29.04.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

1. mál, fjárlög

Magnús Jónsson:

Það var aðeins út af því, sem hv. 5. landsk. þm. sagði nú síðast um störf fjvn. og það frv., sem kom fram og kallað var höggormur. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það var borið fram af einstökum þm., sem í n. voru. En það var meðfram sjálfsagt af því að fjvn. er valin og starfar í Sþ., og það liggur því fyrir utan hennar möguleika að bera fram almenn frv., svo að þau frv., sem klakið er út hjá þeirri n., verða að vera borin fram af einstökum þm. Ég skil það ekki, að hv. fjvn. skuli vera að bera það af sér, að till. þær, sem komu fram, hefðu verið samdar í fjvn. og n. hefði varið miklum tíma til þess að undirbúa frv. og koma því af stað. En mér þykir vænt um að heyra það, að hv. 5. landsk. þykir þetta fyrir utan starfssvið fjvn., því að hann bar það af henni, að hún starfaði að þessu.

Fjvn. þykist kannske vera nokkurs konar yfirþing, af því að hún er svo fjölmenn. Og hún lætur sér svo koma við hluti, sem henni koma í raun og veru ekkert við.

Ég þarf annars ekki miklu að svara hv. frsm. n. Hann sagði, að það væri ekki vanalegt að ræða nál. mikið við framhald 1. umr., og skal ég því láta hann í friði. Hv. frsm. er víst að semja ræðuna, sem hann ætlar að flytja við 2. umr. En hv. form. n. var aftur öllu greiðar í í svörum, og þakka ég honum fyrir það. Hann flutti langa ræðu um margt, sem ég kom ekki inn á í minni ræðu, því að ég ætlaði alls ekki að gefa tilefni til langra umr. Hann sá ofsjónum yfir því, að ég væri að fara í eldhúsdag. Ég minntist á það, sem hv. fjvn. setti fram í nál., og vildi, að það kæmist að nú þegar, sakir þess, sem í nál. stendur, að till. þessar væru sendar til ráðh. og að n. væri með þetta á döfinni. Og ég vildi koma mínum aths. að. Ég held, að það hafi komið fram bæði hjá hv. frsm. n. og form. hennar, að þetta væri brot á þingsköpum. Og mér skildist á form. n., að hvorki lægi fyrir til umr. frv. eða nál. En það stendur á dagskránni, að þetta mál sé til umr., og vitnað í þessi 2 þskj. Mér þykir ákaflega undarlegt, ef tekið er á dagskrá það, sem ekki má tala um. En till. eru að vísu ekki til umr., og ég minntist ekki á eina einustu af þeim. En þau þingskjöl, sem hæstv. forseti lætur prenta á dagskránni, tel ég mér heimilt að taka til umr. Hv. form. n. sagði, að ég hefði, út frá nál., sveiflað mér miklu víðara og rætt fjárhag ríkisins og um fjármálaástandið yfirleitt í landinu. Og ég skal ábyrgjast, að hv. þm. Borgf. hefur a. m. k. skilið það oft áður í meðferð fjárl., að meðferð fjárl. hefur veruleg áhrif á fjármálin í landinu. Og ábyrgð hvílir á fjármálastj., eins og hann hefur oft tekið fram, og það var beinlínis það, sem ég ætlaði mér að tala um. Og ég fór ekki út í einstakar till. En ég gat ekki lesið nál. öðruvísi en svo, að hér væri ýtt undir ríkisstj. um það að verja fé á þessu ári til verklegra framkvæmda. Og þó að mín ræða væri að nokkru leyti um það, hvaða áhrif þetta gæti haft á verðhrun peninga o. fl., þá hefur þó hv. þm. Borgf. sveiflað sér miklu hærra á eftir mér í sinni ræðu, því að hann flutti miklu röggsamlegri ræðu um þetta. Og ég þakka honum fyrir þá ræðu; hún sýndi það, að við erum báðir. góðir sjálfstæðismenn, því að þar kvað við annan tón en í nál.

Hv. þm. minntist á eina brtt. og á þann veg, að mér virtist hann vera að sneiða svolítið að mér þar; ég veit ekki, hvort það var persónulega. Hann furðaði sig á 600 þús. kr. tillaginu, sem ætti að fara til embættismanna ríkisins. Það er ekki í fyrsta skipti, sem talað er um þessa hluti. En ég vil þó spyrja hv. þm. og Alþ. að því, hvort það séu ekki flestar stéttir í landinu, sem fá verðlagsuppbót. Og ég veit ekki, hvers vegna starfsmenn ríkisins ættu að verða þar sérstaklega út undan, þar sem svo að segja allir landsmenn aðrir hafa fengið slíka uppbót. Ég veit ekki betur en að allar stéttir manna til lands og sjávar hafi tryggt sér þessa verðlagsuppbót. Og verðlagsuppbót til embættismanna ríkisins er alls ekki hærri en almennt gerist. En það merkilegasta var, að ég minntist ekki á neina till., og þá var ekki von, að ég minntist á þessa heldur. En það var ágætt, að hv. þm. minntist á hana, því að hún kemur mínu máli, mikið við. Hún sýnir; hvað er í húfi, ef peningarnir velta úr gildi sínu. Ég hef hreyft því, ekki á Alþingi, en þó minnzt á það í sambandi við skattamál og minnzt á það á flokksfundi, hvað ákaflega mikils virði væri einmitt fyrir Alþingi nú, eftir að búið væri að ákveða verðlagsvísitöluna í landinu, að gæta að því, að dýrtíðin verði ekki meiri en hún þarf að verða. Þessi tillaga kemur því þessu máli mikið við. Það er ekki sjálft ákvæðið um upphæðina, sem skapar hæstu tölurnar um útgjöld til starfsmanna ríkisins, heldur það, hver verðvísitalan verður, og Alþingi á að hafa þá hollu og góðu afstöðu að gera það, sem í þess valdi stendur, — og það hefur nú gert það á ýmsum sviðum, — til að sporna við því, að verðlag á vörum fari upp úr öllu valdi. Í þá átt stefna þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til að binda £ í Englandi, binda fé í nýbyggingarsjóðum og bjóða út stór lán, sem binda fé landsmanna, svo að þeir komi ekki til að spyrja eftir því litla verðmæti, sem til er í landinu, og auka þannig á dýrtíðina, því að verðlagið hlýtur hér eins og endranær að skapast af framboði og eftirspurn. En nú er verið að raska þessu, ekki af okkar völdum, heldur þeirra, sem hafa heimsótt okkur hér, þar sem nú er veitt inn í land okkar milljón eftir milljón og milljónatug eftir milljónatug af svokölluðum peningum, án þess að nokkurt verðmæti skapist á móti. Þessi hætta vofir yfir okkur, og Alþingi er skylt að vinna á móti þessu með öllum ráðum, sem það hefur, og því gat ég ekki annað en staðið upp, þegar ég sá álit fjvn., af því að mér virtist, að þar væri stefnt í öfuga átt í þessu höfuðvanda- máli þingsins.

Hv. form. segir, að ég hafi hlaupið fram fyrir skjöldu, þar sem ég hafi tekið mér hlutverk hæstv. fjmrh. Hann ákveður, hvenær honum þóknast að taka til máls um fjárl., og hann hefur þegar tekið til máls um þau í sinni miklu og merkilegu fjárlagaræðu og mun sjálfsagt koma fram, þegar honum býður svo við að horfa, og ég vona, að hann erfi það ekki við mig; þó að ég noti minn þingmannsrétt til að ræða nú þessi atriði.

Ég veit ekki, hvort ég á að karpa við hann um það, að gefnu tilefni frá hv. 5. landsk., hvað sé verkefni fjvn. Hann segir, að hún sé ekki bundin við fjárlfrv., því að ýmsum till. sé til hennar vísað. Þó það væri nú, að hún mætti tala um það, sem til hennar er vísað. En hefur núgildandi fjárl. verið til hennar vísað? Ég held ekki. Á síðasta þingi var unnið að því máli, og nú eru það fullgild l., og þeim hefur alls ekki verið til hennar vísað. Hins vegar geta allir tekið hin og þessi mál upp, en það er ekki sambærilegt við að taka fyrir núgildandi fjárl., fyrst n. fór ekki þá leið að ganga frá fyrirframfjáraukal. Það var einu sinni gert, svo að tvenn fjáraukalagafrv. lágu fyrir, annað, sem borið var fram um yfirstandandi ár, og svo það venjulega frv., sem borið var fram, eftir að ríkisreikningur hafði verið endurskoðaður, en um slíkt er ekki að ræða hér, heldur í raun og veru breyt. á þeim fjárl., sem gengið var frá á síðasta þingi.

Ég get varla annað, af því að hv. þm. gerði mér þann vafasama heiður að líkja mér við skrattann, en að minnast lítið eitt á það. Hann nefndi hann að vísu ekki, en hann sagði, að ég hefði lesið nál. eins og viss persóna les vissa bók. Ég vona, að jafnmikill munur sé á mér og þessari persónu og er á þeirri bók og nál. En eftir ræðu hv. form. fjvn. skil ég þetta nál. betur en í upphafi. Hann segir, að n. hafi aldrei dottið í hug að ausa út fé á þessu ári, því að það standi hvergi í nál., að fénu skuli eytt á þessu ári. En ég hefði gaman af að vita, hvernig hægt væri að lesa álitið öðruvísi en þannig, að mönnum blandaðist ekki hugur um, að fénu skyldi varið til verklegra framkvæmda á þessu ári. „Starf n. hefur verið tvíþætt að þessu sinni,“ segir í upphafi nál.N. hóf starf sitt á því að taka fjárl. yfirstandandi árs til nýrrar meðferðar.“ En hvers vegna er það gert, ef ekki til þess að koma með till. um viðbótarfjárveitingar á þessu ári, því að ef það er ekki, hvers vegna var þá verið að taka þau fyrir? Nei, það getur ekki verið átt við neitt annað en að ætlazt hafi verið til, að fénu yrði varið á þessu ári. Svo segir: „Einkum og sér í lagi voru það fjárveitingar til verklegra framkvæmda, sem endurskoðun n. beindist að.“ Svo hefur n. látið gera útreikninga um það, hvað vegalagningar og brúargerðir mundu kosta meira en þegar hefur verið áætlað. Sem sagt, allur stríðsundirbúningurinn er gerður með það fyrir augum að hefja framkvæmdirnar á þessu ári. Svo er talað um, að sams konar útreikningar og athuganir hafi verið gerðar um fjárframlög til ýmissa annarra verklegra framkvæmda, eins og t. d. hafnargerða og lendingarbóta, húsabóta, sandgræðslu, skógræktar, fyrirhleðslna, landþurrkunar o. fl. Síðan segir svo: „Allt eru þetta framkvæmdir, sem mjög mikils er um vert fyrir þjóðina, að hægt sé að hraða sem allra mest, en fjárveitingar til þeirra höfðu af eðlilegum ástæðum verið mjög skornar við neglur, þegar gengið var frá fjárlögum yfirstandandi árs.“ Ef ekki átti að veita þetta fé til framkvæmda á yfirstandandi ári, þá veit ég ekki, hvað hefur átt að þýða að taka fjárlög yfirstandandi árs til nýrrar meðferðar og gera allar þessar athuganir og útreikninga.

Næst er vikið að því, hvað tekjurnar hafi orðið miklar umfram áættun, og undir slíkum kringumstæðum beri að leggja mesta áherzlu á tvennt, skuldagreiðslur og verklegar framkvæmdir. Síðan segist n. hafa gert sundurliðaðar till. um auknar fjárveitingar til verklegra framkvæmda á þessu ári og sent ríkisstjórninni. Hvað á að gera með till. um auknar fjárveitingar á þessu ári, ef ekki á að veita féð á þessu ári? En eins og ég tók skýrt fram, þá segir n., að ef erfitt yrði um vinnu,afl, ætlast hún til, að þetta fé sé geymt, en ég vil bara benda á, að ekki yrði auðveldara að standa á móti ásóknum eftir fé til þessara framkvæmda, ef búið er að raða þessu niður, heldur en ef það er látið liggja kyrrt. Sömuleiðis er með þessu gefið undir fótinn um að ganga út í sem ýtrasta samkeppni við aðra um að fá vinnuaflið til þessara framkvæmda. Síðan segir: „Fjárveitinganefnd gengur út frá því, að tekin verði ákvörðun um þessar tillögur eigi síðar en einhvern tíma milli 2. og 3. umr. fjárlaganna.“ Þetta sýnir, að það hefur verið fullur ásetningur n. að láta þessi nýju fjárl. um framkvæmdir á þessu ári vera um garð gengin, áður en fjárl. fyrir árið 1942 yrðu afgr. Ég veit sannast að segja ekki, til hvers þessi fyrsta blaðsíða nál. er skrifuð, ef það hefur ekki verið meiningin að veita viðbótarfé til verklegra framkvæmda á þessu ári. Annars hefði n., getað sagt, að hún ætlaðist til, að hinar miklu umframtekjur yrðu varðveittar vel og ætlaðar til verklegra framkvæmda á sínum tíma, þegar það þætti fært. Ég verð að segja, að ef sú persóna, sem hér var nefnd, les ekki vissa bók verr en ég hef lesið þetta nál., þá get ég ekki sagt, að það sé slæmur lestur. Hitt er annað mál, að mér þótti ákaflega vænt um að fá ræðu hv. þm. Borgf., form. fjvn., með þeim útskýringum, sem komu þar fram, og ræða hans sýndi, að þetta var aðeins fært óheppilega í stílinn, og ég er honum sammála um svo að segja allt, sem hann sagði þar. Það, sem ég er þá hv. form. og n. sennilega ósammála um, er það, að ég tel miklu auðveldara fyrir fjármálastjórnina að geyma þetta fé, ef því er ekki skipt fyrir fram til einstakra verklegra framkvæmda, því að það liggur í augum uppi, að hversu óheppileg sem of mikil fjáreyðsla er fyrir þjóðina, þá er eðlilegt, að þeir, sem hlut eiga að máli, mundu hver toga sinn skækil, og að það er alveg eðlilegt. Menn langar til að fá veg á þessum stað, brú á þessum stað og hafnarbætur á þessum stað, og er eðlilegt, að hver maður hugsi ekki svo mikið um hag alþjóðar, að hann sjái ekki bezt það, sem næst honum er, en það er ekki auðveldara fyrir fjármálastjórnina að halda í þetta fé, ef farið er að úthluta því fyrir fram, svo að hver og einn veit, hvað honum er ætlað. Það er miklu heppilegra, eins og hv. 5. landsk. vill láta gera, að safna fénu í sérstakan sjóð, sem svo sé geymdur til verklegra framkvæmda, og þá er hægt að spara sér fyrstu blaðsíðu þessa nál., en það er hún, sem 3 hv. nm. hafa fyrirvara um.

Í raun og veru gæti maður sagt, að skoðanamunurinn milli mín og hv. form. fjvn. stafi af mismiklu trausti á fjármálastjórninni. Ég veit ekki, hvers konar fjármálastjórn það væri, sem allt ætti hér að eyðileggja og eyða þessum peningum í ég veit ekki hvað. Mér finnst sjálfsagt, ef stj. fær afgang af tekjum þessa árs, að hæstv. fjmrh. sjái um þetta fé, þangað til þingið ráðstafar því. Ég ber það traust til núverandi fjmrh., að hann þurfi enga fjárveitinganefnd til þess að hafa vit fyrir sér í þessu efni. Ef það er meining n., að ekki eigi að nota féð á þessu ári, sé ég ekki, að n. þurfi neitt um það að segja, svo framarlega sem hún treystir hæstv. fjmrh. til að fara með þetta fé og hann hefur ekki heimild til að gera neitt við það vel og hyggilega.

Hv. þm. Borgf. hélt, að skoðanamunurinn milli okkar mundi kannske stafa af því, að ég skilji ekki eins vel þarfir manna úti um land. Ég skal játa, þó að ég sé alinn upp í sveit fram á fullorðinsár og hafi oft komið í sveit síðan, þá hef ég nú lengi verið í kaupstað, og má því vel vera, að þeir, sem koma utan af landsbyggðinni og hafa starfað þar alla tíð, þekki betur, hversu miklar þarfirnar eru. En það má mikið vera, ef þessi aukna þekking hv. þm. gerir það að verkum, að hann taki heppilegustu stefnuna. Það er sem sé alls ekki víst, að sá, sem hlut á að máli, sé bezt fær til að kveða upp réttan dóm. Þegar á að kveða upp dóma, er yfirleitt reynt að velja til þess þá menn, sem ekki eiga hlut að máli, og ég get vel trúað, að viðkvæmni fyrir því, hvað þarfirnar eru miklar, sem ég og allir viðurkenna, geti vel leitt menn inn á einhverja braut í þeirri almennu fjármálastjórn, sem er ekki eins heppileg fyrir almenning og vera ætti. Einmitt það, hvað þessi hv. þm. þekkir vel og skilur þessar þarfir, getur orðið til þess, að hann verði helzt til veikur á svellinu, þó að alþjóðarheill í raun og veru heimti annað, en betra sé í þessu efni að hafa þann óháðari dómara. Og það er áreiðanlegt, að í þessu máli fer ekki saman heill alþjóðar og hinna einstöku byggðarlaga, sem að skiljanlegum hætti finna til þarfarinnar og óska eftir ýmiss konar verklegum framkvæmdum.

Mér skildist hálfpartinn á hv. þm. Borgf., form. fjvn., að hann teldi, að ég lenti í vandræðum með þessa peninga, sem kynnu að koma umfram í ríkissjóð, því að ég áliti, að það mætti ekkert við þá gera. Það mætti ekki borga skuldir, það mætti ekki verja þeim til verklegra framkvæmda, og það mætti helzt ekki geyma þá. Það er dálítið til í þessu hjá hv. þm., ef hann tekur það einhliða. Ég benti á, að ekkert af þessu væri vandalaust, ekki einu sinni að geyma þá. Ég benti líka á örðugleikana við að borga skuldir, sem ég veit ekki, hvort n. hefur gert sér ljósa. Ég skal ekki ábyrgjast, hvort ríkisskuldabréfin eru með innlausnarkvöð, en ég hygg, að miklir erfiðleikar yrðu við að borga þær skuldir, sem eru í ríkisskuldabréfum, því að ég veit ekki, hversu viljugir menn væru á að afhenda þau, nema þá með miklu umframverði.

En um verklegar framkvæmdir erum við sammála, ef hann vill fallast á það, sem ég sagði, að ekki eigi að ráðast í þær nú, meðan atvinnuástandið er eins og það er. nú, en ég er honum sammála um, að féð eigi að fara til verklegra framkvæmda. Ég viðurkenndi, að nauðsynlegt væri með þeirri miklu óvissu, sem nú er um allt, að heimild sé á fjárl. til að draga úr útgjöldum, og ég er honum sammála um, að verið getur, að ganga þurfi lengra, að það þurfi ef til vill ekki aðeins að nota þessa heimild, heldur kannske líka að samþ. l., sem heimili að lækka einnig einhver lögboðin gjöld, en ég get trúað, að hvenær sem þyrfti að beita slíkum ákvæðum, þá mundu þau verða ákaflega erfið í framkvæmd fyrir þá, sem ættu að sjá um slíka framkvæmd.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að lengja miklu meira umr. um þetta, því að ég er hv. þm. að miklu leyti sammála. Mér þótti vænt um að heyra ræðu hans og tel, að tilgangi mínum með þessum aths. hafi verið vel náð. Hann segir, að stefna n. sé varfærnisstefna, og það er til varfærni, sem ég hvet, en einskis annars. Það er langt frá, að ég vilji deila á þá, sem vilja fara varlega. Hann segir, að svo geti farið, að fram verði bornar lækkunartill. við fjárlfrv., og þá gefist kostur á að sjá, hver helzt vilji fara varlega. Ég held, að við séum að þessu leyti mjög samrýmdir, og ég veit ekki, hvor okkar er meiri sparnaðarmaður. Það hefur stundum verið svo þing eftir þing, að ég hef ekki borið fram eina einustu till. um hækkun, nema kannske um 300–400 kr.; og ég hef ætíð verið í flokki þeirra, sem hafa viljað hindra, að ofvöxtur væri í fjárl. Nú reynir á þolrifin. Það er ekkert að vera sparsamur í vondu árferði. Ég vil vitna í orð Jóns Þorlákssonar, sem var mjög glöggur maður. Hann sagði, að það væri enginn vandi að vera fjmrh. á erfiðleikatímum, þegar allt ætti að spara, en það væri vandi að stjórna, þegar góðæri væri. Þetta eru virkilega sönn orð. Þess vegna reynir nú á fjvn. og Alþingi að stjórna fjármálunum varlega, þó að nóg sé í ríkissjóðnum. Mér virtist vera nokkur misbrestur á því í nál., og þess vegna kom ég með þessar aths. Mér þykir því vænt um, að ég hef eytt öllum misskilningi, sem kannske hefur verið frá minni hendi um þetta atriði, því að ræða hv. form. gaf annað í skyn en að fjvn. ætlaði að hvetja til óhóflegrar eyðslu.