29.04.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

1. mál, fjárlög

Ísleifur Högnason:

Herra forseti! Ég verð líklega að trúa því, sem ég heyri yfir lýst, að einstakir þm. eigi engan kröfurétt á, að umr. sé útvarpað, það sé baktjaldamál stjórnarflokkaforingjanna. En mér virtist 53. gr. þingskapanna gera ráð fyrir því sem almennri venju, að útvarpað sé eldhúsumr., frh. 1. umr. fjárl., og gæti sú venja ekki fallið niður, ef nokkur þm. bæri fram eindregna ósk um, að henni skyldi haldið, og ekki sízt, ef sú ósk fengi stuðning allmikils hluta þm. Ég óska þess hér með, að útvarpsumr. fari fram við þessa umr. og að forseti láti atkvgr. skera úr um, hvort hún skuli fram fara eða ekki. Samkv. anda þingskapanna hlýtur að vera skylt að leita þingviljans um slíkt atriði, er ágreiningur rís um það.

Þar sem hæstv. forseti telur, að ég hafi rangt fyrir mér, er ég vitna til 53. gr. þingskapanna, vil ég, með leyfi hans, lesa fyrstu málsgr. hennar: „Við framhald fyrstu umr. fjárl. mega ræður í fyrstu umferð vara eina stund, en síðan hálfa stund þrjár umferðir og enn aðrar þrjár stundarfjórðung. Skal þá útvarpi umræðu um fjárlög að fullu lokið.“ Ég get ekki skilið betur en svo V. kafla þingskapanna, sem er allur um útvarpumræðna, en að 53. gr. fjalli um þær umræður einar, sem sjálfsagt sé talið, að útvarp að verði undir öllum venjulegum kringumstæðum. Sá, sem lögin hefur samið, hefur áreiðanlega ætlazt til þess, að útvarpað yrði frh. 1. umr. fjárl.; því mun seint verða hnekkt með forsetaúrskurðum og lagakrókum, og um þá reglu mun ekki hafa risið ágreiningur, meðan fylgt var fullum lýðræðisvenjum. Þegar neitað er um útvarpsumr. eldhússdags, getum við stjórnarandstæðingar ekki skilið það öðruvísi en brotinn sé réttur á okkur, brotinn réttur lýðræðisins í landinu, og afsakanir á því að undirlagi ríkisstj. séu að engu hafandi. Því óska ég, að atkvgr. þm. skeri úr.