28.04.1941
Sameinað þing: 9. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

1. mál, fjárlög

Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Það er ekki nema eðlilegt, að þingmenn vilji ræða um fjárl. og fjárlfrv., sem fyrir liggur, svo sem oft. hefur verið venja, eða að halda hinn svonefnda eldhúsdag, en þær umræður hafa þá mest snúizt um fjármálastjórn undanfarins árs og þá einnig að sjálfsögðu um fjárlfrv. Hins vegar hefur það ekki verið venja, að þingmenn gerðu brtt. fjvn. og nál. að umtalsefni við þessa umr. Eins og hv. þm. vita, hefur fjvn. ekki fengið tækifæri til þess enn þá að mæla með till. sínum og gera grein fyrir áliti nefndarinnar. Ég hef verið valinn frsm. fjvn ., og mun ég skýra till. n., þegar sá tími kemur, sem til þess er ætlaður. Má vera, að ef hv. 1. þm. Reykv. hefði beðið þangað til ég hafði skýrt till. n., að hann hefði þá betur skilið, hvað fyrir n. vakir. Ég mun því ekki svara hv. þm. fyrr en í framsöguræðu minni og vænti, að hann muni þá fá svör bæði beint og óbeint að því er snertir störf n., sem geri honum ljóst, hvað fyrir n. vakir með till. sínum.