28.04.1941
Sameinað þing: 9. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

1. mál, fjárlög

Pétur Ottesen:

Hv. 1. þm. Reykv. hefur horfið að því ráði að hverfa ekki alveg frá eldhússtörfunum, enda þótt hann hafi ekkert við framferði stj. að athuga, og gerir hann eldhúsdag að störfum fjvn.

Eins og hv. 2. þm. Árn. og frsm. fjvn. tók fram, hefði verið eðlilegra að láta þetta bíða þar til við 2. umr. fjárlfrv. eða þar til till. nefndarinnar lágu fyrir til umr. En það er ekki svo að skilja, að fjvn. sé ekki við því búin nú eins og síðar að ræða við hv. þm. um stefnu þá, sem felst í áliti n., og þær till., sem settar hafa verið fram í því sambandi. Ég mun því ræða við hv. 1. þm. Reykv. nú að því er veit að sjálfu fjárlfrv., en hv. þm. sveiflaði sér nokkuð víða og lét hugann renna um fjármálaviðhorfið í heild, m. a. um einn þátt skattamálanna og Bretavinnuna, sem vitanlegt er, að atvinnuvegum vorum stafar mikil hætta af. Slíkar almennar umræður mun ég leiða hjá mér. En áður en ég sný mér að aths. hv. þm., get ég ekki látið hjá líða að geta þess, að mér finnst hann hafa gengið fram fyrir skjöldu fyrir hæstv. fjmrh., því að þegar rætt er um till. fjvn., er það fjmrh., sem fyrst tekur til máls út af þeirri meðferð, sem fjárlfrv. hefur fengið hjá n. Ég hef auðvitað ekkert við því að segja, þótt hv. þm. gangi fram fyrir skjöldu fyrir hæstv. fjmrh.; hann hefur til þess sinn fulla þingmannsrétt, en ég vildi aðeins benda á þetta.

Hv. 1. þm. Reykv. hóf mál sitt á því að átelja fjvn. fyrir það, að hún hefði í raun og veru gengið út fyrir sitt verksvið, þegar hún fer að athuga fjárlögin fyrir yfirstandandi ár. Ég veit satt að segja ekki til, að verksvíð fjvn. sé svo einskorðað, að þetta sé átöluvert. Það er vitað, að fjárlfrv. er ekki eina málið, sem Alþ. ætlast til, að fjvn. fjalli um. Það er algengt, að ýmsum till., sem snerta fjármál landsins yfirleitt, sé vísað til nefndarinnar. Það er því ekki með rétti hægt að átelja n., þótt hún eins og á stóð gerði till. í þá átt, sem hún hefur gert. Það var heldur engan veginn ætlun n. að fara fram hjá Alþ., því það er skýrt tekið fram í nál., að vitanlega taki Alþ. endanlega ákvörðun hvað þær snertir, ef ríkisstjórnin treystir sér til, þess að mæla með því, að inn á þessa braut verði farið. Hv. þm. og aðrir, sem kunna að hafa eitthvað að athuga við hækkunartill. til verklegra framkvæmda í ár, fá þá væntanlega tækifæri til þess að láta ljós sitt skína, þegar till. koma til meðferðar.

Mér þykir einkennilegt, hvernig hv. þm. (MJ ) hefur lesið nál. Það bendir allt til þess, að hv. þm. hafi lesið það eins og viss persóna les ákveðna bók, sem ætti að vera hv. þm. vel kunn. Hann túlkar nál. alveg ranglega og fær með því grundvöll fyrir átölur sínar í garð n., að hún ætli að fara að stofna til samkeppni við atvinnuvegi landsmanna með því að láta vinna fyrir þetta fé á yfirstandandi ári. Það kemur einmitt alveg skýrt fram í nál., þótt hv. þm. hafi hagrætt þessu þannig, til að koma að ádeilu sinni, að n. gengur út frá, að það sé ekki hægt að vinna fyrir þetta fé á þessu ári, og leggur n. því til við ríkisstj., að þetta fé sé geymt, þar til betur byrjar. Hvernig á nú bæði að leggja féð til hliðar og vinna fyrir það samtímis? Ég undra mig stórlega á því, að hv. þm. skuli geta lesið það út úr grg. n., að hún fyrirskipi að vinna fyrir þetta fé nú og stofna þannig til óheilbrigðrar samkeppni við atvinnuvegi landsmanna.

Annars er ekki þörf á að útskýra þetta nánar, því að niðurlagið á þeim málslið, sem um þetta fjallar, sýnir ljóslega, hvað fyrir n. vakir með till. þ. e. að fé sé lagt til hliðar, þar til atvinnuástandið er á þann veg, að hvort tveggja fari saman, að njóta gagnsins af þeim framkvæmdum, sem fyrir það fást, og uppfylla um leið atvinnuþörf landsmanna. Hv. þm. vitnar í það, að 3 nm. skrifi undir nál. með fyrirvara hvað þetta atriði snertir. Þetta er ekki alveg rétt. Þessir 3 nm. voru ekki samþykkir því, að n. byggi til sundurliðaðar till. og einskorðaði þær við ákveðin verk, heldur vildu þeir láta leggja féð til hliðar og ákveða síðar, á sínum tíma, til hvaða verka það skyldi renna.

Ég ætla, að ég hafi nú leiðrétt þann misskilning, sem hv. þm. byggði átölur sínar í garð n. á, en hann taldi og, að stefna n. væri í andstöðu við stefnu hans flokks.

Nú erum við báðir, hv. þm. og ég, í sama flokki, Sjálfstfl., og ætti mér því að vera jafnkunnugt um stefnu flokksins og honum. — En ég veit ekki betur en að þetta sé einmitt stefna Sjálfstfl., að nota óvæntar tekjur til þess að létta skuldabyrði ríkissjóðs og efla verklegar framkvæmdir. Þetta er ekki aðeins stefna Sjálfstfl. í orði, heldur og á borði. Vænti ég, að hv. þm. mæli því ekki í gegn.

Þá er hitt atriðið, hvernig á því stóð, að n. fór að taka til athugunar fjárlög þessa árs. N. leit öll svo á, að þegar svo miklar óvæntar tekjur bærust ríkissjóði, væri ekki nema eðlilegt, að reynt væri að tryggja það, að þær rynnu ekki úr greipum ríkisvaldsins án þess að marka spor í framkvæmdum á verklega sviðinu. Ég fyrir mitt leyti vil standa á því, að það sé réttmætt, þegar svona stendur á, að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja, að eitthvað af þessum miklu tekjum verði geymt og notað til þess að hrinda nauðsynjamálum í framkvæmd.

Það kann að vera, að skoðanamunur hjá mér og hv. 1. m. Reykv. um þétta atriði byggist á því, að hann hafi erfiðari aðstöðu til þess að fylgjast með nauðsyn þessara verklegu framkvæmda, t. d. vega, hafnarbóta, landþurrkunar o. s. frv., en við, sem lifum á landsbyggðinni og verðum að berjast áfram yfir veglausar torfærur. Við nefndarmenn allflestir þekkjum meira til þessa en hann, og er því ekkert eðlilegra en að álykta, að því leyti, sem um skoðanamun. milli hans og okkar er að ræða, þá byggist hann á aðstöðumun, þar sem hann hefur ekki jafn náin kynni af þessum erfiðleikum og við.

Mér þótti heldur vandast málið hjá hv. þm., þegar hann komst að þeirri niðurstöðu, að þær miklu tekjur, sem við getum búizt við, að verði á þessu ári, þótt ekki sé víst hvernig verður á því næsta, mætti ekki nota til verklegra framkvæmda, ekki til þess að greiða skuldir og ekki leggja þær í sjóð. Hann taldi svo mikla annmarka á þessum þrem leiðum, að leitt gæti beinlínis til ófarnaðar fyrir íslenzku þjóðina. — Það er auðvitað mál, að það verður að viðhafa alla fyrirhyggju um það, hvaða leið verður farin í þessu efni, en ég vænti þó, að Alþ. verði ekki í neinum vandræðum með að ráðstafa því fé, sem aflögu verður, á þann veg, að það verði til velfarnaðar í framtíðinni og styrktar, þegar erfiðleika ber að höndum. Ummæli hv. þm. um allar þessar leiðir gáfu mér tilefni til þess að benda á þetta, af því að mér virtist, að hann hefði ekki yfirstigið þá erfiðleika, sem voru því fylgjandi, hvor leiðin sem farin væri.

Viðvíkjandi fjárlfrv., sem fyrir liggur, og ummælum hv. þm. um það, sem, hann átaldi, er það að segja, að honum þótti við í n. vera allt of stórtækir og ekki gæta nægilegrar varfærni í till. okkar. Ég skal aðeins geta þess í sambandi við það, sem snertir till. n. um afgreiðslu fjárlfrv. fyrir árið 1942, að þó að hv. þm. færi ekki inn á það atriði nál., þá býst ég við, að hann sé líkt á vegi staddur og n. um það, að erfitt sé að ákveða um það, hvernig árferði muni verða hér á landi á næstu árum, eða 1942. Það kemur mjög greinilega fram í nál., að þar sé úr vöndu að ráða. Eiginlega ber nál. það með sér, að n. gafst alveg upp við það að fara að geta í þær eyður, sem kynnu að verða eða mættu okkur á árinu 1942. N. tók því þann kostinn, sem ríkisstj. hefur tekið, sem náttúrlega hlaut að líta mjög svipað á þetta mál og n., að miða fjárlfrv. fyrir 1942 við sæmilega gott verzlunar- og atvinnulífsárferði.

Nú var það svo, að í frv. voru allmiklar eyður, sem gerðar voru vitandi vits, en ekki þannig, að ekki væri ætlazt til, að fyllt væri upp í þessar eyður í frv., heldur var það látið bíða þangað til þing kæmi saman til að gera till. um það. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að í 13. gr. hafa ekki verið tekin upp nein framlög til hafna eða lendingarbóta, heldur eru þar eingöngu framlög, sem ríkið hefur átt vangreidd til þeirra staða, sem búnir eru að koma þessum framkvæmdum í verk. Það var fullt samkomulag um það í n., og líka var á það minnzt við ríkisstj. að taka upp nokkuð svipaða fjárhæð í þessu skyni eins og gert hefur verið á undanförnum árum, að undanteknu því, að þar er tekin upp ein stór upphæð, 250 þús. kr., sem er til hafnarbyggingar við sunnanverðan Faxaflóa, og þessi upphæð er flutt af n. fyrir ósk hæstv. atvmrh. N. fannst sjálfsagt að verða við þessari till., með tilliti til þess, hvað okkur er brýn nauðsyn á að bæta hafnarskilyrðin við sunnanverðan Faxaflóa. Við vitum, hvaða slys henti þar síðastl. vetur, og við vitum líka, hvað þessi slys kosta mikið. Það situr þarna á bak við hv. 1. þm. Reykv. maður, sem er forstöðumaður þeirrar stofnunar, sem endurtryggir fiskibáta. Hann gæti kannske borið um það, hvaða tjón hafi hlotizt á síðastl. vetri af hafnleysinu við sunnanverðan Faxaflóa. Í sambandi við þetta hefur n. enn fremur gert till. fyrir árið 1942 um nokkra hækkun á vegafénu, sem er nokkuð í samræmi við þær hækkanir, sem n. hefur lagt til, að gerðar verði á yfirstandandi ári. Enn fremur hefur hún gert ýmsar aðrar till., sem snerta verklegar framkvæmdir í landinu. Þó að bætt hafi verið ýmsu við, höfum við fyllt út í eyðurnar í fjárlfrv., sem að sjálfsögðu var ætlazt til, að yrði gert: Auk þess höfum við lagt til að hækka nokkuð fjárframlög til nauðsynlegustu framkvæmda. Þó hygg ég, að ekki sé hægt að segja annað en það, að þarna hafi verið fylgt sömu stefnu og kemur fram í fjárlfrv. hjá ríkisstj., og að því leyti, sem ræða hv. 1. þm. Reykv. var ádeila á n. fyrir hennar stefnu í þessu atriði, má segja, að hún sé líka ádeila á hæstv. ríkisstj., sem lagði grundvöllinn að þessu fjárlfrv. Ég segi þetta ekki af því, að hann hafi ekki jafnan rétt til þess að deila á ríkisstj. eins og n. fyrir hennar fjármálastefnu. Það hefur hann vitanlega rétt til að gera.

Hv. þm. leit svo á, að sú heimild, sem gefin væri í fjárlfrv. til þess að færa niður um allt að 35% þau útgjöld ríkissjóðs, sem ekki eru bundin í öðrum lögum en fjárlögum, mundi engan veginn vera fullnægjandi, ef illa færi í þessu efni, og þar af leiðandi hefði fjvn. litla afsökun að því leyti sem hún vitnaði til þessarar heimildar. Hv. þm. hljóp alveg yfir niðurlagið á þessari málsgr., eftir að n. hafði vitnað í þessa 35% heimild til niðurskurðar, en það hljóðar svo: „Ef í nauðirnar rekur, verður að sjálfsögðu að taka enn dýpra í árinni um niðurfærslu útgjalda.“ Og þetta byggist á því, að fjárlfrv. er miðað við sæmilegt verzlunar- og atvinnuárferði, — það er ekkert gert til þess að leyna því, að svo sé. Fyrst og fremst sýnir fjárlfrv. það sjálft, eins og það liggur fyrir ásamt brtt. n., að ekkert er gert til þess að leyna því, heldur er gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut, að það geti brugðizt svo verulega um árferði og tekjumöguleika ríkissjóðs, að þessu takmarki verði hvergi náð. Og meira að segja gæti þetta brugðizt svo, að þessi niðurskurður hrökkvi ekki heldur til þess, að tekjur og útgjöld stæðust á. Þá tekur n. það fram sem sína skoðun, að ef nauðsyn beri til, þá verði að sjálfsögðu að taka enn dýpra í árinni um þennan niðurskurð. Ég vil bæta því við, að það getur vel verið, að það fari svo, að það verði að taka svo djúpt í árinni, að það verði líka að ganga út yfir fjárhæðir, sem á fjárlögum standa. Við megum á þessum tímum sannarlega vera við öllu búnir í þessu efni. Ég ætla, að fjvn. hafi ekki getað gert hreinna fyrir sínum dyrum en með því að benda á, að gera þurfi allróttækar ráðstafanir í sambandi við það, að fyrir gæti komið, að erfitt yrði um tekjuöflun til ríkissjóðs. Ég held, að ekki sé heldur hægt að deila á fjvn. fyrir neina óvarfærni í þessum till., þar sem ekki er sleginn sá varnagli, að fyrir n. vaki fyrst og fremst, að fyllstu varfærni sé gætt. Enn fremur má benda á það, að ekki eru allar þessar upphæðir í fjárlfrv. miðaðar við það að efla verklegar framkvæmdir, ef kringumstæður eru fyrir hendi, því að n. hefur orðið að taka upp samkv. till. hæstv. fjmrh. 600 þús. kr. hækkun, sem er verðlagsuppbót á launagreiðslur til starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana. Hv. þm. fór ekki út í það að deila á einstakar till. n., heldur málið í heild. Þess vegna flutti hann heldur ekki ádeilu á n. fyrir að hafa tekið inn í frv. svona háa tölu. Og ef það dýrtíðarástand, sem við nú lifum við í þessu landi, helzt, þá skildist mér á hæstv. fjmrh., að það mundi geta brugðizt til beggja vona um það, að þessi upphæð nægði, heldur gæti þrátt fyrir þessa hækkun farið svo, að bæta yrði nokkru við þessa 1 millj. og 800 þús. kr. Alþingi hefur nýlega afgr. lög, sem fólu í sér þessa miklu hækkun á verðlagsuppbótinni, og varð ég ekki var við, að hv. 1. þm. Reykv. væri með nein varnaðarorð um það, að það væri kannske vafasamt að binda ríkissjóði svo þungan bagga sem gert væri með þessu.

Mér þykir svo ekki ástæða til að fara lengra út í þetta mál. Úr því að þessi venja var tekin upp að þessu sinni, að fara að ræða fjárlfrv. áður en það í raun og veru lá fyrir til umr., og hv. frsm. n. vildi með eðlilegum hætti halda sér við þá venju, sem fylgt hefur verið alla tíð. að tala ekki um till. n. fyrr en til þess kæmi að það lægi eðlilega fyrir, þá vildi ég þó út af ræðu hv. þm. leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá honum og hann byggði átölur sínar til n. á. Hann hélt því fram, að n. ætlaðist til, að það fé, sem hún vildi tryggja í verklegar framkvæmdir fram yfir það, sem í fjárlfrv. er áætlað, ætti að koma fram sem samkeppnisvinna. Ég vildi leiðrétta þennan misskilning og jafnframt sýna fram á, að það væri ekki með réttu hægt að bera n. það á brýn, að full varfærni fælist ekki í þessum till., og að því leyti sem það nægir ekki, sem ég hef borið hér fram fyrir þessu, þá snertir þetta bæði fjvn. og líka hæstv. ríkisstj. að nokkru leyti.

Hv. þm. fór nokkuð út fyrir þetta, eins og ég minntist á í upphafi máls míns. Hann fór að ræða um nýbyggingarsjóð þann, sem gert er ráð fyrir í skattalögunum, sem nú liggja fyrir Alþingi, og þær skattaívilnanir, sem útgerðarmenn eigi að njóta í sambandi við hann. Ég get alveg tekið undir það, sem hv. þm. sagði um þetta atriði, því mér er það fullkomlega ljóst, að eins og það er nauðsynlegt að mínum dómi að reyna að tryggja það, að þær miklu tekjur fari ekki allar út í veður og vind, þá held ég, að rétt sé að ganga svo frá því, að nauðsynlegar framkvæmdir í landinu geti notið meira gagns af því en gert er ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs. Ég er líka sammála hv. þm. um það, að það er hin mesta nauðsyn fyrir framtíð okkar lands, að útgerðin fái að vissu marki að njóta ríflegs hluta þeirra tekna, sem henni hafa hlotnazt, til þess að endurnýja skipaflotann og til þess að tryggja það, að við getum átt á að skipa skipum af þeirri gerð, sem henta því viðhorfi, sem við komum til með að horfast í augu við, þegar þessum hildarleik linnir. Þetta er mikil nauðsyn, og það er mikið undir því komið, að Alþingi tryggi þetta eins og bezt má verða.

Hitt er annað, sem ég er líka sammála hv. þm. um, að atvinnuvegum okkar stafar hin mesta hætta af hinni geigvænlegu Bretavinnu í landinu, sem er byggð upp á því að framkvæma hér ýmsa hluti, sem ekki marka nokkurt spor í framtíð þessa lands né leggja grundvöll að framþróun, heldur verður allt til ónýtis fyrir okkur, þegar hernaðarástandinu léttir. Af þessu stafar okkur geysilegur voði, því þó það sé illt og ekki rétt að fara í samkeppni með atvinnuvegina, þá er þó sá stóri munur á okkar vinnu og Bretanna, að okkar verk eru mikils virði og undirstaða þessa þjóðfélags í framtíðinni. Á þessu tvennu er því allmikill eðlismunur. Og ég vil taka undir það, að það er óeðlilegt að stofna til slíkrar vinnu eða vinnubragða í landinu með þeim hætti, að það gangi út yfir það, að okkar eiginn atvinnurekstur hafi ekki á að skipa nægilegum vinnukrafti. En það er nú vitað, að ríkisstj. og Alþingi og sömuleiðis landbn. eru nú að vinna að þessu máli og reyna að leggja grundvöll að því, að á þessu verði nokkur bót ráðin, hvernig sem það tekst, en það er vitað, að í þessu efni er við ramman reip að draga. Það er sá munur á þessu og öðrum árekstrum við setuliðið, að þar hefur þjóðfélagið staðið saman sem einn maður með ríkisstj. að fá ráðnar bætur á, en þarna klofnar þjóðfélagið í tvennt, annars vegar í þá menn, sem líta á hinar háu upphæðir, sem Bretarnir borga, og hins vegar í atvinnurekendur, sem sjá fram á þann voða, sem af því leiðir fyrir þjóðfélagið, ef við verðum að fella mikinn hluta af búpeningi landsmanna á næsta hausti, sem óhjákvæmilegt er, ef ekki fæst breyting á þessu. Það er augljóst mál, hverjar afleiðingarnar af þessu verða einmitt á þeim tímum, sem siglingar okkar til þeirra landa, sem við sækjum nauðsynjar okkar til, eru að lokast. Það er þess vegna aldrei ofgert, og má segja, að það sé ekki nema rétt og eðlilegt, að þetta og önnur tækifæri á Alþingi séu notuð til þess að rifja upp þann þjóðfélagsvoða, sem við horfumst þarna í augu við.

Ég skal nú ekki fara lengra út í þetta, því ég þykist hafa gert hér þá grein fyrir stefnu n. og það hreint fyrir hennar dyrum að því er stefnu hennar snertir í þessu máli, að hún þurfi ekki að bera neinn kinnroða fyrir. Það er svo vitanlega undir ákvörðun Alþingis komið, hvernig þessari stefnu n., sem ég vil kalla varfærnisstefnu, verður mætt. Það sýnir sig náttúrlega við 2. umr. þessa máls, og um það er vitanlega ótímabært að tala að svo stöddu.

Ég vænti, að ég hafi leiðrétt svo þann misskilning, sem komið hefur fram hjá hv. þm. um stefnu n. og hann las út úr fyrri hluta álitsins, að hann þurfi ekki hér eftir að flaska á því skeri, og miklar umr. um það atriði þessa máls þurfi ekki að verða eftirleiðis.