08.05.1941
Efri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

112. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Magnús Jónsson:

Ég ætla ekki að fara að andmæla þessu frv. En mér finnst óviðkunnanlegt, að viðkomandi ráðh. skuli ekki segja neitt um álit sitt á þessu. Það er ekki einu sinni hægt að sjá, hvort álits hans hefur verið leitað.

Það er nú orðið svo, að menn tala alltaf í milljónum, eins og ekkert væri, en það hefur þó komið fyrir, að hér á Alþ., og meira að segja til skamms tíma, hafa verið samþ. löng lög til þess að fresta ýmsum nauðsynlegum og lögmæltum greiðslum, og það jafnvel greiðslum, sem sömu menn ættu nú að telja smávægilegar, eins og t. d. 100 þús. kr. til Landsbankans og framlagið til þjóðleikhússins. Ef menn hafa ekki algerlega fengið ofbirtu í augun af ástandinu, Þá ætti að mega benda á, að hér er þó um að ræða ½ millj. kr. framlag úr ríkissjóði. Auk þess fæ ég ekki skilið, á hvern hátt þetta ætti að auðvelda Samábyrgðinni endurtryggingar.

Samábyrgðin hefur nú ríkissjóðsábyrgð fyrir lánum, svo á að bæta þessu við. Mér finnst, að með þessu sé stefnt að því, að ríkissjóður taki fyrirfram þá áhættu, sem koma kann.

Ég vil svo spyrja frsm., hvort þetta mál hafi verið rætt við ríkisstj. í Nd.