05.03.1941
Neðri deild: 12. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

38. mál, vátryggingarfélag

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Ég get að mestu látið nægja að vísa til grg. þeirrar, er fylgir frv.

Það er kunnugt, að félög þau, sem starfa eftir lögum þeim, sem hér er gert ráð fyrir að breyta, hafa þegar starfað um tveggja ára skeið. Það var þegar í upphafi gert ráð fyrir, að óhjákvæmilegt mundi að breyta l. þessum áður langt liði, eftir því sem reynslan benti til. Á þeim stutta tíma, sem l. hafa gilt, hafa verið gerðar á þeim tvær smábreyt., báðar eftir ósk skipaeigenda, en hins vegar hafa vátryggjendur ekki talið rétt að gera breytingar á l., fyrr en full reynsla væri fengin fyrir þeim, og þeir hafa ekki talið, að reynslutíminn mætti vera styttri en þetta, og hafa því ekki óskað þess fyrr en nú, að lagfæringar væru gerðar á þeim ágöllum, sem fram hafa komið.

Það, sem komið hefur fram, að helzt þyrfti að breyta, eru ákvæði, sem valdið hafa misskilningi og þrætu. Breyt, þær, sem í frv. felast, eru því gerðar til þess að komast hjá þessum agnúum.

Vegna hins óvenjulega ástands, sem nú ríkir, þykir rétt að gera dálítið auknar kröfur til skipaeigenda. Hér er því gert ráð fyrir, að skipaeigendur beri helming kostnaðar við dráttarhjálp. Eins og kunnugt er, þá eru vélar skipanna ekki tryggðar sérstaklega, en hins vegar hefur komið í ljós, að á árunum 1939 og 1940 var nálega þriðji hluti allra bótaskyldra tjóna hjá félögunum dráttarhjálp vegna vélabilunar. Og reynslan hefur sýnt annað, og það er, að allverulegur hluti þessara tjóna er sjálfskaparvíti, sem stafar af því, að skipstjórarnir fá oft stór skip til þess að draga sig, og það oft skip, sem eru jafnvel að veiðum. Þetta gera skipstjórar á hátum, sem hafa talstöðvar, og geta því látið eigendur eða útgerðarmennina vita um sig, og geta því í mörgum tilfellum verið möguleikar á að fá ódýra hjálp handa þeim. Við þetta geta vátryggingarfélögin ekkert ráðið. Það eru aðeins skipaeigendurnir, sem hafa möguleika á að draga úr þessum kostnaði, og því er lagt til, að þeir beri helming bótaskyldra tjóna vegna dráttarhjálpar.

umr. lokinni óska ég frv. vísað til 2. umr. og sjútvn.