29.04.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

1. mál, fjárlög

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti ! Þar sem ég var einn af þeim fjvnm., sem skrifuðu undir nál. um fjárlfrv. með fyrirvara, þykir mér hlýða að gera með örfáum orðum grein fyrir mínum fyrirvara. Skal ég ekki þreyta menn með löngu máli og ekki blanda mér inn þær umr., sem hér hafa farið fram fyrir utan málið, sem er til umr.

Þegar þingheimur fékk það upplýst af hæstv. fjmrh. snemma á þinginu, að tekjuafgangur hafi orðið allríflegur á síðasta ári, eða 4 millj. 875 þús. kr., þá þótti fjvn., sem hafði með væntanleg fjárl. að gera, ástæða til að líta á þessa góðu afkomu ríkissjóðs og hugsaði sér til hreyfings um, að margt mætti nú gera; nú mætti fylla upp skörðin og bæta upp það, sem við höfum hin önnur ár orðið að fara sparnaðarleiðina með. Og þess vegna var það, að sú skoðun varð ofan á í n., að meiri hl. n. var með því að nota eitthvað af þessu fé til þess að veita það til frekari verklegra framkvæmda á yfirstandandi ári heldur en n. hafði lagt til á síðastl. ári með núverandi fjárl. Þess vegna var það, að meiri hl. n. kom sér saman um að semja till. í þessa átt og senda ríkisstj. til athugunar, eftir að ríkisstj. hafði verið boðuð á fund n. til þess að athuga þessar till. lauslega. En svar hæstv. ríkisstj. er enn ekki komið við till. n.

Út af þessum till. eða í sambandi við þær myndaðist sú fyrirvaraafstaða mín . og annarra hv. nm. tveggja, að við gátum ekki fallizt á einstaka liði till., eins og þeir voru útlistaðir.

Fyrst og fremst vakti það fyrir mér, að þessar umframtekjur ríkissjóðs yrðu notaðar til þess að greiða með þeim skuldir. Ég hafði hins vegar ekkert á móti því, ef eitthvað væri þá aflögu, að það yrði lagt til hliðar og því væri varið til verklegra framkvæmda, þegar meiri væri þörf fyrir að láta vinna þær heldur en nú er. Ég gat ekki litið svo á, að á þessu ári væri bein þörf á að auka fjárframlög til verklegra framkvæmda, vegna þess að eins og útlitið hefur verið hingað til þetta ár, virðist allt benda til, að atvinna verði mjög mikil í landinu á þessu ári, og þess vegna áleit ég, að Alþ. þyrfti ekki sérstaklega að skerast í leikinn um að auka atvinnu nú. Auk þess þóttist ég vita, að svo gæti farið, að framkvæmdir Breta hér á landi gætu raskað áformum þessa árs til verklegra framkvæmda. Og í öðru lagi var hættulegt fyrir okkur að auka mjög umfram fjárlög á þessu ári verklegar framkvæmdir, sem gæti orðið til þess að trufla framleiðsluna í landinu, bæði til lands og sjávar.

Ég er alls ekki á móti því, að lagt verði fé til hliðar nú, til þess að geta mætt kannske örðugri árum — við vitum ekki, hvað næsta eða næstnæsta ár hefur okkur að bjóða, — og nota það til verklegra framkvæmda eitthvað í áttina við þær till., sem hv. meiri hl. n. hefur samþ. og. sent hæstv. ríkisstj.

Þessa vildi ég aðeins láta getið, til þess að það kæmi skýrt fram, hvað fyrir mér vakti með því að skrifa undir með fyrirvara. Mér finnst óvarlegt að verja nú á þessu ári 1.6 millj. kr. til verklegra framkvæmda, og sérstaklega til verklegra framkvæmda eins og það er sundurliðað af hv. meiri hl. n.