03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

106. mál, iðnlánasjóður

Frsm. (Emil Jónsson) :

Hv. þm. A.-Sk. taldi, að það ætti í raun og veru ekki að vera nema tveir tollar, helzt aðeins verðtollur og vörumagnstollur, og tollalöggjöfin ætti að vera sem einföldust. En svo taldi hann upp mörg önnur gjöld, sem mér skildist, að ættu rétt á sér, svo sem innflutningsleyfisgjald, viðskiptagjald og gjald vegna rafmagnseftirlits. Finnst mér, að ef fært þykir að hafa t. d. þetta gjald til rafmagnseftirlits, þá sé það sýnu nær, að leyft væri að innheimta þetta gjald fyrir iðnlánasjóð. Og ég sé ekki, að það ruglaði neitt við innheimtuna, þótt það væri lagt á.

En það er ekki hægt að neita því, að með því að leyfa ekki þetta gjald er verið að slá á framrétta hönd iðnrekenda, því að enda þótt þeim sé það í sjálfsvald sett að leggja fram þetta gjald, þá hlýtur hver og einn að sjá það, að þeir gera það því aðeins, að allir leggi fé fram. Hvað það snertir, að þetta sé neyzluskattur, þá er það ekki rétt. Þetta fé á að renna til iðnlánasjóðs til þess að létta undir með fyrirtækjum með hagkvæmari lán, og það, sem það kostaði þá í útlögðum peningum, mundu þeir vinna aftur 1 hagkvæmari lánum.