og greiða skuldir á þann hátt. En það, að farið yrði að losa féð á þennan hátt, er mjög hættulegt á þessum tímum; a. m. k. verður að fara mjög gætilega í þeim efnum. Þá er sú aðferð að safna í sjóði. Að vísu er það gott og blessað, en þó er það svo, að ef um mikið fé er að ræða, kannske margar millj., hefur það stórkostleg áhrif á verðgildi peninganna í landinu. Það verður að geyma þessa sjóði ákaflega vel, og það er ekki hægt að geyma þá öðruvísi en að loka þá inni. Það, að lána svona mikið fé út, yrði auðvitað til þess að auka stórkostlega þau vandræði, sem nú eru í landinu út af of miklu fé. Við hér á Íslandi erum óvanir að fást við slíkt, því að það hefur alltaf verið til of lítið fé. Það hefur alltaf orðið að leita uppi féð og sækja það til annarra landa. Ýmis ríki hafa orðið að berjast við hið gagnstæða, sem sé of mikið fé, og hefur það komið fram t. d. í Svíþjóð. Þar skapaðist kreppa fyrir það, hvað mikið fé var til. Við eigum nú við þetta að stríða, og getur vel verið, að við misstígum okkur, ef við förum ekki mjög varlega. Það er sennilega ekki um annað að ræða eins og nú er en að geyma féð inni án þess að það gefi nokkuð af sér, og lána það alls ekki út. Mönnum finnst kannske einkennilegt, að þetta gerist á sama tíma og vandræði eru með að byggja. En það er augljóst, að ef farið yrði nú að auka verklegar framkvæmdir, gæti það haft mjög hættulegar afleiðingar. Þó að hvert einstakt hérað taki fegins hendi við því, að farið yrði eitthvað að gera, þá er þess að gæta, að allt efni er nú bæði óhæfilega dýrt og lítt fáanlegt til landsins, og eins hitt, að vinnukraftur er lítt fáanlegur. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að nú er sú ástæða, sem oftast var borin fram, að óhætt væri að ráðast í framkvæmdir, sem ekki þyrfti nema íslenzkt efni til, burtu fallin. Það var lengi fullgild ástæða, að það bæri að ráðast t. d. í vegagerðir, þar sem ekki væri um miklar brýr að ræða, af því að þar væri nær eingöngu um íslenzkt efni að ræða. Nú er þessi ástæða alveg burtu fallin. Nú er svo um skipt fyrir okkur, að við verðum að kaupa efni frá Bretlandi, og eins og ástatt er um siglingar þangað, er ekki sjáanlegt, að auðið verði að ráðast í miklar framkvæmdir að sinni. Auk þess er v innukraftur svo dýr, og þar að auki nær ófáanlegur, að alls ekki er hugsanlegt, að um framkvæmdir geti verið að ræða. Vinnukrafturinn er nú orðinn það, sem erlend innkaup voru áður. Það þarf að fara mjög varlega í að stofna til sérstakrar samkeppni við setuliðið um vinnukraftinn. Ég skal ekki fara út í þá hættu, út af fyrir sig, sem stafar af hinum brezku framkvæmdum, en það er öllum hv. þm. ljóst, að sú hætta er alveg gífurleg. Það eru hundruð manna eða jafnvel þúsund, sem vinna hér að verkefnum, sem engar líkur eru til, að við höfum nokkurt gagn af. Og í rauninni eru það Íslendingar sjálfir, sem kosta þetta allt. Það er tekinn vinnukrafturinn frá framleiðslunni og nauðsynlegum störfum þjóðfélagsins og settur í framkvæmdir, sem þjóðin hefur ekki gagn af fyrir sína afkomu. Þetta er síðan allt borgað með gjaldeyri, sem við látum af hendi í íslenzkum peningum. Hins vegar vitum við ekki, hvað mikils virði hin ensku pund kunna að verða á sínum tíma. Þannig má segja, að Íslendingar framkvæmi þetta allt upp á sinn kostnað. Þegar svona stendur á, ætti það að vera augljóst., að það getur verið mjög varhugavert að ráðast í stórfelldar framkvæmdir.

Hættan, sem yfir okkur vofir, er fyrst og fremst af verðhruni peninganna, því að hin vaxandi dýrtíð er ekkert annað en verðhrun peninganna. Þetta er mönnum vél ljóst, enda hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir af hálfu þess opinbera, og sumar hverjar mjög harkalegar, til þess að hamla á móti verðhruninu. Það hafa verið boðin út stór innlend lán. Þetta er vitaskuld gert til þess að festa féð og á þann hátt reynt að ná milljónum króna úr umferð. Það hefur verið gripið til þeirra mjög harkalegu ráðstafana að binda sterlingspundainnieignir manna í Englandi. Lögleg eign manna er þannig fest í gjaldeyri, sem mörgum þykir vonarpeningur. Þetta er gert til þess að flytja ekki meira af peningum inn í landið, sem mundu spyrja eftir verðmætum þar.

Þá er ein ráðstöfunin enn, það er að taka mikinn hluta af gróða útgerðar félaganna og binda hann í hinum svonefnda nýbyggingarsjóði. Þetta er sumpart gert til þess að geyma féð, þar til betur áraði með að fá ný skip, en það er líka gert til þess að binda peningana.

Það þyrfti líka, þótt harkalegt þætti, að gera einhverjar ráðstafanir viðvíkjandi Bretavinnunni. Það er ómögulegt fyrir ríkisvaldið að horfa upp á það, að verið sé að framkvæma aðgerðir á okkar kostnað, sem við kærum okkur ekki um. Lægi ekki nærri að segja við verkamennina: Þið verðið að binda nokkurn hluta af hinum óvenjulegu vinnulaunum, t. d. með því að leggja til hliðar og geyma þar til vinna þverrar, svo þið hafið eitthvað fyrir ykkur að leggja.

Þegar á allt þetta er lítið, er ómögulegt að verja það, að ríkið fari svo að hækka gjöld til verklegra framkvæmda og gerast keppinautur í þeim tryllta dansi, sem nú á sér stað og hlýtur að enda í verðhruni og þeirri mestu kreppu, sem sögur fara af.

Ég sé, að þrír nefndarmenn hafa skrifað undir nál. með fyrirvara einmitt um þetta atriði, að auka framkvæmdir á yfirstandandi ári, og gera till. um meiri framkvæmdir á næsta ári. Mér þykir vænt um það, því það hefur þá einnig komið fram í n., hvílík hætta hér er á ferðum.

Þetta mál er mjög víðtækt og mætti ræða það lengi, en ég læt það nægja, sem ég hef hér sagt. Ég vildi aðeins benda á þetta til viðvörunar, þar sem till. n. hafa nú verið afhentar ríkisstj. til athugunar, en svör hennar hafa ekki borizt enn.