07.05.1941
Efri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

38. mál, vátryggingarfélag

Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Þetta frv. er komið frá Nd. og var þar flutt af form. vátrygginga á íslenzkum fiskiskipum, sem er gamla Samábyrgðin. Í Nd. gekk frv. breytingalítið í gegnum allar. umr. Sjútvn. þessarar d. athugaði frv. og féllst á það í öllum atriðum. Það er svo, eins og bent er á í nál., að upp í þetta frv. eru teknar breyt., sem gerðar hafa verið á vátryggingarl. fyrir vélbáta 1939–1940. Aðalbreyt., sem frv. gerir ráð fyrir framyfir það, er áður er tekið fram, eru snertandi viðskipti félaga á milli, þ. e. þegar ágreiningur verður milli félaga eða milli félaga og Samábyrgðarinnar. Það hefur sýnt sig, að ákvæðin um það, hvernig þá skuli að farið, hafa ekki reynzt nógu ljós, og er því gerð ýtarleg breyt. á þessum ákvæðum.

Þá er 4. gr. Hún er um upphæðir þær, sem ætíð dragast frá tjónbótum, og eru skipin flokkuð nokkuð ýtarlegar en í gildandi lögum. Frádráttarupphæðinni er í raun og veru ekki breytt, en flokkarnir eru fleiri og stigin því fleiri.

Þá er aðalbreyt., sem olli ágreiningi í Nd., um það, hve stór skuli vera sá hluti skipstapa, er skipseiganda ber að greiða, þegar um bætur fyrir veitta aðstoð er að ræða. Lög þau, sem nú eru í gildi, kveða svo á, að skipseigandi skuli greiða 10% af bótum fyrir veitta aðstoð, þegar annað skip veitir hjálp. Það hefur sýnt sig, að bætur fyrir veitta aðstoð hafa orðið stór liður í útgjöldum ábyrgðarfélaganna. Virðist hafa komið fram sá grunur, að bætur fyrir veitta aðstoð væru í mörgum tilfellum metnar of hátt og að það stafaði að nokkru leyti af því, að hlutdeild skipseiganda í greiðslu bótanna væri of lítil til þess, að hann láti sig upphæð bótanna nokkru skipta. Ég skal engan dóm á það leggja, hvað mikið er til í þessu, en hitt er víst, að það er ekki hættulaust að hafa þennan hluta, sem lagður er á skipseiganda, óeðlilega háan, því að það getur freistað til þess, að síður verði leitað aðstoðar; og getur af því leitt miklu meira tjón en það, sem hjálpin kostaði, Í frv. var upphaflega svo ákveðið, að skipseigandi skyldi í þessum tilfellum greiða 50% af bótum, en Nd. tók þetta til lagfæringar og færði það niður í 25%. Þó að sjútvn. Ed. þyki þetta að vísu fulllangt gengið í þessu efni, þá hefur hún ekki viljað gera það að ágreiningsefni, vegna þess að komið var svo nærri því marki, sem hún var fús til að ganga inn á, sem var 1/5. N. mun því láta við svo búið standa, þó að henni þyki þetta ákvæði ekki með öllu sanngjarnt.

Ég hef þá minnzt á þær aðalbreyt., sem frv. gerir á gildandi 1., en vil þó geta þess, að þessi d. hefur þegar afgr. breyt. á þessum sömu 1. í frv.formi, og er það frv. komið til Nd.

Þegar þetta frv. er nú til meðferðar, þykir n. rétt að færa þetta allt í sama frv., og leggur því til með breyt. á þskj. 368, að ákvæði þess frv., sem þegar er afgr. héðan, verði tekið upp í þetta frv., og þar með ætti þá hitt frv. að geta verið úr sögunni. Hv. þdm. munu vera þess minnugir, hver undantekning það var, sem bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja var veitt í l. upphaflega um það að falla ekki undir ákvæði þessara laga um þriggja ára skeið. Ég verð að segja það, að eins og árangurinn af þessum l. hefur hingað til verið, þá sýnist mér sú ástæða vera fyrir hendi, sem upphaflega var þess valdandi, að Vestmannaeyjar fengu þessa undanþágu. Enn þá er það form, sem upp var tekið með þessum lögum, ekki orðið það tryggt, að réttmætt sé að skylda elzta ábyrgðarfélag landsins — það félag, sem alla tíð hefur staðið við allar sínar skuldbindingar án aðstoðar, — til þess að búa við það, eins og fram hefur komið hér í umr. um hið umrædda frv., sem ég hef minnzt á. Ég tel sjálfsagt, að þetta ákvæði sé fellt inn í frv., sem hér liggur fyrir.

Ég hef, fyrir hönd n., ekki fleira um þetta að segja. N. lítur svo á, að miklar líkur séu til, að margt af þessum nýmælum geti orðið til bóta á framkvæmd bátaábyrgðarlaganna. Því verður ekki neitað, að reynslan hefur ekki orðið eins ákjósanleg eins og menn hefðu óskað um þessi bátaábyrgðafélög. Við verðum enn um sinn að bíða reynslunnar um það, hvort ekki þarf að gera enn fleiri breyt. til þess að fá þetta mál í gott horf og vinna að því, að þessar tryggingar geti orðið í lagi.

Ég vil geta þess hér, að eftir síðustu vertíð mun vera svo ástatt hjá nokkrum félögum, sem búsett eru við Faxaflóa, að þau munu vera gjaldþrota. Við því verður náttúrlega ekki gert með neinu lagaboði. Hins vegar sýnir reynslan það, að þessi l. verða að sveigjast nokkuð eftir því, sem reynslan kennir manni. Í því sambandi vil ég benda á annað frv., sem kemur til umr. síðar, um breyt. á Samábyrgðinni. Ég mun víkja að því síðar, þegar það kemur hér fyrir.

N. mælir eindregið með því, að þetta frv. nái fram að ganga, með þeim breyt., sem ég hef skýrt.